Lipur og kraftmikill rafbíll sem vinnur á

TEGUND: Opel Corsa e

Árgerð: 2020

Orkugjafi:

Rafmagn

Góðir aksturseiginleikar, gott afl og ágæt drægni rafhlöðu
Þröngt inn- og útstig, engin sérgeymsla á hleðslukapli
137
DEILINGAR
1.2k
SMELLIR

Lipur og kraftmikill rafbíll sem vinnur á

Áferðarfalleg hönnunin sést vel þegar horft er á bílinn frá hlið.
Horft að aftan er útlit Corsa-e alls ekki frábrugðið mörgum bílum í þessum stærðarflokki.

Það fer ekki á milli mála að bylgja rafbíla er skollin á – jafnt hér á landi og hjá nágrönnum okkar. Æ fleiri bílar eru að birtast á markaðnum sem nota aðeins rafmagn frá rafhlöðum og vegalengdin sem við komumst á einni hleðslu er sífellt að lengjast.

Við höfum verið að reynsluaka nokkrum rafbílum að undanförnu, og núna er enn einn kominn í hópinn: Opel Corsa e, snaggarlegur rafbíll sem á að komast 330 kílómetra á einni hleðslu samkvæmt prófunarferli WLTP.

Þegar PSA-samsteypan keypti rekstur Opel og Vauxhall seinni hluta árs 2017 var strax byrjað að undirbúa smíði á litlum rafbíl undir merkjum Opel, sem byggður væri á rafbílagrunni PSA.

PSA hafði þegar sent frá sér rafbílinn Peugeot 208, sem valinn var bíll ársins í Evrópu fyrir árið 2020.

Nú vill svo til að ég hef ekki ekið þessum bíl frá Peugeot, sem sagt er að deili mörgum hlutum með þessum rafbíl frá Opel, þannig að hér verður fjallað um Opel Corsa e á eigin verðleikum án tilvísunar til Peugeot 208.

Afturljósin ná frá afturhleranum og út fyrir horn bílsins.
Það var ekki verið að spara plássið þegar hleðslutenginu var komið fyrir, opnast vel og er aðgengilegt.
Vindskeiðin yfir afturglugganum gerir bæði gagn og gefur bílnum sportlegra útlit.

Fljótlegt að ná sambandi við bílinn

Þessi snaggaralegi Opel Corsa e er fallega hannaður bíll, í stærðarflokki sem oft er kallaður „Polo-flokkur“ með tilvísun til þessa vinsæla smábíls.

Það verður að segjast eins og er að sjaldan eða aldrei hefur sá sem þetta skrifar verið jafn fljótur að ná „sambandi“ við nýjan bíl eins og í tilfelli þessa nýja rafbíls frá Opel. Oftar en ekki þarf þó nokkra vegalengd í nýjum bíl til að hugurinn sé búinn að tileinka sér öll stjórntæki að fullu. Þetta var til dæmis raunin þegar ég var að aka hinum nýja ID3 rafbíl frá VW á dögunum, sem er aðeins framúrstefnulegri í hönnun.

Hönnuðir Opel Corsa e hafa greinilega valið þann kostinn að koma fram með bíl sem byggir á „hefðbundnum“ gildum. Hér er allt „á sínum stað“, stjórntæki hefðbundin að mestu og mælaborð og skjár sýna allt sem máli skiptir við aksturinn.

Gírskiptingin er aðeins frábrugðin og í fyrstu skipti sem ekið var af stað þurfti að horfa vel á að það væri að gera allt rétt, en í þriðju eða fjórðu ferð var skipt um gír án þess að þurfa að horfa á skiptinguna.

Góðir valkostir í akstri

Skiptingin er í raun einföld, en þó er hægt að velja á milli þess að vera með skiptinguna í D sem er hefðbundin stilling, en einnig er hægt að stilla í stillingu B, sem nýtir þá aksturinn og hemlunina til fulls til að hlaða rafgeyminn í akstri þegar þess er kostur.

Gírskiptingin lætur ekki mikið yfir sér og vandist fljótt að nota hana. Hægra megin aftan við hana er rofi sem skiptir á milli akstursstillinga en vinstra megin er rofi fyrir rafstýrðan stöðuhemil.

Þá eru valkostir á þremur stillingum aksturs, sparnaðarstilling (ECO), venjuleg stilling og loks sport-stilling, sem gefur meira afl og betra viðbragð.

Það er ekki mikill merkjanlegur munur í akstri í sparnaðarstillingu og venjulegri stilling, en það má helst sjá muninn á mælaborðinu hvernig bíllinn er að nýta rafmagnið hverju sinni.

En þegar skipt er yfir á sport-stillinguna þá verður heldur betur vart við mun. Ef stigið er þéttingsfast á orkugjöfina, þá kemur hálfgerð „Tesla-tilfinning“ í aksturinn, snögg viðbragðið verður til þess að bakið þrýstist að sætisbakinu og talan á hraðamælinum stækkar hratt!

En þegar ekið er í þeirri stillingu sem á að hámarka nýtingu og „endurhleðslu“ rafhlöðunnar þá verður bíllinn „hálf þvingaður“ í akstri – og þeim tilraunum var fljótlega hætt.

En það er alveg hægt að segja um þennan litla rafbíl að hann er í raun „kraftmikill“ miðað við stærð rafmótorsins og aflið sem hann sendir frá sér.

Í venjulegum akstri sýnir myndin á skjánum í grænum lit þegar verið er að nota orkuna frá rafhlöðunni…
…en um leið og hægt er á, eða hemlað þá breytist liturinn í blátt sem sýnir að það er verið að hlaða rafhlöðuna.

Góður öryggisbúnaður

Þessi rafdrifna Corsa e er hlaðinn öryggisbúnaði. Góð LED-framljós lýsa vel fram á veginn og þau fylgja með þegar beygt er og tryggja þannig góða yfirsýn. Hraðaskynjun tryggir bil á milli bíla á akstri.

Árekstrarvarar með neyðarhemlun eru bæði að framan og aftan, og vara við með hljóðmerki ef hætta steðjar að. Myndavél með 180°víðsýni aðstoðar þegar verið er að leggja í stæði og sýnir vel hindranir fyrir aftan bílinn.

Til viðbótar má nefna þreytu- og svefnviðvörun, akreinavara og fleira.

Ljúfur í akstri

Heilt yfir er ekki annað hægt að segja en Corsa e er mjög ljúfur bíll í akstri. Sætin veita góðan stuðning, setan veitir þó þá tilfinningu að vera í þynnra lagi, og það er ágætt pláss fyrir alla, jafnt í framsætum sem og í aftursætum. Stjórntæki eru öll innan seilingar og það tekur stuttan tíma að ná áttum varðandi þau öll.

Það súldaði aðeins í hluta reynsluakstursins og þá kom í ljós frábær búnaður regnskynjunar sem setti rúðuþurrkur í gang ef regndropar sáust á rúðunni. Ég hef reynt þennan búnað í dýrum lúxusbílum en átti ekki von á svona góðri virkni í smábíl sem þessum.

Akreinavarinn lætur vita ef verið er að færa sig á milli akreina, en lætur ökumanninn að öðru leyti í friði.

Stýrið svarar mjög vel og það kom verulega á óvart hversu lítið slitrásir í malbikinu höfðu áhrif á aksturslagið. Það er gott að leggja bílnum í stæði – bæði vegna lipurðar í stýri – og vegna hjálparbúnaðar.

Eitt má nefna til viðbótar – þótt það komi í sjálfu sér ekki svona reynsluakstri mikið við – en hljómtækin í þessum bíl eru með þeim betri sem ég hef prófað lengi!

Vinnustaður ökumanns er góður og öllu er haganlega komið fyrir innan seilingar.

Ágætlega hljóðlátur

Eitt það fyrsta sem vekur athygli í rafbílum er hversu hljóðlátir þeir eru. Ekkert vélarhljóð er að angra okkur, og það er greinilegt að hönnun undirvagnsins hjálpar til við að deyfa veghljóð, og þegar ekið var á nýjum malbiksspottum rennur bíllinn nánast alveg hljóðlaust áfram.

Á þessari teikningu sést vel hvernig rafhlöðupakkanum er komið fyrir undir gólfinu í bílnum, bæði til að spara pláss og lækka þyngdarpunktinn, sem bætir aksturseiginleikana.

Corsa e er frábrugðinn „venjulegri Corsa“ að því leyti að við smíðina þurfti að koma rafhlöðupakkanum undir gólfið og því er Corsa e með frábrugðna fjöðrun að aftan, sem er ekki síðir en í „venjulega“ bílnum. MacPherson gormafjörðun er að framan.

Flott afl

Það var aðeins nefnt hér að framan að í sport-stillingu er Corsa e með gott afl. Rafmótorinn gefur 136 hestöfl (100kW) og hámarkstogið er 260 Nm. Þetta afl dugar greinilega vel til að koma þessum 1530 kílóa bíl áfram. Þetta „fulla afl“ næst þegar bíllinn er í sportstillingunni, en til að spara rafmagnið þá er aflið takmarkað í hinum stillingunum, 105 hestöfl í venjulegu stillingunni og 79 hestöfl í sparnaðarstillingu.

Sjálfskiptingin í þessum bíl er greinilega vel samhæfð við vélina, því svörunin í akstri var alltaf nákvæm og skilaði bílnum vel áfram.

Drægni á fullhlaðinni rafhlöðu er 330 kílómetrar samkvæmt WLTP staðli, rafhlaðan er 50 KWH og það er hægt að ná 80% hleðslu aftur á 30 mínútum í hraðhleðslustöð.

Það tekur 7,25 klst að hlaða rafhlöðuna að fulli í 7,4 kW hleðslustöð, og í 11 kW hleðslustöð tekur að 5,5 klst.

Þegar vélarhlífin er opnuð kemur í ljós miklu meira „dót“ en margir hefðu talið í rafdrifnum bíl.

Aðeins meira um pláss og tölur

Það er ágætt pláss þegar maður situr í þessum nýja Corsa e, en það mætti vera auðveldara að stíga inn og út úr bílnum, sérstakleg fannst mér þetta þegar farið var úr ökumannssætinu. En þegar ég var búinn að koma mér fyrir í bílnum var ekkert því til fyrirstöðu að leggja í langferð.

Eitt af því örfáa sem hægt er að kvarta undan í þessum lipra Corsa-e er að það er frekar þröngt að fara inn og út úr bílnum. Þegar setið er í sætinu þá er líkaminn að hluta innan við dyrastafinn og þá þarf að beygja sig fram til að fara út og það þar þrengir að.
Sama á við um aftursætið, þar er líka aðeins þröngt að fara inn og út, en þegar inn er komið er gott pláss til að sitja í sætunum, jafnt að framan og aftan, og höfuðrými fyrir hávaxna er dágott.

Farangursplássið kemur eiginlega á óvart, hefði haldið að rafhlaðan myndi „stela“ plássi en gerir það greinilega ekki, er væntanlega öll fyrir framan afturhjólin.

Plássið er 267 lítrar með aftursætin í uppréttri stöðu sem er fínt pláss og dugar örugglega flestum í daglegri notkun.

Hlerinn að aftan opnast vel upp þannig að það er engin hætta á að reka hausinn í hann þegar opnað er.  
Farangursrýmið er ágætlega rúmgott í svona litlum bíl og hægt er að leggja fram sætisbakið í hlutum þegar þörf er á meira plássi.

En eitt kom á óvart í annars vel búnum bíl: Engin sýnileg „sérgeymsla“ á hleðslukapli.

Og ef haldið er áfram að ræða tölur þá eru ytri mál bílsins þessi: lengdin er 4060 mm og hæðin er 1435 mm. Breiddin er 1960 mm með spegla úti og 1765 mm þegar búið er að leggja speglana að.

Og það segir sitt um lipurðina í bæjarakstri að beygjuradíusinn er aðeins 10,74 m.

Niðurstaða

Opel Corsa e er álitlegur bíll, með nægilegt aksturssvið til að duga lang flestum sem bíll til daglegra nota, sérstaklega þegar horft er til þess að meðalfjölskyldan ekur í dag í kring um 50 kílómetra á hverjum degi. Getur vel verið eini bíllinn á heimilinu og frábær sem annar bíll að heimili. Bíllinn er þæglegur, lipur og ágætlega „praktískur“ að flestur leyti.

Það mætti vissulega vera þægilegra að fara inn og út úr bílnum að mínu mati, en þetta er jafnvel eitthvað sem einhver annar finnur ekki fyrir.

Ég er samt á þeirri skoðun að ef ég byggi við þær aðstæður að geta átt rafbíl þá myndi ég skoða Opel Corsa e í alvöru! Og meina það!

Helstu tölur:

Verð frá kr. 3.990.000 Corsa-e Edition, kr. 4.490.000 Corsa-e Elegance – verð á reynsluakstursbíl: Corsa-e Innovation kr. 4.790.000

Lengd (mm): 4060.

Hæð (mm): 1435.

Breidd með spegla niðri / með spegla uppi (mm): 1960 /1765.

Beygjuradíus (m): 10,74.

Geymslupláss – aftursæti uppi: 267 lítrar.

Þyngd: 1530 kg.

Rafhlaða: 50 kWh (80% hleðsla á 30 mín með hraðhleðslustöð).

Hámarksafl: 100 kW, 136 hö.

Hámarkstog: 260 Nm.

Hámarkshraði: 150 km/klst.

Drægni: 330 km skv. WLTP.

Álitsgjafar: Pétur R. Pétursson og Gunnlaugur Steinar Halldórsson.

Myndband og klipping: Dagur Jóhannsson.

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar