Víðs vegar um Bandaríkin hefur lögreglan tekið rafmagnsbíla af gerðinni Tesla Model Y í notkun. Ekki bara af því að gaman sé að góma skúrka og fúlmenni á Teslu heldur ráða umhverfissjónarmið og fjármunir líka einhverju.
Raunar eru Teslur notaðar sem lögreglubílar víðar en í Bandaríkjunum. Má þar nefna Sviss, Bretland og Tæland sem eru með fáeina bíla frá Tesla til reynslu í hlutverki lögreglubíls.
Lögreglan í Aspen vill 5 bíla
Í vikunni greindi blaðið The Aspen Times frá því að lögreglan í Aspen í Colorado falist nú eftir 311.000 dollurum (rúmar 40 milljónir ISK) frá borgarstjórn Aspen til kaupa á fimm Teslum Model Y.
Bílarnir sem lögreglan í Aspen hefur áhuga á eru LR (Long Range) og kosta þeir 10.000 dollurum meira en hin hefðbunda útgáfa af Model Y. Verði þessi fjárveiting samþykkt er ekki ólíklegt, að sögn aðstöðaryfirlögreglustjórans, að bensínbílaflotanum verði alveg skipt út fyrir rafbíla.
Rafbílar myndu þá leysa af hólmi Ford Police Interceptor bensínjeppa (eru byggðir á Explorer) og fimm 12 ára gamla lögreglutvinnbíla af gerðinni Toyota Highlander.
Samkvæmt útreikningum lögreglunnar myndu þessi skipti spara þeim í Aspen gríðarlegar fjárhæðir en svo dæmi sé tekið kostar það lögregluna þar 44.000 dollara á ári að reka hvern Ford Police Interceptor. Svo ekki sé minnst á umhverfisþáttinn. Sem fyrr er undirrituð lítt gefin fyrir útreikninga og talnasúpur almennt og vísar á hlekkinn að ofan ef lesendur vilja sökkva sér í útreikningana.
Sérstök bílasaga lögreglunnar í Aspen
Það má greina af viðtali blaðsins við aðstöðaryfirlögreglustjórann að lögreglan í Aspen hafi fengið nóg af því að vera á „skrítnum“ lögreglubílum og vilji jafnvel vera töff svona til tilbreytingar.
Á áttunda áratug síðustu aldar varð löggan í Aspen „fræg“ fyrir sérstakan bílaflota en samkomulag var gert við sænska bílaframleiðandann Saab og frá ca. 1970 til 2004 ók lögreglan þar eingöngu um á Saab. Sem þótti sérstakt.
Umræður um þessa grein