Fyrir 115 árum tóku tveir karlar sig til, tveir Fiat-karlar meira að segja, og stofnuðu fyrirtækið Lancia & C. Fabbrica Automobili í Torino á Ítalíu.
Vincenzo Lancia hét annar þeirra og var hann verkfræðingur og ökukappi hinn mesti. Ekki eldri en 19 ára gamall var hann orðinn yfirmaður hjá Fiat auk þess sem hann var prufuökumaður fyrir framleiðandann. Þótti „drengurinn“ afar bráðger og snjall á hinum ýmsu sviðum.
Svo flinkur ökumaður þótti hann að æðstu menn hjá Fiat veittu því athygli og buðu honum að aka fyrir Fiat í kappakstri. Hann var nú til í það og í annað skiptið sem Fiat tók þátt í kappakstrri, árið 1900, ók Lancia og gerði mikla lukku. Hann var víst með eindæmum hraður ökumaður.
Náði hann, árið 1906, besta tímanum í fyrsta kappakstrinum sem fram fór á Le Mans. 64 mílur var vegalengdin, eða 103 kílómetrar. Tíminn á hringnum, gott fólk, haldið ykkur nú… var 53 mínútur og 42 sekúndur!
En hvað hefur þetta með bílaframleiðandann Lancia að gera?
Jú, þarna gleymdi blaðamaður sér aðeins, því akstursíþróttir hafa svo svakalegt aðdráttarafl. Samt er hér dálítil tenging þó langsótt sé:
Þannig var að annar prufuökumaður hjá Fiat var maður að nafni Claudio Fogolin (þaðan er stafurinn C í nafni fyrirtækisins fenginn: Lancia & C. Fabbrica Automobil. C fyrir Claudio). Þeir Vincenzo Lancia og Claudio Fogolin voru bæði félagar og kollegar auk þess sem þeir áttu eitt og annað sameiginlegt. Þar á meðal áhugann á viðskiptum, akstri og véltækni.
Þeir stofnuðu, á því herrans ári 1906, fyrirtækið fyrrnefnda: Lancia & C. Fabbrica Automobili.
Árið 1907 kom fyrsta Lancian þeirra á götuna og nefndist hún Tipo 51 í upphafi, en var síðar þekkt sem Alfa. Framleiðsla á Lancia Alfa stóð frá 1907 til 1908 og var bíllinn með fjögurra strokka vél sem skilaði 28 hestöflum. Meira um tæknihlutann hér.
Fátt er sagt um Claudio Fogolin á veraldarvefnum (þegar leitað er í snatri), annað en að hann hætti sem prufuökumaður fyrir Fiat sama ár og þeir Lancia stofnuðu sitt eigið fyrirtæki. Lancia ók eftir sem áður fyrir Fiat til ársins 1910. Sennilega í kappakstri frekar en við prófanir nýrra ökutækja. En um það má fjalla betur síðar, hafi lesendur áhuga á slíkri umfjöllun!
En hér er aðeins hálf sagan sögð og varla það. Enda kjarni málsins sá að í dag (eða í fyrradag) eru 115 ár frá stofnun fyrirtækisins að baki Lancia.
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein