Lengri leiðin heim? Já takk!

TEGUND: Polestar 2

Árgerð: 2022

Orkugjafi:

Rafmagn

138
DEILINGAR
1.3k
SMELLIR

„Það þýðir ekkert að standa bara og glápa upp í loft,“ sagði einhver við mig þegar ég var unglingur og ætlaði mér að verða stjarneðlisfræðingur. Enn á ég það til að rýna út í endalausan himingeiminn en stjarneðlisfræðingur er ég ekki.

Það var einmitt deildarmyrkvi á tungli að morgni þess dags sem ég átti stefnumót við splunkunýja Pólstjörnu og því fleira en eitt tengt himinhvelfingunni sem ég hlakkaði til að sjá þennan daginn.

Deildarmyrkvann sá ég ekki. Ekki vegna skýjafars heldur var ég sofandi.

En Pólstjörnuna sá ég, og með hana fyrir augum sefur maður ekki. Svo er það nú eitt að við akstur á Polestar 2 fer maður viljandi ekki stystu leiðina heim. Nei, maður velur þá lengri. Ekki spurning því þessi bíll er sko ávísun á skemmtilegan akstur. Sama hvernig undirlagið og veðrið er.

Þvílík spenna og áhugi

Í minningunni er langt síðan ný bíltegund hefur vakið jafn mikla athygli og Polestar. Jú, Tesla gerði það nú líka á sínum tíma og vekur enn athygli þó að tegundin sé ekki alveg „ný“.

Áhuginn á Polestar 2 var orðinn gríðarlegur hér á Íslandi áður en nokkur hafði hugmynd um hvort bíllinn yrði seldur á Íslandi eða ekki.

Nú, þegar hann er kominn til landsins og reynist ódýrari en t.d. Tesla, ja, þá verður bíllinn jafnvel enn áhugaverðari.

Hvað er svona spennandi?

Það hljóta að vera fleiri atriði en eitt sem skapa þessa eftirvæntingu eftir Polestar. Ekki bara hér á landi heldur út um alla veröld. Þættir á borð við tenginguna við Volvo, nýtt merki á rafbílamarkaði, glæsilegur bíll, góð drægni, mikill íburður, sjálfbærni- og umhverfissjónarmið og svo þessi vonarstjarna.

Eitthvað nýtt. Ekki bara „eitthvað nýtt“ heldur nýtt upphaf, fersk hugsun og andblær.

Orkuskiptin, allar þessar breytingar og framtíðin eiga eftir að leiða í ljós hvernig fer fyrir kúlunni sem við öll búum á.

Nei, nei, stopp! Nóg er nú komið af heimspekilegum og himinhvelfdum vangaveltum og áður en við förum að sjá fleiri stjörnur hoppa og skoppa um skjáinn er rétt að vinda sér í mál málanna: Hvernig er að aka svona Pólstjörnu?

Þegar akstur og akstursánægja fara saman

Hvernig það er að aka Pólstjörnu? Jú, stjarnfræðilega skemmtilegt! Í alvöru talað þá er þetta hreinasta „oplevelse“, eins og fólk hefði kannski orðað það á sunnudögum í gamla daga.

Mikið óskaplega er þetta vel hannað tæki; útlitslega og verkfræðilega. Það eru fáar tilviljanir í heildarútkomu bílsins.

Ég fann samt nokkur atriði sem kannski má kalla tilviljanir, frávik eða eitthvað sem mætti vera öðruvísi en því kem ég að rétt á eftir og ætla að fá að dvelja aðeins lengur við akstursánægjuna.

Það getur verið býsna erfitt að útskýra upplifun með orðum. Til dæmis upplifun manns af akstri eins og í þessu tiltekna dæmi. Þá þarf maður að passa sig að skrifa ekki bara: „Þetta var rosa gaman,“ heldur frekar eitthvað í þessa átt: „Ég beið spennt, eins og barn á aðfangadag eftir að opna mætti jólapakkana.

Þegar búið var að opna pakkana og maður alveg æðislega ánægður með gjöfina, þá segir einhver að þetta hafi bara verið aukapakkinn undir jólatrénu. Svo kemur eitthvað enn stórkostlegra.“

Vonandi skilja lesendur hvað átt er við. Að aka bílnum var ljómandi gott og rosalega margt „kúl“ að sjá og prófa. Svo brosir maður, sérstaklega eftir að hafa heyrt verðið á bílnum, og prófar aðeins að setja inngjöfina í gólfið á beinum kafla og þá koma flugeldarnir og öll heila sýningin. Svo ekki sé minnst á skemmtunina að aka eftir malarvegi!

Og mann langar ekki heim alveg strax, því það er svo gaman að finna aflið, dýnamíkina, loftstreymishönnunarsnilldina og hvernig maður pakkast inn í sætið.

Þarna er eðlisfræðin í essinu sínu: 300 kW / 408 hestöfl og 660 Nm tog og hröðunin, eða öllu heldur „upptakið“ þegar hljóðfráa orrustustirnið leggur í hann, er 4,7 sekúndur úr kyrrstöðu upp í 100.

Rétt er að geta þess að drægnin sem gefin er upp fyrir grunngerðina er allt að 480 kílómetrar (þið þekkið þetta vonandi: miðað við bestu aðstæður o.s.frv). Nú gerði ég ekki almennilega prófun á drægni bílsins í íslenskum nóvembersudda en hver veit nema það gefist tækifæri til frekari prófana síðar.

Útfærslur og hógværð

Hér að ofan var rétt aðeins minnst á verð, án þess að segja hvert verðið er. Það er nefnilega rúsínan í pylsuendanum (æj, segjum frekar „tyggjókúlan í trúðaísnum“).

Polestar 2 kostar í grunnútfærslu 6.750.000 krónur og er hann býsna góður þannig. Þá má bæta við Performance pakka (margir pakkar í þessari grein, enda að koma jól) fyrir 700.000 krónur og þar með er bíllinn öllu sportlegri (nánar um það eftir smá…) og svo er það einn pakki enn; Pilot pakki sem kostar 400.000 krónur.

Engar áhyggjur, þetta er ekki flugmaður sem fylgir þarna með, heldur akstursaðstoð ýmiss konar (hröðunar-, hemlunar- og stýrisstuðningur) og öryggisbúnaður sem ekki þarf að útlista hér og nú.

Þetta þykir undirritaðri sniðugt: Bíllinn kostar frá 6.750.000 til 7.850.000 króna. Það eru ekki margar milljónir á milli grunngerðar og þeirrar allra flottustu, eins og oft vill rugla kaupendur.

Það er hægt að prófa grunngerðina og hún er mjög flott.

Fyrir 1.100.000 krónur til viðbótar er toppnum náð og það er ekki hægt að fara ofar. En það sést eiginlega varla utan á bílnum hvort viðkomandi hafi borgað milljón meira eða ekki. Lof mér að útskýra:

Umhverfisins* vegna hefur framleiðandinn tekið þann pól í hæðina að nota ekki óheppilegt prjál og pírumpár úr krómi til að auglýsa utan á bílnum hversu miklu bíleigandinn hefur pungað út til að eignast gripinn.

Ef vel er að gáð má greina smátt letur neðarlega á framhurðum þar sem stendur einfaldlega að þetta sé rafbíll og hve öflug rafhlaðan er.

Þurfa aðrir nokkuð að vita fleira? Í mínum augum og huga er þetta viss hógværð sem mér fellur afar vel í geð.  

*Athugið að í grein eftir Jóhannes Reykdal, sem finna má hér á síðunni, er fjallað nánar um umhverfisþáttinn við framleiðslu Polestar. Við, auk fleiri góðra blaðamanna, hittum helstu stjórnendur og hönnuði Polestar á fjarfundi og fengum tækifæri til að spyrja þá um eitt og annað.

Ökuleikni og fimleikar

Það er að mati undirritaðrar ágætt pláss fyrir meðalstórar mannverur fram í bílnum og kollegi sem prófaði að setjast aftur í sagði að þar hefði farið ljómandi vel um hann. Sama sagði sonur minn um rýmið aftur í nema hvað gluggarnir eru frekar hátt uppi þannig að sennilega sjá lítil börn ekki mjög vel út. En engin lítil börn voru í bílnum og þá nær það ekki lengra.

Þó vel fari um mann þegar þegar búið er að koma sér fyrir er ekki endilega þar með sagt að leiðin þangað sé endilega greiðfær. Nú skulum við bara hafa staðreyndir á hreinu: Ég er ekki kattliðug lengur. Þannig er nú það. Polestar 2 er svo mikill sportari að maður sest dálítið ofan í bílinn og það er ekkert allt of þægilegt en tekur skjótt af. Minna reynir á fimi manns þegar farið er út úr bílnum.

Þetta er ekki það stórt atriði í mínu tilviki að það kæmi í veg fyrir kaup á farartækinu en margir bílar henta mér betur hvað þetta varðar.

Þeir sem eru meiri stirðbusar en ég ættu að skella sér í göngutúra og sjúkraþjálfun til að vera í betra formi þegar fyrstu bílarnir verða afhentir í febrúar eða mars á næsta ári.

Sem fyrr hefur komið fram þá er ofsalega fínt að sitja í bílstjórasæti og njóta aksturseiginleika bílsins og ökuleikni manns sjálfs, sé henni að skipta. Þá er sko gaman. Mæli sérstaklega með Performance pakkanum, ekki bara af því að það eru að koma jól og allir að hugsa um pakka.

Nei, heldur einfaldlega út af því að veggripið verður svo frábært og góðu aksturseiginleikarnir enn betri.

Þar er Brembo-allt í bremsum og Öhlins Dual Flow Valve (DFV) stillanlegir demparar og fleira sem gerir gott betra.

Hendið veltibúri í bílinn og ég skal keppa í hvaða akstursíþróttt sem er á honum þessum! Gefið mér andartak til að koma mér fyrir en ég kemst hratt og hjálparlaust út úr bílnum.

Öryggisþættir

Þetta er öruggasti bíll sem völ er á í flokki raf- og tvinnbíla, af þeim bílum sem Euro NCAP hefur gert úttekt á þetta árið. Það er virkilega vel af sér vikið og falleg rós í hnappagat Polestar. Auk þess trónir hann á toppi listans yfir öruggustu fjölskyldubílana.

Það sem hins vegar kom ekki sérlega vel út var lestur kerfisins á skiltin sem gefa upp hámarkshraða á vegum úti. Þetta er eitthvað sem þjakar oftar bílstjóra en bíla, þ.e að sjá annan hákmarkshraða en gefinn er upp. En myndavélar/skynjarar Polestar 2 virðast hreint út sagt ekki sjá þessi skilti, eftir því sem Euro NCAP segir í umsögninni sem hlekkur að ofan vísar á.

Og enn lægra skoruðu margir aðrir bílar í þessum nýja flokki öryggisprófana á sjálfvirkri akstursaðstoð hjá Euro NCAP. Flokki sem ég játa að er eins og dulkóðun í mínum augum því það er erfitt að lesa úr þessu.

Hver veit nema það sem kemur svona misvel út hjá hinum ýmsu bílaframleiðendum sé auðvelt að laga með hugbúnaðaruppfærslum, svona „over the air“ eins og það heitir. Vonandi er það svo.

En fyrst hugbúnaður er nefndur þá er tilvalið að nefna að þetta er mikill GOOGLE-bíll. Polestar 2 var fyrstur allra bíla með upplýsinga- og afþreyingarkerfi knúið af Android Automotive OS, með innbyggðri Google þjónustu. Þá er átt við þjónustu eins og Google Assistant, Google Maps og Google Play Store.

Viðmót kerfisins hefur verið þróað í samvinnu við Google og uppfærslurnar eru mjög „lifandi“ ef svo má segja. Kerfi bílsins ætti alltaf að vera með nýjasta nýtt af öllu. Þannig að þetta kerfi og Polestar eru mótuð saman.

Þetta voru býsna mörg orð um eitthvað sem ég í raun ætti ekki að hafa nokkurt einasta vit á, enda notað eplasíma síðustu 12 árin eða svo. Já, alveg þangað til ég kveikti á þessu með Google-Android og bíla. Til að gera rosalega langa sögu ögn styttri þá var ég ekki bara að kynnast nýjum bíl þegar leiðir okkar Polestar lágu saman, heldur var ég líka að læra á nýjan síma og nýtt alls konar.

Og vitið þið hvað? Mér líkar allt þetta nýja ótrúlega vel svona í heildina séð. Bæði síma og bíl.

Ljósmyndir af bílnum að utan: Óðinn Kári

Ljósmyndir innan úr bílnum: Polestar

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar