Samkvæmt nýjustu tölum frá Samgöngustofu fyrir fyrstu 11 mánuði ársins er Kia mest skráða bíltegundin á Íslandi með um 14% markaðshlutdeild. Þetta markar verulegan vöxt frá fyrra ári, þegar hlutdeildin nam 11,8%.
Á sama tíma á síðasta ári höfðu 1877 Kia fólksbílar verið nýskráðir og nú þegar 1 mánuður er eftir af árinu hafa 1302 Kia fólksbílar verið nýskráðir. Tesla, sem var söluhæsta merkið í fyrra, fór úr 3000 nýskráðum fólksbílum niður í 476 nýskráða fólksbíla og Toyota, næst mest selda merkið í fyrra, fór úr 2592 nýskráðum fólksbílum niður í 1281 nýskráða fólksbíla á sama tímabili.
Heildarmarkaður nýskráðra bíla fyrstu 11 mánuði ársins fór úr 16006 nýskráðum bílum árið 2023 og niður í 9373 nýskráða bíla 2024.
Á almennum markaði eru rafbílar, eða að hluta rafbílar (tvinn- og tengiltvinnbílar) ennþá vinsælastir en þeir samanstanda af um 84% nýskráðra bíla það sem af er ári. Í fyrra voru það um 91% nýskráðra fólksbíla yfir sama tímabil.
Þegar rýnt er í vinsælustu fólksbílana kemur Kia Sportage inn í 2. sæti yfir mest seldu bíla landsins á eftir Dacia Duster sem er í því fyrsta. Í þriðja sæti kemur Tesla Model Y .
Kristmann Freyr Dagsson, sölustjóri Kia á Íslandi er ánægður með árangurinn: „Vinsældir Kia eru klárlega til marks um traust neytenda til gæðamerkis með framúrskarandi þjónustu og langa ábyrgð. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá áframhaldandi vinsældir Kia Sportage, enda er hann tilvalinn fyrir bæði íslenskar aðstæður, sumar og vetur, innanbæjar og utanbæjar.“
„Framhaldið lofar einnig góðu fyrir Kia, en mikil eftirvænting er fyrir frumsýningu Kia EV3 sem við kynnum í janúar nk. Nú þegar hefur forsala EV3 farið fram úr væntingum á Íslandi og nýjustu Kia bílarnir hafa vakið verðskuldaða athygli fyrir nútímalegt útlit.
EV3 er þar engin undantekning, enda bíll sem er með mestu drægni allra rafbíla í sínum flokki, rúmgóður og fallegur og mjög líkur flaggskipinu EV9,“ bætir hann við.
Á alþjóðavísu hefur Kia staðið sig vel. Með aukinni tæknivæðingu virðast neytendur sækja í meira mæli í bílaframleiðendur sem bjóða framúrskarandi ábyrgð og þjónustu. Í nóvember seldi Kia 262.426 bíla, sem er aukning um 0,8% frá sama mánuði í fyrra.
Kia Sportage leiddi þar söluna fyrir Kia með yfir 46 þúsund skráða bíla. Alþjóðleg velgengni framleiðandans samræmist því vel þeirri sem sést hérlendis.
Umræður um þessa grein