Litli indíáninn
– smábíllinn sem breyttist í staðalímynd tryllitækjanna
Bandaríkin eru þekkt fyrir stóra bíla, ekki síst eftir 1950 fram yfir 1980. Þó voru gerðar nokkrar tilraunir til að framleiða og markaðssetja minni bíla, jafnvel alvöru smábíla, Við getum nefnt hér bíla á borð við Henry J, Nash Ambassador, Nash Metropolitan og Willys Aero og þennan sem við skoðum hér: Pontiac Tempest.
Pontiac Tempest 1961-1963 er einn merkasti bíl sem Bandaríkjamenn framleiddu á síðari hluta 20. aldarinnar. Tempest var framleiddur lengur, en hér skoðum við fyrstu gerðina, því eftir 1963 var hann gjörbreyttur.
Það er fyrir margra hluta sakir að þessi bíll sker sig úr og verðskuldar að vera settur á stall sem merkilegur bíll, í rauninni tímamótabíll. Til að byrja með er það stærðin, eða kannski öllu heldur smæðin! Við skulum muna að á þessum árum í kring um 1960 voru bandarísku bílarnir ærið stórir, þeir stærstu yfir fimm og hálfur metri á lengd og eftir því breiðir. Þegar Pontiac Tempest kom á markaðinn 1960 (sem 1961 árgerð) var hann 4,8 metrar. Hann var, og er enn hjá Wikipedia, flokkaður sem smábíll! En það er orðabókarþýðing á “compact” sem raunhæfara er að kalla millistærð af bíl, þótt hann hafi sannarlega verið smábíll í samanburðinum á heimamarkaðnum.
Frumsýndur í París
Kannski var það þess vegna að hann var fyrst kynntur austan hafsins á bílasýningunni í París í október 1960. Hönnunin þótti bæði nýstárleg og framsækin á þessum tíma. Bíllinn var svokallað “unibody” sem þýddi að yfirbyggingin var ein heild, burðargrindin hluti af yfirbyggingunni í stað þess sem yfirleitt hafði tíðkast áður að yfirbyggingin sat ofaná sjálfstæðri grind. Þetta gerði bílinn léttari og að mörgu leyti sterkari líka.
Pontiac Tempest deildi botni (e. platform) með Buick Special/Skylark og Oldsmobile F-85/Cutlass og staðalbúnaður í byrjun var fjögurra strokka vél, 3,2 lítrar. Vélin var í rauninni hálf 6,4 lítra V-8 vél og skilaði 110 hestöflum í aflminnstu útgáfu með lágþrýstum stimplum og eins hólfs blöndungi, 140 hestöflum með 10,25/1 þjöppu og sama blöndungi og loks 166 hestöflum með hærra þjöppunarhlutfallinu og fjögurra hólfa blöndungi.
Bíllinn var afturdrifinn eins og allir aðrir bandarískir bílar á þessum tíma (allt þar til Oldsmobile Toronadio kom á markaðinn 1966) og það var einmitt drifbúnaðurinn sem gaf fyrstu gerðinni af Tempest sína helstu sérstöðu. Hann var með sambyggðt drif við tveggja gíra sjálfskiptingu eða þriggja gíra handskiptingu og fjöðrunin var sjálfstæð. Þetta var sambærileg útfærsla og Porsche notaði með góðum árangri í 924, 928 og 944 bílum sínum nokkrum árum síðar.
John Z. DeLorean var aðalhönnuðurinn
Aðalhönnuður þessa fyrsta Pontiac Tempest var enginn annar en framkvæmdastjóri Pontiac-deildar GM: John Z. DeLorean. Hann fékk þetta hönnunarverkefni, að búa til “smábíl” hjá Pontiac eftir miklar vinsældir Chevrolet Corvair og þurfti reyndar að nota sama botn og Corvairinn hafði.
Það var svolítið snúið því Corvair hafði vélina aftur í, en Tempest fram í. Þar af leiðandi þurfti sérlausn fyrir drifskaftið þar sem engin göng voru í gólfinu fyrir það. DeLorean hannaði því það sem kallað er á enski “torque driveshaft” sem mætti ef til vill kalla vindingsdrifskaft, sbr. vindingsfjöðrun sem algeng var á þessum tíma og lengur á bílum frá Chrysler.
Fljótlega var síðan í hálfkæringi eða gríni farið að kalla þetta „Rope Drive sem e.t.v. gæti útlagst sem reipisdrif á íslensku? Þetta þýddi svo líka að ekki þurfti að gera ráð fyrir gírkassa í framgólfinu, þannig að plássið í bílnum varð betra fyrir vikið.
DeLorean vildi að Tempest yrði meira en bara “smábíll” og gekk í að sannfæra blaðamenn helstu bílablaða um ágæti bílsins. Það tókst svo vel að Motor Trend tímaritið útnefndi hann bíl ársins 1961 og Road & Track tímaritið lofaði Tempest sem sérlega rúmgóðan og einhvern notadrýgsta bílinn frá því Ford A kom á markað. En, reyndar viðurkenndi DeLorean síðar að Tempest hefði raunar alls ekki verið vel heppnaður: “Það var ekkert “mekanískt” vandamál, en bíllinn skrölti svo svakalega að það var eins og skottið væri hálffullt af grófri möl.”
Og í byrjun hafði afturfjöðrunin sömu bresti og Corvair og ýmsir evrópskir bílar eins og Volkswagen: Aðeins voru ein liðamót, inni við drifið, svo að í beygjum gat bíllinn bögglað undir sig öxulinn og orðið óstöðugur. Sá ágalli var lagaður 1963 með fjölliða öxli sem reyndist mjög vel.
Eins og vænta mátti af hönnuði eins og DeLorean, dugði ekki að búa þennan merkilega bíl eingöngu fjögurra strokka vélum. Strax í fyrstu gerðinni, 1961 til 1963, var farið að bjóða Tempest með öflugri vélum. Á þeim árum vöru hinir svonefndu “muscle cars” orðnir all vinsælir í Bandaríkjunum, kannski tryllitæki sé það íslenska orð sem helst hefur verið notað um þá? Pontiac Tempest fékkst, auk fjögra strokka vélarinnar, líka með þrennskonar V-8 vélum: fyrst kom 3,5 l (215 cid) Buick en hún gerði sig ekki og var bara boðin stuttan tíma, seldist illa. Þá kom 5,3 l (326 cid) Pontiac og loks 1963 6,4 l (389 cid) Pontiac.
Það var fyrstu tvö árin sem Buick V-8 vélin var í boði, en mjög fáir seldust, innan við fjögur þúsund, eða um 1% framleiðslunnar. Þessi vél skilaði 155-215 hestöflum eftir útfærslum. 326 vélin var hins vegar í rauninni stærri, eða 336 cid. Sagan segir að ástæða þess að hún var sögð 326 cid hafi verið skipun frá stjórn GM um að engin vél í GM bíl mætti vera særri en 327 cid vélin í Corvettunni! Hvort sem sú saga er sönn eður ei er hitt víst að þau stærðarmörk héldu ekki lengi og 1963 kom 6,4 l vélin sem efalaust margir þekkja betur sem 389 cid. Með henni má segja að saga Tempest, eins og hann var hugsaður í byrjun, hafi verið öll.
Afleiðing evrópsku innrásarinnar
Upphafið að Pontiac Tempest má rekja all langt aftur í tímann, að minnsta kosti til áranna upp úr seinni heimsstyrjöldinni. Þá fóru evrópskir smábílar að koma á markaðinn í Bandaríkjunum og bílaframleiðendurnir íhuguðu fljótt að nýta sér áhugann á þeim. Þó voru það ekki hinir þrír stóru, GM, Chrysler og Ford, sem riðu á vaðið. Minni framleiðendurnir byrjuðu eins og American Motors sem kynnti Rambler, Willys kom með Aero og Kaiser með Henry J, þá kom Hudson með sinn Jet. Pontiac umboðsmennirnir vítt um Bandaríkin tóku fljótt eftir að evrópskir smábílar eins og Volkswagen seldust bara talsvert og vildu freista þess að hasla sér völl á þessum hluta markaðarins sem sóttist eftir litlum bílum. Þeir þrýstu á móðurfélagið, GM, að gera eitthvað í málinu.
GM reyndi til að byrja með að stytta sér leið og flytja inn Vauxhall, enda átti GM risinn bæði Vauxhall og Opel. Pntiac stjórnendur gáfu eftir í byrjun og samþykktu að flytja inn Vauxhall frá Evrópu, en – því miður, það stóð ekki lengi. Gæðavandi hrjáði Vauxhall eins og svo marga aðra evrópska bíla á þessum tíma. Af þeim fór því ekki gott orð og þeir seldust illa. Starfsmenn og stjórnendur hjá Pontiac urðu því kátir þegar fréttist að Pontiac skyldi smíða sinn eiginn “smábíl!”
Pontiac menn voru vissulega ekki einir um hituna innan GM, eins og fyrr var getið fóru Buick og Oldsmobile nánast samtímis í þetta ferðalag og nokkrum mánuðum áður hafði hafist hönnun, framleiðsla og sala Corvair hjá Chevrolet. Pontiac skar sig þó úr í byrjun, raunar verulega svo að eftir var tekið. Þá sérstöðu má rekja til eins manns, aðalhönnuðarins Johns Z. DeLorean!
Ósamrýmanlegar hönnunarkröfur?
Hann gerði strax í upphafi kröfur sem virtust ekki geta gengið upp. Og, kannski það merkilegasta, hann komst upp með það og fékk að ráða ferðinni! Fyrsta krafan var að bíllinn mætti ekki vera lengri en Corvair, en fljótt var fallið frá hennig og gefið eftir þannig að hjólhafið (lengd milli öxla) varð 112 tommur í stað 108 tomma á Corvair. Þetta var engu að síður talsvert styttra en algengast var á hinum stóru amerísku vögnum sem vinsælastir og algengastir höfðu verið. T.d. var hjólhafið á Pontiac Grand Prix 1962-1964 120 tommur, Bonneville 124 tommur og svo var það sjálfur Cadillac með upp í 130 tommur.
Þetta skyldi semsagt vera frekar “lítill” bíll, en þrátt fyrir það rúma sex manns svo vel færi um mannskapinn. Að auki skyldi hann vera ódýr í innkaupum og rekstri og áreiðanlegur. Krafan um pláss fyrir sex manns þýddi að hugsa þurfti margt upp frá grunni. T.d. var þá ekki hægt að hafa hinn venjulega og fyrirferðarmikla hrygg upp úr endilöngu miðju gólfinu, göngin fyrir drifskaftið. Og þá var ekki heldur pláss fyrir hvelfinguna sem þurfti að koma upp í farþegarýmið fremst svo gírkassinn kæmist fyrir.
Auðvitað bauðst þeim að gera bíl með loftkælda vél afturí eins og Corvair og leysa plássmálin auðveldlega, en allir þrír: Pontiac, Oldsmobile og Buick höfnuðu því alfarið, tóku það ekki í mál. Allir vildu vélina framí og drif að aftan. Olds og Buick ákváðu að fara þekktar og þaulprófaðpar leiðir, hefðbundið fyrirkomulag, það er V8 vél að framan, þá skiptingu/gírkassa, síðan drifskaft og loks hásingu að aftan. Hönnuðirnir hjá Pontiac, með DeLorean í fararbroddi ákváðu að fara nýjar leiðir með mjög óvenjulega hönnun.
DeLorean var fastur fyrir með kröfuna um pláss og (næstum) flatt gólf. Þá var ekki pláss fyrir hefðbundið drifskaft og ekki heldur fyrir gírkassann eftan á vélinni eins og reglan hafði verið. Í stuttu máli varð lausnin sú, að halla vélinni niður að aftan. Færa gírkassann aftur (kúplingin var þó áfram við svinghjólið á vélinni). Drifið gat ekki hreyfst upp og niður eins og venjuleg hásing, það varð að vera fast við boddýið og gírkassinn tengdur beint við drifið og halla niður að framan, öxlarnir síðan sjálfstæðir og fjöðruðu hvor um sig. Drifskaftið þurfti því að vera fast í endana, en sveigjanlegt. Miðja þess var um þremur tommum (tæpum 8 sentimetrum) neðar en endarnir, engir hjöruliðir, en þriðjungi drifskaftslengdarinnar frá hvorum enda voru kúlulegur fastar í gólf bílsins og heldu drifskaftinu.
Miklar og óvenjulegar prófanir
Þetta var byltingarkennt og menn vissu ekki alveg hvernig ætti að taka svona nýjung. Til að hafa vaðið fyrir neðan sig ákváðu Pontiac menn að þrautprófa þennan nýja bíl. Þeir nánast hertóku prófunarbrautir GM og keyrðu bílinn þar 2,6 milljónir mílna (ríflega 4 milljónir kílómetra). Og þeir gerðu meira, eitt viðamikið próf og óhætt að segja jafn óvenjulegt og hönun bílsins: Þeir réðu 6 unglinga sem óku tveimur Tempest bílum, fjögurra dyra og station, allan sólarhringinn alls í 107 sólarhringa á vegum í Bandaríkjunum og Kanada, um 48 ríki Bandaríkjanna (öll nema Hawai og Alaska) og sjö fylki Kanada. Bílarnir þurftu aðeins minniháttar aðhlyningu í þessari erfiðu prófraun og hvorugur þeirra viðkomandi hinum óvenjulega hjóla- og drifbúnaði. Bíllinn semsagt stóðst prófin með glans.
Krafan um sparneytni þýddi að vélin varð að vera sparneytin. Og hagkvæm í smíði. Þeir völdu einfalda, en trausta leið. Gerðu fjögurra strokka vél úr hægri helmingnum af 389 cid vélinni! Flesta hluti vélarinnar var hægt að nota lítið eða óbreytta úr framleiðslu V8 vélarinnar. Vélin reyndist sparneytin á þess tíma mælikvarða, 20 mílur á gallon (um 12 l/100 km).
Markaðsstarfið gleymdist ekki og þremur vikum áður en bíllinn hafði verið frumsýndur var búið að dreifa ítarlegum upplýsingum, myndum og teikningum af drifrásinni til helstu fagfjölmiðla. Hinn nýji og byltingarkenndi Pontiac Tempest vakti strax gríðarlega mikla athygli. Fjöldi ítarlegra greina birtist um hann í helstu bíla- og tæknitímaritum og hið útbreidda og virta bílablað Motor Trend útnefndi hann bíl ársins 1961.
Sala hófst 3. nóvember 1960. Tempest seldist strax vel, hann var ódýrari en Buick Special og Oldsmobile F-85, en dýrari en Corvair. Talsvert mikið ódýrari en Pontiac af fullri stærð. 101.000 Tempest bílar höfðu selst í lok ársins 1961, sem var ein helsta ástæða þess að það árið varð Pontiac þriðja söluhæsta vörumerkið á bandaríska bílamarkaðnum á eftir Chevy og Ford.
Líklega eru það örlög flestra bíla að stækka. Þannig fór líka fyrir Pontiac Tempest. Til að byrja með var bíllinn afar einfaldur og stílhreinn. Til þess var tekið til dæmis að varla sást nokkuð króm á honum utan við grill, stuðara og glugga. Að innan var hann líka nánast spartanskur.
En, strax var reyndar farið að bjóða hann í fjölbreytilegri útfærslum og þá komu viðbótarnöfn sem við þekkjum framundir síðustu ár: Le Mans og GTO. 1963 kom stóra 389 vélin og jafnvel 421 og 455 cid líka.
Bíllinn var um 1963 orðinn staðalímynd hins gríðaröfluga ameríska tryllitækis, “Muscle Car,” og fátt sem minnti á bílinn sem átti að vera valkostur þeirra sem vildu smábíl. 1964 má segja að þessi Þróun hafi verið staðfest þegar GTO varð sjálfstætt merki hjá Pontiac, ekki lengur undirgerð Tempest.
Eftir 1963 var horfið frá sambyggða drifinu og gírkassanum með sjálfstæðu fjöðruninni (e.: Transaxle) og bíllinn fékk hið hefðbundna fyrirkomulag: Vél og gírkassi framan, drifskaft með hjöruliðum, heil hásing aftan. Í þeirri útfærslu muna líklega flestir bílinn sem hóf sitt skeið sem byltingarkennd hönnun smábíls og fékk þá viðurnefnið Litli indíáminn (e.: Little Indian). Og, svo má geta þess í lokin að hin afar sérstæða hönnun drifskaftsins, sem Tempest hafði til 1963, var þar westra kölluð “Rope Shaft Drive,” eða reipisskafts drif.
Umræður um þessa grein