Læðist út um allan bæ
Kaflaskilin sem við upplifum núna eru hætt að vera eitthvað sem á bara við um einkabíla og jepplinga. Rafmagnið er farið að segja til sín þegar kemur að sendiferðabílum og atvinnubílum. Volkswagen sendu nýlega frá sér e-Crafter sem er rafdrifin útgáfa af Crafter sendiferðabílnum.

Byrjum á tölunum
Volkswagen e-Crafter er með sömu aflrás og e-Golf. Volkswagen hinsvegar prófuðu gírkassann og rafmagnsmótorinn fyrir meiri þyngdir en viðhefst í Golf-inum. Áreiðanleiki Volkswagen e-Crafter ætti því að vera í hæsta gæðaflokki þar sem aflkerfið og drifrásin hafa verið seld í þó nokkur ár.

Aflrásin samanstendur af 35kw rafhlöðu og 100kw/136 hestafla rafmagnsmótor. Drægnin er uppgefin 170 km en er eflaust lægri þegar búið að að setja í hann eitthvað hlass.


Staðsetning rafhlöðunnar í e-Crafter gerir það að verkum að áfram rúmast 10,7 rúmmetrar aftur í. Þar er lofthæðin 1,86m og nóg pláss fyrir alls kyns hluti. Fjögur LED ljós príða loftið og gera vinnuumhverfið bjart og gott. Á bílnum sem ég hafði til prufu voru 5mm krossviðsplötur upp um alla veggi og því alveg hægt að hlaða upp með veggjunum.



Einkar handhægt er að lesta e-Crafter þökk sé flötu gólfinu og góðu fótstigi við hverja hurð. Hentugt er fyrir sendla að hlaupa stöðugt inn og út úr bílnum.




Vinnuaðstaða til fyrirmyndar
Frammi í e-Crafter er að finna þrjú sæti í fullri stærð. Bílstjórasætið kemur útbúið með tvo armpúða sitt hvoru megin en hin tvö ekki. Bílstjórasætið er hins vegar ekkert mál að stilla á alla mögulega vegu. Upp, niður, fram, aftur og mjóbakið líka. Bílstjórasætið er þó ekki á loftpúða eða gormi, en það skiptir kannski minna máli þar sem þessi bíll er hugsaður sem innanbæjar snattari í styttri vegalengdir.


Það var ekkert mál fyrir mig að finna hina fullkomnu setustöðu undir stýri á e-Crafter.



Allt á sínum stað alveg eins og það á að vera.
Mælaborðið er síðan klassískt Volkswagen. Bjart og skýrt og engar óþarfa truflanir. Magnað er í raun hversu hefðbundið það er. Mælarnir eru allir „gamaldags“ mælar. Hér er enginn skjár sem hægt er að stilla á marga mismunandi vegu. Það er mjög þægilegt þegar kemur að því að margir bílstjórar eru kannski með sama bílinn.


Afþreyingarkerfið er síðan beint úr varahlutaskúffu Volkswagen og alveg eins og í öllum fólksbílum þeirra. Um allt mælaborðið má svo finna geymsluhólf af ýmsum stærðum og gerðum fyrir allt það sem sendibílstjórar þurfa. Þar eru líka þónokkuð magn af 12v rafmagnstengjum sem eflaust eru hugsuð fyrir tölvur og leiðsögukerfi sem óneitanlega fylgja starfi sendiferðabílstjóra.

Aksturseiginleikar á við gamlan rafmagnsbíl
Það sem kemur þér mest á óvart við það að keyra e-Crafter er hröðunin á honum. Hann rennur áfram snuðrulaust og áreynslulaust. Það er síðan ekki hægt að stilla endurheimtur á rafmagni þegar þú lyftir hægri fætinum en Volkswagen hefur einfaldlega valið eina ríkisstillingu fyrir það.

Hægt er að stunda svokallaðan eins fóts akstur allan daginn á e-Crafter. Þú þarft varla að lyfta fætinum af inngjöfinni og yfir á bremsupedalann til að stoppa á rauðu ljósi.

Volkswagen e-Crafter er síðan reglulega skemmtilegur í akstri. Þrátt fyrir háa hæð þá liggur hann vel. Bíllinn líður bara áfram og er ekkert mál að átta sig á stærðinni á honum þökk sé stórum og fínum speglum. Tveir gleiðhornaspeglar á neðri hlutanum gera það síðan ofureinfalt að fylgjast með blindhornunum.


Lokaorð
Það er ánægjulegt að framleiðendur séu farnir að bjóða núna upp á rafmagnsútgáfur af stærri sendiferðabílum. Hvort sú týpa henti rekstri allra er erfitt að segja til um. Volkswagen e-Crafter mætir samt á svæðið tilbúinn til að leggja sitt af mörkum þegar kemur að því að bjóða hljóðláta og kolefnislægri afhendingar á vörum. Það er erfitt að leggja til einhverja sérstaka týpu af e-Crafter þar sem þarfir hvers reksturs eru mismunandi. Taktu hann bara í einhverjum geggjuðum lit og ekki gleyma að láta merkja hann sem 100% rafmagnsbíl á leið til þín.
Ef þér lýst á’ann, kauptann!
Helstu tölur:
Verð: 7.390.000 kr.
Hestöfl: 135
Drægni: 170km
Eyðsla: 21,5kWh/100km
CO2: 0g/100km
Burðargeta: 1.750kg
L/B/H: 5.986/2.040/1.861mm
Stærð flutningsrýmis: 10.7m3