„Hættu að rembast við að keyra úr því að þú getur það ekki. Taktu leigubíl eða strætó,“ skrifaði íslenskur maður í lesendadálk dagblaðs árið 1985. Sannfærður um að konur í umferðinni væru rót alls ills, bjóst hann ábyggilega ekki við svari úr „neðra“.
Hugsið ykkur, lesendur góðir, hvílíkt uppþot yrði í dag ef einhver vogaði sér að „blammera“ kvenkyns bílstjóra (í heild) í blaðagrein! Nei, það er eiginlega á mörkunum að óhætt sé að leiða hugann að því.
Þann 31. maí árið 1985, þegar undirrituð var þriggja að verða fjögurra, birtist í Dagblaðinu Vísi bréf frá lesanda. Lesanda sem kallaði sig „ökugikk“. Þetta hafði gikkurinn sá ritað:
„Vitið þið hvers vegna umferðin er svo stirð og treg og vond í Reykjavík? Það veit ég og mér finnst ekki nema sanngjarnt að aðrir fái að vita það einnig. Ég uppgötvaði svarið í Lundúnum suður fyrir skemmstu. Fyrstu dagana var ég alveg agndofa — umferðin gekk svo greiðlega, sama hvað þétt hún var og aðstæður erfiðar. Ég saup hveljur af hrifningu yfir leikni ökuþóranna bresku, hve lipurlega þeir smugu inn í eyður, nýttu sér svigrúm, hjálpuðu öðrum, slógu ekki af hraðanum að tilefnislausu.
Á fjórða degi rann upp fyrir mér logagyllt ljós: það var undantekning að kona sæist undir stýri!
Þegar ég kom aftur heim og fór að aka um götur borgarinnar, steytandi hnefann á hverju horni, sótbölvandi og hálfsnöktandi af bræði vegna seinlætis og klaufaskapar allt í kringum mig, þá sá ég samanburðinn: hér er allt morandi af konum i umferðinni. Og þær eru alls staðar til bölvunar.
Þær lötrast áfram eftir götunum þótt enginn sé fyrir framan þær en fyrir aftan þær hlykkjast langar bílalestir með sárgrömum bílstjórum, gnístandi tönnum af óþolinmæði.
Þær koma að gatnamótum, nema staðar þótt enginn bíll sé í augsýn, góna til allra átta og himinsins líka og bíða þess að eitthvað gerist. Þær rykkja loksins af stað en sjá sig um hönd og klossbremsa af engu sýnilegu tilefni með þeim afleiðingum að næsti bíll rekst aftan á þær. Auðvitað eru þær dæmdar í rétti, þótt allir viti að þær séu valdar að slysinu.
Kæra fósturlandsins Freyja: Hættu að rembast við að keyra úr því að þú getur það ekki. Taktu leigubíl eða strætó eða fáðu þér hressandi göngutúr en láttu okkur karlana um að keyra. Þá verður umferðin betri.“
Sá var aldeilis hress, eða þannig! Vika leið þar til svar birtist í sama blaði (athugasemdakerfi þess tíma tók sinn tíma) og var það frá konu sem var nú ögn hressari en „ökugikkurinn“ í skrifum.
„Þessi maður ætti ekki að vera með bílpróf“
„Mig langar mikið til að svara þessum blessuðum ökugikk sem skrifaði i lesendadálk DV 31. maí sl. Hann skrifar að konur ættu ekki að vera í umferðinni vegna þess hvernig þær keyra. Vil ég bara láta hann vita það að konur eru ekkert verri ökumenn en karlmenn, ef þær eru ekki bara að mörgu leyti betri, því þær eru ekki svona miklir ökufantar eins og sumir karlmenn eru.
En eitt er víst að þessi maður ætti ekki að vera með bílpróf eins og hann lætur i umferðinni, steytandi hnefa á hverju horni, sótbölvandi og hálfsnöktandi af bræði.
Nei, kæri ökugikkur, leggðu bílnum til hliðar og taktu strætó eða leigubíl eða einfaldlega fáðu þér bara göngutúr, það róar taugarnar.“
Þannig var nú það! Og árið var 1985.
Fleiri greinar úr sarpi íslenskrar umferðarsögu:
Sjóliðinn stal bíl og ók í sjóinn
Ljótt af blaðamanni að nota orðið bíldrusla
Furðulegt að Trabant kæmist svo hratt
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein