Það var orðið ákaflega langt síðan ég hafði reynsluekið Hyundai, þegar ég settist upp í sprúðlandi nýjan i20. Gullfallegan sjálfskiptan smábíl, sem þrátt fyrir að vera grár og svartur að lit, var með eindæmum litríkur!
Hvernig má það vera? Jú, oft er talað um litríka persónuleika/karaktera þegar mannfólk er annars vegar og þá er ekki átt við kynsystur mínar sem hafa litar hárið sitt í litum regnbogans. Nei, það er ekki skilyrði.
En margbreytileikinn er litríkur. Þannig er þessi litli bíll.
Hefur maður prófað fimmfalt dýrari bíla sem ekki skarta nándar nærri sambærilegum karakter í akstri. Þar hafið þið það lesendur góðir!
Fyrsta Hyundai-minningin
Af því að langt er síðan undirrituð hefur skrifað um bíla af gerðinni Hyundai, þá leitaði hugurinn aftur eftir fyrstu minningunni um bíl af þessari gerð. Rann þá upp fyrir mér ljós; Hyundai var sennilega sú bíltegund sem ég ók fyrst allra í lífinu. Áður en ég fékk ökuréttindi. Þetta byrjar jú allt einhvers staðar.
Föðurafi minn heitinn, hafði öll mín uppvaxtarár átt Lödu Sport. Betur bónaða Lödu Sport sá maður ekki að jafnaði. Alltaf eins og ný og þegar hann keypti nýja var maður smá stund að átta sig. Hann fór í það minnsta vel með bílana sína og allt sem hann kom nærri.
Skömmu eftir að afi varð ekkill keypti hann nýjan bíl. Ekki bara nýjan, heldur aðra tegund! Þá fór maður nú að hafa áhyggjur. Í alvöru. Mér leist bara ekki á að afi gamli væri að breytast svona.
Hvað næst? Ætlaði hann að fara að keppa á bob-sleða? Nei, þetta var ekki svo svakalegt.
Hann keypti sér Hyundai Pony. Fagurrauðan. Og þegar hann var rétt búinn að aka bílnum úr umboðinu, heim til sín í Stigahlíðina rétti hann mér lyklana að bílnum: „Jæja, prófaðu nú nýja bílinn frá Suður-Kóreu,“ sagði hann stoltur.
„En afi,“ sagði ég skelkuð. „Ég er ekki einu sinni byrjuð að læra á bíl og veit ekkert hvað ég á að gera! Og svo bara má þetta ekki!“
Þetta fannst honum nú skemmtilegt! „Jú, ég leyfi það,“ sagði hann. Sem betur fer féllst hann á að aka sjálfur út fyrir helstu umferðaræðarnar og þar tók ég við. Svitinn bogaði af mér á meðan andlitið var eldrautt og náhvítt á víxl. Hef sennilega litið út eins og danski fáninn blikkandi í fína rauða bílnum hans afa. En þarna hófst þetta og minningin er skemmtileg!
Heildarábyrgð í fyrsta sinn á Íslandi
Áður en við segjum skilið við Hyundai fortíðarinnar er rétt að minnast á eitt mjög áhugavert! Snemma árs 1988 birtust í blöðunum auglýsingar þar sem kynnt var nýjung á íslenskum markaði: Hyundai Excel var fyrsti bíllinn sem seldur var með fimm ára ábyrgð.
„Hann er gerður til að endast, viðhaldið er í lágmarki og þú getur verið áhyggjulaus í 5 ár,“ segir m.a. í auglýsingu sem birtist í Tímanum
Í dag þykir okkur kannski sjálfsagt að margra ára ábyrgð sé á nýjum ökutækjum en þannig var það alls ekki fyrir rúmlega þrjátíu árum. Einn þeirra blaðamanna sem reynsluók bílnum skrifaði í fyrirsögn greinar: „Hlífir eigendum við áhyggjum af notkun“ og vísar þar til fimm ára ábyrgðarinnar.
Skrifaði hann enn fremur: „Þá er það mikill kostur að hann [Hyundai] er boðinn til sölu með fimm ára ábyrgð á öllum hlutum bílsins. Er þetta í fyrsta sinn á Íslandi sem boðin er heildarábyrgð á bifreið.“
Greinina í heild er að finna hér.
Snaggaralegur bílstjóri á snaggaralegum bíl
Maður er jú ungur enn, það er ekki spurning! En mér leið eins og ég væri mikill töffari þegar ég skottaðist um götur borgarinnar á svona liprum bíl sem Hyundai i20 er!
Derinu á derhúfunni var umsvifalaust snúið aftur um leið og bílstjórinn komst í gírinn.
Snar í snúningum og fagur á að líta. Hið fyrra er staðreynd: Hann er lipur, með góðan beygjuradíus og ekkert er þunglamalegt við aksturinn. Hið síðarnefnda (að i20 sé fagur á að líta) er auðvitað smekksatriði og persónuleg skoðun undirritaðrar.
Rýnum í helstu staðreyndir áður en lengra er haldið:
Prófaður var 2021 árgerð af i20, sjálfskiptur með þriggja strokka 1.0 l. vél (með túrbínu) sem skilar 100 hestöflum. Bíllinn fæst líka beinskiptur með 1.25 MPi vél en verðbilið er frá 2.690.000 kr. til 4.190.000 kr. og eru útgáfurnar fjölmargar hvað búnað snertir. Allar gerðirnar eru þó í grunninn ákaflega vel búnar. Minnist ég þess til dæmis ekki að hafa áður séð grunngerð bíls með hita í stýri sem staðalbúnað en þannig er það í i20. Nóg um það í bili!
Hvað hefur breyst?
Stutta svarið er: Nánast allt. i20 hefur stækkað, hann er orðinn virkilega sportlegur í útliti, litaúrvalið er skemmtilegt (hægt að velja á milli tíu lita) auk þess sem hægt er að fá bílinn tvílitan, þ.e. með svörtu þaki.
Bíllinn er 24 mm lægri en forveri hans, 30 mm breiðari og „hinn innri“ bíll er mun rúmbetri – bæði er hann það í rauninni (m.a. 25 l. stærra farangursrými) og svo er hönnunin snjöll og rýmið nýtist vel. Er nánast viss um að einhver ofursnjall stærðfræðingur hafi verið fenginn til að hanna bílinn að innan. Þarna hefur einhver Pýþagóras og vinur hans verið á bak við tjöldin. Gullinsnið og einhver fleiri áhrif frá Forn-Grikkjum má greina þarna. Hnitmiðað, stílhreint og ekkert kjaftæði takk!
Vélin kemur sannarlega á óvart. Þá á ég við 1.0 vélina. Hún virkar suddalega vel. Með góðri samvinnu sjö þrepa sjálfskiptingar, sprækrar vélar, léttrar bifreiðar og káts bílstjóra er útkoman farartæki sem eyðir rétt um 5 L/100. Þegar bílstjóri er ofsalega kátur og gleymir sér aðeins verður eyðslan nær 6 L/100 en ekki komst ég yfir 6 L/100 þó gleðin væri mikil og gaman að vera til!
Snjallbíll í sérflokki
Tækni og öryggi í i20 2021 árgerðinni er kapítuli út af fyrir sig. Þegar ég, sem bílablaðamaður, notaði fyrst orðið „snjallbíll“ fyrir margt löngu síðan hefði mér ekki dottið til hugar tæknisnilld dagsins í dag.
Snjallbíllinn sem ég fjallaði kannski um fyrir 8 árum er í dag orðinn að risaeðlu eða steingerðum leifum risaeðlu í samanburði við eitt og annað í dag.
Hyundai er með þetta og snilldin kristallast prýðilega í i20. Snjallbíll er hann og hefst nú sagan:
10,25” stafrænn skjár er það sem ökumaður hefur fyrir framan sig en svo er annar 10,25” skjár ofan við miðjustokkinn.
Nú, ökumenn sem ekki eiga snjallsíma eru ólíklegir til að kaupa snjallbíl en það er þó ekki bannað. Kaupa bíl og svo síma. Þá er gaman!
Það er alfarið hægt að „spegla“ (e. screen mirroring) skjá símans yfir á stóra skjáinn/skjáina og gefa svo bara skipanir hægri vinstri um flest allt er snjallgjörðum tengist.
Þetta kerfi sem Hyundai hefur hannað nefnist Bluelink Connected Car Services og er virkilega snjallt. Snjallkynslóðin er kannski yfir það hafin að þurfa að kynna sér hvernig þetta virkar allt saman en fyrir okkur hin þá má fræðast betur um Bluelink með því að smella hér.
Kerfið hjálpar manni til dæmis að finna bílinn fyrir utan Bónus eða Þjóðarbókhlöðuna þegar heilabúið ræður illa við að muna aukaatriði á borð við „hvar-lagði-ég-blessuðum-bílnum“.
Sé maður svo illa áttaður að ómögulegt sé að rifja upp hvort bílnum hafi verið læst eður ei þá er það ekki vandamál: Hægt er að athuga það og læsa bílnum gegnum Bluelink.
Svo ekki sé minnst á að fá tilkynningu um það ef einhver uppivöðsluseggur og ribbaldi reynir að brjótast inn í bílinn. Þá er til dæmis gott í því ástandi sem skapast í kollinum að síminn segi manni bæði ef einhver er að eiga við bílinn og hvar hann sé!
Fleiri orð ætla ég ekki að hafa um Bluelink en mæli með hlekknum hér að ofan til frekari glöggvunar.
Æj, jú! Eitt í viðbót: Hægt er að rýna í ástand bílsins án þess að opna svo mikið sem munninn eða vélarhlífina: Kerfið les stöðu loftpúða, loftþrýstings í dekkjum, bilanaljósa í mælaborði og fleira og fleira. En nú er ég hætt!
Að lokum: Held ég nú að afi heitinn hefði kunnað vel við i20, rétt eins og Hyundai Pony á sínum tíma.
Ljóamyndir: Malín Brand