Ástrali að nafni John McGregor deildi furðulegustu bílasögu sinni á veraldarvefnum fyrir tveimur árum. Sagan er nokkuð eldri og segir það kannski sitt um aldur hennar að fjölskyldubíllinn var af árgerðinni 1952.
Nema hvað! Sagan er rosaleg og hana verður að hafa nokkuð beint eftir karli. Hefst nú sagan:
„Ég ólst upp á sveitabæ sem var vægast sagt afskekktur, lengst inni í landi. Þetta er það sem við köllum ‘Outback’ Ástralíu. Á býlinu vorum við með kindur og kýr. Þetta var það afskekkt að ef einhvern tíma sást bíll á ferð þá var næsta víst að þar var einhver sem hafði villst. Aðrir voru ekki á ferðinni.
Pabbi hafði í einhverju bríaríi keypt fólksbíl, 1952 árgerðina af Ford Mainline, og sagðist hann hafa keypt bílinn handa mömmu. Eins konar afsökun eða réttlæting fyrir kaupunum, því bílinn þurftum við varla.
Jæja, tíminn leið og bíllinn varð að eins konar dráttarklár í sveitinni. Hann þurfti jú líka að vinna eins og aðrir. Aftursætin voru einhvern tíma fjarlægð til að meira pláss væri fyrir tæki og tól. Bíllinn var í sannleika sagt ruslahrúga á hjólum eða færanleg geymsla fyrir hitt og þetta.
Oftar en ekki höfðu einhverjir fjárhundanna búið sér ból í bílnum og höfðust þar við.
Bíllinn var með öðrum orðum það sem kalla má algjört ógeð (held að hann hafi aldrei verið þveginn eða þrifinn) en samt var þetta góður bíll sem virkaði. Hann var með öfluga V8 vél, veghæðin var mikil OG síðast en ekki síst; í bílnum var frábær LOFTKÆLING. Loftkælingin var svo öflug að á allra heitustu dögunum gat hún nánast fryst á manni trýnið eða aðra líkamshluta.
Það var einmitt á slíkum degi, sjóðandi heitum, sem ég settist upp í Fordinn til að kanna stöðuna á vindmyllunni. Hún var í um 20 kílómetra fjarlægð frá býlinu.
Þar sem ég var að ferðbúast veifaði mamma mér, kom út á hlað og bað mig að sækja eldivið í leiðinni fyrir ofninn í eldhúsinu. Best væri ef ég gæti náð í holtré [viðardrumbar sem eru holir] líka því þessu blandaði mamma saman [mismunandi eldiviði] til að jafna hita ofnsins við bakstur.
[Já, lesendur góðir, þessi smáatriði þurfa að fylgja].
Því næst rak ég hundana út úr bílnum (ég þurfti að koma eldiviðnum einhvers staðar fyrir) og lagði af stað.
Myllan var í lagi og allt eins og það átti að vera og eftir að hafa gengið úr skugga um það fór ég og sótti viðinn sem við höfðum staflað upp nokkrum mánuðum fyrr. Heppnin var með mömmu því þarna var jú holviður inn á milli.
Maður minn hvað það var heitt! Sem betur fer blés loftkælingin í Fordinum ísköldu.
Ég stappfyllti skottið og sömuleiðis fyllti ég farþegarýmið þar sem búið var að taka sætin úr bílnum. Því næst stillti ég loftkælinguna á kaldasta blástur og hélt af stað heim á leið.
Þegar ég hafði ekið fáeina kílómetra fann ég eitthvað strjúkast við ökklana á mér. Ég hélt ég yrði ekki eldri þegar ég sá hvers kyns var! Þarna sá ég hana hlykkjast um skóna mína: baneitraða Mulga-slöngu.
Næsthættulegasta eitraða kvikindi Ástralíu og engin slanga er árásargjarnari en Mulga. Þetta er eina slangan sem ég óttast virkilega. Hún getur kastað sér tvöfalda lengd sína og fullvaxnar geta þær orðið allt að tveir og hálfur metri að lengd. Mulga eltir fólk uppi á ógnarhraða og getur hæglega fellt heilt hross – og auðveldlega manneskju!
Um mig fór kuldahrollur en það var ekki eingöngu vegna loftkælingarinnar. Kaldur svitinn bogaði af mér og ég gat varla litið af skriðkvikindinu. Þar sem ég horfði á það hringa sig sá ég að þetta var ekki fullvaxin slanga. Hún var ekki nema eins og hálfs metra löng, í mesta lagi.
Ég gat ekki betur séð en að slangan væri að sofna og engin merki voru sýnileg um að hún væri í árásarhug. Þá áttaði ég mig! Kuldinn frá loftkælingunni var að svæfa kvikindið. Kuldinn sagði henni að tímabært væri að leggjast í dvala.
Varfærnislega beindi ég lofttúðunum niður á gólf og gætti þess að hreyfa fæturna hvergi. Ég lét bílinn renna og passaði mig á hvers kyns ójöfnum á veginum. Aldrei hefur leiðin heim verið svona svakalega löng!
Ég áttaði mig á hvernig þetta atvikaðist. Slangan hlýtur að hafa verið sofandi inni í holviðnum þegar ég staflaði drumbunum í bílinn. Ekki veit ég hvernig í veröldinni stóð á því að hún vaknaði ekki við raskið og réðist á mig þegar ég var að atast þetta. Ætli það megi ekki þakka sjálfum skaparanum. Bað ég himnaföðurinn að vernda mig aðeins lengur en ég hafði ekki hugmynd um hvað gera skyldi þegar ég kæmi heim.
Slangan var greinilega sofandi. Eða var það kannski bara óskhyggja í mér?
Þegar að aflíðandi brekkunni kom, brekkunni heim að bænum okkar, færði ég gírstöngina gætilega og tók úr gír. Í hlutlausum skyldi Fordinn renna heim í hlað og allan tímann var ég með annað augað á slöngunni, Mulga.
Ekki gat ég fært fótinn til að bremsa svo að nú var bara að vona það besta; að Fordinn myndi staðnæmast mjúklega. Það gerði hann og ég skrúfaði niður rúðuna þannig að örlítil rifa myndaðist. Þarna sat ég gjörsamlega frosinn, í öllum skilningi. Augu mín hvörfluðu frá slöngunni að eldhúsdyrunum þar sem ég mætti spyrjandi augum móður minnar.
Mamma var fljót að átta sig á að eitthvað væri að og sótti pabba. Pabbi gekk örskömmu síðar að bílnum og spurði hvað væri að. Mér tókst að gefa honum bendingu um að hafa hljótt og hljóðlaust mótaði ég með vörunum orðið „slanga“ og gaf bendingu í átt að gólfi bílsins.
Pabbi reyndi að gægjast inn og myndaði hljóðlaust orðið „Mulga“ og ég gat með látbragði staðfest að það væri nú einmitt raunin. Pabbi gekk til mömmu sem horfði áhyggjufull á mig þar sem hún stóð við eldhúsdyrnar. Eftir stuttar útskýringar fór pabbi inn í skemmu og á meðan þau brösuðu þetta hélt Fordinn gamli áfram að blása ísköldu lofti og slangan svaf í blessuðu kalda loftinu.
Mamma kom svo ásamt manni úr sveitalöggunni og var sá vopnaður haglabyssu. Nálguðust þau bílinn hægt og pabbi kom úr hinni áttinni, með blautan strigapoka. Með nákvæmum bendingum, skipulagi, niðurtalningu og svo mjög samhæfðum hreyfingum tókst þeim að rífa upp bílhurðina; ég slengdi mér út úr bílnum, pabbi kastaði blautum stigapokanum yfir slöngua og PÆNG! Slangan var dauð og ævintýraleg árás á sofandi eiturslöngu tókst betur en maður hafði þorað að óska sér!
Ég stóð upp eftir að hafa rúllað mér út úr bílnum og gekk beint í opinn faðm móður minnar sem tók á móti mér tárvot. Hún hágrét og faðmaði mig innilega. Pabbi og löggan tókust í hendur og sammæltust um að best væri að löggan ætti inni eins og einn drykk hjá pabba.
En ég? Jú, ég vætti buxurnar mínar og sór þess eið að ferja aldrei eldivið í þessum bíl. Því skyldi ég sko ekki gleyma. Og því hef ég sannarlega ekki gleymt.“
Þannig var sagan sem var og er John McGregor efst í huga þegsar hann er inntur eftir furðulegustu bílferðinni. Vonandi á ekkert eftir að „toppa“ þetta hjá honum því ég hugsa að þetta sé nú bara miklu meira en nóg af furðulegheitum.
John McGregor deildi þessari sögu á vefnum Quora.com á umræðuþræði um furðulegar bílferðir.
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein