Umskiptin yfir í rafknúin farartæki eiga sér stað af ýmsum ástæðum, aðallega umhverfislegum. Bílaframleiðendur hafa raunar ekkert val en að draga verulega úr kolefnisfótspori sínu og losun gróðurhúsalofttegunda.
Þetta verður ekki mögulegt með brunahreyflum.
Rafbílar munu vissulega hjálpa en aðrir þættir skipta líka máli. Hvaðan kemur til dæmis orkan sem þarf til að knýja þá? Að brenna kolum til að knýja raforkukerfið er ekki beint grænt.
Orkan á Íslandi góður kostur
Í tilefni af frumsýningu Polestar 2 (reynsluakstursgrein um Polestar 2 birtist á Bílabloggi í dag) á Íslandi segir Nils Mösko, forstöðumaður stefnumótunar og viðskiptaþróunar hjá Polestar: „Við hlökkum til að koma með Polestar til Íslands sem er í fararbroddi í heiminum þegar kemur að grænni orku.
Þar sem raforkan á Íslandi er næstum 100% endurnýjanleg og metnaður okkar til að ná kolefnishlutleysi er mikill, erum við líka mjög stolt af því að bæta Íslandi við markaðssvæðin okkar.
Sem framleiðandi hágæða rafbíla fannst okkur Brimborg vera kjörinn samstarfsaðili og við erum ákaflega ánægð með að vera komin í samstarf með þeim.“
Bílaframleiðendur axla ábyrgð
„Bílaframleiðendur þurfa að axla alla ábyrgð,“ sagði forstjóri Polestar, Thomas Ingenlath. „Í hverri viku sjáum við nýja tilkynningu um að bílaframleiðandi sé að breyta um stefnu í átt að rafvæðingu. En það er ekki nóg að fara í rafmagn eitt sér. Að gera bíla rafknúna er ekki lokaleikurinn, það er upphafspunktur. Við þurfum að vera heiðarleg og gagnsæ. Traust neytenda er mikilvægt.“
Fyrirtækið vísar í nýlegar rannsóknir sem benda til þess að aðeins einn af hverjum fjórum bílaviðskiptavinum treysti bílaframleiðendum varðandi gagnsæi.
„Fólk sem kaupir bíla Polestar og rafbíla almennt þessa dagana gerir það oft vegna þess að því er annt um umhverfið og félagslegt réttlæti.“
Til að sanna sig hefur Polestar gefið út línurit sem sýnir lífsferilsmat (LCA).
Kolefnisfótspor 24-25 tonn í upphafi aksturs
Þessar upplýsingar sýna að bíllinn með einum mótor af langdrægari gerð og staðalgerð með einum mótor yfirgefa kínversku verksmiðjuna með kolefnisfótspor á bilinu 24 til 25 tonn af C02e.
Að því gefnu að ökutækið sé hlaðið grænni orku (þ.e.a.s. ekki kolum eða dísilolíu), þá ættu þessar tölur að haldast stöðugar út líftíma ökutækisins, sem á einstaklega vel við hér á landi, þar sem allt okkar rafmagn kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum.
Langdrægari gerðin með tveimur mótorum, eins og sú gerð Polestar sem er í reynsluakstri hér hjá okkur, hefur áður verið gefin upp með 26,2 tonn af C02e þegar sá bíll kemur frá verksmiðjunni. LCA er stöðluð aðferðafræði iðnaðarins til að meta umhverfisáhrif.
Tækni rafbíla skilar bíl með innan við en helmingi minni áhrifum kolefnisspors í akstri en jafngildi bensínbíls ef hann er hlaðinn grænni orku. Spurningin er hvernig bílaframleiðendur munu tileinka sér þetta gagnsæi?
Polestar, sem hefur það að markmiði að smíða fyrsta loftslagshlutlausa farartækið í heimi, vill vera gagnsætt varðandi kolefnisfótspor bíla sinna. Eigendur nýja Polestar 2 geta nú þegar fengið aðgang að yfirlýsingu um sjálfbærni vörunnar, sem sýnir mikilvæg gögn eins og C02e fótspor og uppruna efna til smíðinnar.
Umræður um þessa grein