Það má með sanni segja að þessi dagsetning, 4. ágúst, sé þrungin merkingu í huga einhverra sem vel þekkja til sögu hljómsveitarinnar Led Zeppelin. Þá einkum og sér í lagi í huga söngvarans sjálfs, Roberts Plant. Þennan dag, 1975, breyttist nefnilega ýmislegt.
Robert Plant, eiginkona hans (Maureen) og börnin þeirra tvö voru í fríi á grísku eyjunni Ródos, í byrjun ágúst 1975. Þá var Physical Graffiti, sjötta plata hljómsveitarinnar, tiltölulega nýkomin út (kom út þann 24. febrúar) og hafði Led Zeppelin verið á tónleikaferðalagi um Bandaríkin og víðar í kjölfarið.
Þetta var því kærkomið frí sem fjölskyldan loks tók eftir hamagang liðinna mánaða og tóku þau bíl á leigu til að flakka um Ródos. Bílaleigubíllinn var af gerðinni Austin Mini. Svo ömurlega vildi til að þau lentu í óhappi seinnipart mánudagsins 4. ágúst og endaði bíllinn á tré. Slösuðust hjónin alvarlega en börnin (4 og 7 ára) sluppu ótrúlega vel.
Á vef LouderSounds er sagan sögð og gríp ég hér niður í frásögnina:
„Þegar hann [Robert Plant] leit á eiginkonu sína, alblóðuga og meðvitundarlausa, var hann viss um að hún væri dáin. Börnin öskruðu og grétu í aftursætinu. […] Maureen hafði misst mikið blóð […], og allt gekk skelfing hægt fyrir sig á kakkalakkatroðnu grísku sjúkrahúsinu þar sem aðeins einn læknir var á vakt.“
„Peningana eða lífið“
Ekki var því hægt að gera almennilega að sárum þeirra á Rhodos og var sjúkraflugvél send eftir fjölskyldunni https://www.ledzeppelin.com/event/august-8-1975 með öllum græjum og tveimur læknum. Var flogið með þau til London og beinustu leið á sjúkrahús.
„Ég þakka fyrir að vera á lífi,“ sagði Plant sem þá var 28 ára gamall. „Hefðum við ekki geta reitt fram peninga strax til að fljúga til Englands eftir læknisaðstoð, er ég sannfærður um að konan mín hefði ekki lifað þetta af,“ sagði Plant.
Sjálfur var hann býsna illa haldinn og í sama viðtali sagði hann einnig frá því að enginn sjúkrabíll hafi verið á svæðinu þannig að þau fengu far af slysstað með pallbíl og á sá bíll að hafa verið svo lúinn og siginn að fóturinn á Plant hafi dröslast eftir rykugum veginum meðan á akstri stóð. Fóturinn sem brotinn var á nokkrum stöðum.
Tónleikaferðalagi frestað
Fyrirhuguðu tónleikaferðalag um Norður-Ameríku það ár var frestað en uppselt var á fjölda þeirra og má þar til dæmis nefna tónleika sem 90.000 manns ætluðu að sækja í San Francisco og var Plant lengi að jafna sig eftir slysið. Var hann meira að segja í hjólastól og alls ekki talið víst að hann gæti nokkurn tíma gengið eðlilega á ný.
Það er því ekki undarlegt að vafi hafi leikið á hvort hljómsveitin Led Zeppelin gæti starfað eftir þessar hremmingar.
Sagan er mun ítarlegri og dramatískari, en þetta er stutta útgáfan sem ég vildi gera hér skil, því í dag eru 47 ár frá slysinu. Látum þetta duga í bili en hver veit nema sagan verði sögð almennilega síðar.
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein