Lancia lifir áfram, lofar þremur nýjum bílum
Eitt þekktasta nafn Lancia er að koma aftur á nýjum bíl
„Fregnir af andláti mínu eru stórlega ýktar“ er fræg setning sem var eignuð rithöfundinum Mark Twain á sínum tíma þegar hann var sagður látinn en var sprelllifandi!
Það má nefnilega heimfæra þessi orð á heilt bílamerki, því Stellantis-samsteypan hefur afturkallað dauðadóm yfir Lancia á Ítalíu og veitt þessu vörumerki nýtt líf.
Hið rómaða ítalska vörumerki tilkynnti um sína eigin „björgun“ og hét því að setja á markað þrjá nýja bíla (þeirra fyrstu síðan 2011) frá og með 2024, þar á meðal einn sem mun endurvekja vel þekkt nafn vörumerkisins.
„Í dag er mikilvægur dagur. Lancia er tilbúið fyrir Evrópu og við höfum tekið fyrsta skrefið í átt að því að verða trúverðugt og virt vörumerki í úrvalshlutanum,” sagði forstjóri fyrirtækisins, Luca Napolitano. Hann kynnti einnig 10 ára áætlun sem hann kallar endurreisn vörumerkisins.
Þegar þetta er skrifað er eini bíllinn í Lancia eignasafninu Ypsilon (bíllinn á myndinni hér að ofan). Sóknin mun hefjast árið 2024, þegar litli fjögurra dyra hlaðbakurinn (sem er enn ótrúlega vinsæll á Ítalíu þrátt fyrir aldurinn) mun loksins verða skipt út.
Upplýsingar um gerð næstu kynslóðar eru enn fáar, en hún mun teygja sig í 3.978 mm að lengd og gerðin verður eingöngu boðin með rafdrifinni aflrás.
Til viðbótar við næsta Ypsilon mun bætast það sem Lancia kallar „flaggskip“ en það kemur árið 2026. Sá bíll mun verða 4.598 mm að lengd, sem þýðir að hann verður aðeins styttri en núverandi kynslóð BMW X3. Það er of snemmt að segja til um hvort nýja flaggskipið verði í formi fólksbíls eða sportjeppa.
Lancia hefur aldrei selt sportjeppa og hefur í gegnum tíðina smíðað stóra lúxusfólksbíla, en jafnvel evrópskir kaupendur kjósa gerðir með meiri veghæð í þessum flokki.
Að lokum: Þriðji hluti endurreisnar Lancia er nýr Delta sem lengi hefur verið í umræðunni. Hann mun verða 4.392 mm frá stuðara til stuðara (þannig að hann verður um 10 cm lengri en Volkswagen Golf) og hann mun einkennast af því sem fyrirtækið lýsir sem „formaðri og öflugri hönnun með rúmfræðilegum línum sem mun höfða til áhugamanna“.
Það hljómar eins og hönnuðir Lancia muni reyna að endurskapa upprunalega Delta, sem kom út árið 1979 sem fjölskylduvænn hlaðbakur og breyttist síðar í einn farsælasta heimsmeistararallýbíl allra tíma.
Sumar af framtíðargerðum Lancia verða rafvæddar og vörumerkið verður eingöngu með rafmagni árið 2028. Og komið hefur fram að sérhver framtíðarmeðlimur í línunni muni vera með innréttingu með dæmigerðri ítalskri hönnun, þó myndir af væntanlegum Lancia gerðum hafi ekki verið sýndar enn þá.
Þó að það hljómi eins og Lancia sé borgið, að minnsta kosti í bili, eru nokkur teikn á lofti. Stjórnendur vonast til að endurræsa vörumerkið með því að einbeita sér að Frakklandi, Þýskalandi, Spáni, Belgíu, Lúxemborg og Hollandi, en hvernig þeir munu tryggja að það skapi ekki innri samkeppni fyrir Alfa Romeo og DS (sem einnig eru í eigu Stellantis og tengd úrvalsflokki bíla) á eftir að koma í ljós. Og það er ekkert minnst á Bandaríkin enn þá. Lancia hefur ekki selt bíl á Bandaríkjamarkaði 1982 svo hann hefur ekki mikla ímynd þar í landi utan sérstakra áhugamannahópa.
Framtíð Lancia leit ekki vel út mestan hluta ársins 2010 og hið 115 ára gamla fyrirtæki (sem Fiat keypti árið 1969) var sent á „ruslahaugana“ af fyrrverandi yfirmanni Fiat-Chrysler Automobiles (FCA) Sergio Marchionne.
„Við höfum dregið úr metnaði okkar fyrir Lancia. Ég ætla að segja hluti sem munu særa gamla Lancia fólkið. Markaðurinn hefur þokast áfram og ekki er hægt að nýta öll tækifæri. Við getum ekki látið undan hverri eftirspurn. Það verður einhver endurmótun innan starfseminnar og við þurfum að græða peninga,“ varaði hann við árið 2014. Þegar Lancia var alþjóðlegur framleiðandi í lúxusbílahlutanum, hefur Lancia verið minnkað í það að selja einn bíl (áðurnefndan Ypsilon) á ítalska markaðnum undanfarin ár.
(frétt á vef Autoblog)
Tengdar fréttir:
Umræður um þessa grein