Kia Sportage: Svona á tvinnbíll að vera!
Jájájá! Það er svona sem tvinnið gleður sinnið. Kia Sportage er fjórhjóladrifinn tvinnbíll (mun líka koma sem tengitvinn) sem fékk mig til að muna hvernig ég hélt eitt sinn að tvinn ætti að virka.
Kia Sportage er ekki einn þeirra tvinnbíla sem hannaður er þannig að bensínvélin hrökkvi í gang við 40-50 kílómetra hraða. Þessi leyfir ökumanni að nota það rafmagn sem til er svo gott sem óháð hraða (miðast við ca. 120 km/klst).
Góður fyrir farþega
Þetta er atriði sem ég viðurkenni að hafa stundum steingleymt að minnast á: Hvernig er að vera farþegi í bílnum? Ástæðan er jú vissulega sú að oftast er ég sjálf að aka bílnum, eðli máls samkvæmt, en það var bílablaðamaður í Bretlandi sem vakti athygli mína á því hversu vel fer um farþega aftur í bílnum.
Það gerði hún með því að leggja auga að veði eins og Óðinn forðum við Mímisbrunn. Hið síðarnefnda var í skiptum fyrir visku en bílablaðamaðurinn öðlaðist nú hvorki visku né annað í staðinn heldur gerði hún [bílablaðamaðurinn er kvenkyns] mjög varhugaverða tilraun til að sýna hversu þýður og góður Sportage á að vera.
Hún settist í aftursætið og bað ljósmyndarann um að aka bílnum. Áhættan fólst ekki í því að biðja hann að aka heldur því að hún bað hann að aka eftir ójöfnum grasbala og þar tók hún upp snyrtidót og setti á sig maskara. Þetta þótti mér býsna djarft af henni.
Alsæl brosti hún að tilraun afstaðinni og augun voru á sínum stað og maskarinn á augnhárunum. Og hún líktist ekki hljómsveitarmeðlimum Kiss eftir aðgerðina.
Hljóðlátur og þýður
Þó svo að ég sé sjálf lítið fyrir að gera svona tilraunir þá veit ég að vel fór um minn farþega og hann hefur ákveðnar skoðanir á þessu þar sem hann er enn of ungur til að mega aka bíl en mjög áhugasamur um bíla. Vorum við til dæmis algjörlega sammála um að bíllinn er með eindæmum hljóðlátur. Bæði á malarvegi og malbiki sem og í roki og minna roki.
Hraðahindranir tekur hann af mikilli rósemi og maður finnur lítið fyrir þeim. Það sama á við um ójöfnur á malarvegum. Svo gaman þótti mér að aka honum á mölinni að ég velti fyrir mér hvort ekki mætti fjölga malarvegum á höfuðborgarsvæðinu. Meiri möl takk. En nei, það er kannski ekki góð hugmynd.
Stíll sem vekur athygli
Eitthvað fannst mér kunnuglegt við bílinn en var dálitla stund að tengja. Hann er nefnilega með sömu hönnun að aftan og hinn fantafíni Kia EV6. Það er ekki leiðum að líkjast! Þó svo að maður sjái ekki afturendann sjálfur við akstur bílsins þá er gott að vita að þeir sem eru á eftir manni í umferðinni hafi þetta fyrir augum. Að framan eru ljósin dálítið „speisuð“ en mér finnst þau voðalega flott og línurnar allar hressandi að sjá. Smekksatriði enn og aftur og förum ekki nánar út í fagurfræðina.
Rúmgóður er hann og hljóðlátur sem fyrr segir. Sportage er tæknilega vel búinn og að innan er ýmislegt svipað og í hinum margrómaða EV6 sem undirrituð fjallaðu um hér.
Betra loft fyrir gleymna
Þau okkar sem oft þurfa að aka um jarðgöng ættum auðvitað að vera orðin býsna æfð í því að stilla miðstöðina í bílnum í samræmi við það. Einhvern veginn man ég sjaldnast eftir þessu fyrr en óloftið er orðið óskaplegt.
Bæði í nýjustu bílum Kia og Hyundai gerist þetta sjálfkrafa. Jafnvel í Toyota líka – er ekki aveg viss. Það getur auðvitað verið að þetta gerist sjálfkrafa í ákveðnum gerðum – þ.e. að ekki sé um staðalbúnað í grunngerðum að ræða. Ég þori bara ekki að fara með það. En mikil snilld er þetta!
Helstu tölur:
Verð frá : 5.390.000 kr.
Hestöfl: 131 hö.
Drif: Framdrif.
Vél: 1.500 rms.
Tog: 253 Nm.
Eyðsla bl.ak.: 5.4 ltr/100km.
Eigin þyngd: 1.380 kg.
L/B/H 4.340/1.790/1.582 mm.