Nú er sumarið að hefja sitt skeið og bílaáhugamenn taka kaggana út. Reyndar hittast Krúserfélagar allt árið um kring í félagsmiðstöð sinni að Höfðabakka 9.
Þar hefur verið fjölbreytt dagskrá í vetur og meðal annars troða félagar upp með góðri músík af og til.
En nú byjar fjörið aftur hjá Krúser og búið að gangsetja fákana sem renna yfirleitt einu sinni í viku frá félagsmiðstöð Krúser niður í bæ og enda rúntinn á glæsilegri bílasýningu við Hörpuna.
Þetta hefur klúbburinn gert árum saman við góðar undirtektir gesta og gangandi og þá sérstaklega erlendra ferðamanna sem líta á það sem veislu að fá að mynda og skoða flotta og fágæta bíla.
Það verður talsvert um uppákomur í sumar hjá bílaklúbbum víðsvegar um landið. Við færum ykkur fréttir af þeim viðburðum sem við heyrum af.
Við ætlum að fylgja Krúser eftir í sumar sem er þá annað sumarið í röð sem við myndum Krúser rúnta. Ef til vill tökum við menn tali og reynum að fá innsýn í sögu bílanna.
Umræður um þessa grein