Loksins kom smá uppstytta og þá þutum við niður í Vatt og fengum hjá þeim BYD Atto3 lánaðan í smá tíma. Við Gulli vorum að vonum spenntir enda höfðum við séð bílinn í salnum hjá þeim og fannst hann mjög spennandi.
Það sem helst vakti athygli var nýstárlega innanrýmishönnunin. Loksins kom eitthvað aðeins öðruvísi.
Nokkuð venjulegur bíll í útliti.
Svipuð stærð
Atto3 er bíll sem svipar til Hyundai Kona, Kia Niro og þeirra bræðra Subaru Solterra og Toyota BZ4X. Stærð og afköst eru nokkuð svipuð sem og eiginleikar þessara bíla.
Það sem tekur Atto3 hins vegar framfyrir í þessum samanburði er verðið en Atto3 kostar aðeins 5.980.000 krónur og er boðinn á aðeins einu verði og í einni veglegri búnaðarútfærslu. Það þykir okkur svolítið töff.
Atto3 kemur á 18 tommu álfelgum og undir bílnum eru hágæða Continental hjólbarðar.
Öflugt umboð
Atto3 kemur frá risabílaframleiðandanum BYD í Kína. BYD er frekar ungt fyrirtæki en býr yfir gríðarlegri tækni og reynslu í framleiðslu rafhlaða.
Plúsinn er síðan að það er áratugareynsla í bílainnflutningi hjá umboðsaðilanum hér á landi en Vatt ehf. er tengt Suzuki umboðinu gamalgróna.
Build your dreams.
Atto3 er svosem ekkert sérstakur í útliti, nokkuð venjulegur bíll, ekkert sérlega fallegur og alls ekki ólaglegur af bíl að vera. Litur bílsins var ekki að hjálpa í okkar tilfelli en rykið sást allavega vel á honum.
Hann er bara nokkuð líkur öðrum í sínum flokki.
Hönnuðir bílsins hafa ekki haft mikið fyrir því að aðgreina útlit hans frá samkeppninni – nema í innanrýminu – þar er þessi bíll að skora hátt að okkar mati.
Farangursrýmið er hæðaskipt og rúmar um 440 lítra.
Aflmikill og vel búinn
Þetta er fólksbíll með framdrifi, 204 hestafla rafmótor sem togar um 310 Nm. Það er yfirnóg fyrir bílinn sem er þó um 1750kg. að þyngd.
Rafhlaðan er neðst í bílnum sem gerir hann afar stöðugan á vegi og þyngdarpunkturinn er nánast í miðjunni.
Að því sögðu er mjög gott að aka Atto3. Hann er enginn sportbíll enda ekki hannaður sem slíkur. Plássið er þrælgott þó svo að ef til vill hefði klasinn fyrir hurðarhandföng og rúðuupphalara mátt vera örlítið nettari. Þar rekur maður stórar lappir í sem getur pirrað einhverja.
Atto3 stýrir mjög vel og tilfinningin er eins og þú sért á aðeins stærri bíl. Sjónlínan er frábær og ekkert sem skyggir á eins og í mörgum bílum í þessari stærð.
A-bitinn er sem sagt þannig frágenginn að hann rýrir ekki útsýnið um framgluggann.
Sætin í bílnum eru sérlega þægileg og gott að setjast inn og stíga út.
Nýstárleg innanrýmishönnun
Mælaborðið er toppflott. Þar hafa hönnuðir farið svipaða leið og VW í ID bílum sínum að setja mælaklasann ofan á stýrið. Það kemur afar vel út í þessum bíl og lögun mælaborðsins er bæði falleg og gerir mikið fyrir augað.
Efnisval er líka prýðilegt og samsetning á öllu stöffinu í bílnum er til fyrirmyndar. Ekkert skrölt á neinu, minnir helst á að maður sitji í mun dýrari þýskum bíl.
Hellingur af plássi
Plássið aftur í er með ágætum. Þar fer vel um tvo stóra einstaklinga í aftursætinu og alveg örugglega um þrjú börn eða unglinga. Gólfið er slétt og fínt pláss fyrir fætur undir framsætum.
Eftirtektarvert er hve sæti bílsins eru góð, þau halda vel við bak og læri og seturnar eru lengri en í mörgum öðrum sambærilegum bílum.
Margmiðlunarskjárinn er bæði hægt að hafa láréttan og lóðréttan.
Hagkvæmni
Rafhlaða bílsins tekur um 61 kWst. Uppgefin eyðsla er í kringum 16 kWst. á hverja 100 km. en við vorum að aka bílnum þannig að hann sýndi um 20 kWst. á hverja 100 km. Drægni skv.
WLTP staðli er um 420 kílómetrar í blönduðum akstri. Sennilega er hægt að ná eitthvað fleiri kílómetrum í drægni ef bílnum er ekið í bæjarakstri og lítið verið að hamast á inngjöfinni.
Hægt er að hlaða allt að 88 kW í hraðhleðslu en í heimahleðslu er bíllinn að taka 11 kW á klukkustund. Það þýðir að heima erum við um 6 klukkutíma að hlaða frá 10-80% sem er kjörhleðsla fyrir þennan bíl.
Undir mælaborðinu er tengiklasi fyrir raftæki og einnig afturí – þar má finna USB A og C tengi.
Fimm stjörnur
Atto3 er með fimm stjörnur í EURONCAP árekstrarprófinu enda bíllinn fullur af loftpúðum og öðrum öryggisbúnaði.
Ef eitthvað er hægt að finna að bílnum var frekar erfitt að sjá á margmiðlunarskjáinn í sólskininu á prófunardegi. Það er svo sem ekki til að hafa miklar áhyggjur af hjá okkur – það er nánast aldrei sólskin.
Hins vegar má snúa margmiðlunarskjánum á tvo vegu – lárétt og lóðrétt og hægt er að stýra flestu sem þarf til að nota búnað bílsins með tökkum í stýri.
Flottur bíll á toppverði
BYD Atto3 er glæsilegur bíll sem hentar án efa mjög breiðum hópi fólks.
Allt frá barnafjölskyldum upp í eldri borgara sem vilja eiga rúmgóðan bíl sem er lipur og þægilegur í borginni og hentar vel í ferðalög og lengri ferðir einnig.
Atto3 er búinn ISOFIX festingum aftur í og í farþegasæti frammí.
Ekki spillir að bíllinn er afar vel búinn, flottur að innan og á toppverði. Við mælum með rauða litnum.
Helstu tölur:
Verð kr. 5.980.000
Afl mótors: 204 hö.
Tog: 310 Nm.
Drægni: 420-565 km. skv. WLTP staðli
Hleðslugeta: 88 kW á klst.
Hleðslugeta með heimastöð: allt að 11 kW á klst.
Stærð rafhlöðu: 60,48 kWst.
Lengd/breidd/hæð: 4.455/1.875/1.615 mm.