Það er ástæða fyrir því að sumt ratar á útsölu. Hér eru nokkur body kit fyrir Toyota Land Cruiser sem sum hver eru á lækkuðu verði um þessar mundir í útlöndum. Hvað segja lesendur? Er þetta grenjandi ljótt eða hrein og klár snilld á góðu verði?

Byrjum á þessu „kitti“ hérna fyrir Land Cruiser 300: M’Z Speed Aero Body Kit.

Það kostar rúmar 370.000 krónur í Japan og gæti án efa vakið mikla lukku einhvers staðar. Þó að þetta kit sé á útsölu þá hefur það nú ekki lækkað um nema skitnar 10.000 krónur. En það er samt á útsölu.

Það er lykilatriði, þ.e. þetta með útsöluna, því þegar einhver (oftast einhver í fjölskyldunni) kemur trítilóður, horfir á bílinn og segir: „Hvern fjandann varstu nú að gera?“ Þá er sniðugt að geta sagt: „Já, þetta var sko á útsölu“ Málið dautt. Eða kannski hjónabandið.

Hér má kíkja á og í pakkann.
Tímasparnaður og fleira gott

Svo er það þetta Artisan Spirits body kit fyrir Toyota Land Cruiser 200 (2016+).


Það er reyndar ekki formlega á útsölu en það er góður afsláttur af tímanum sem það tekur mann að klambra þessu saman. Það tekur ekki nema átta klukkustundir, segja þeir.

Það er líka afsláttur af stafsetningunni í kynningarmyndbandinu sem er bara skemmtilegt. Til dæmis kostar þessi „Flont Harf“ stuðari aðeins 150.000 krónur.
Stríðsmaðurinn sjálfur

Ekki má gleyma þessu: Body Kit”Warrior” frá Renegade Design fyrir 200 Cruiser árgerðir 2015-2020.

Það er því miður ekki á útsölu núna en það hlýtur að koma að því. Eins og er kostar kittið um 600.000 krónur í Bandaríkjunum.

Hér hefur eitt og annað verið skoðað en ekki voru öll kittin á útsölu. Til að hafa þetta á hreinu þá er það japanska síðan EasyCars.jp sem hefur slegið af verðinu en svo er auðvitað stóra spurningin hvernig svona kitt fara í pósti. Það er óþarfi að komast að því ef myndirnar eru látnar duga.

Fyrir mörg okkar er það nefnilega meira en nóg að skoða bara myndirnar.




Fleiri „Body Kit“ greinar sem þótt hafa hressandi:
Sturlað flott „Body Kit“ fyrir Dacia Duster
Body Kit fyrir Land Cruiser 300
Flottasta „Body Kit“ seinni ára?
Grjótmögnuð „Body Kit“ fyrir Jimny
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein