Kia Niro: Framúrskarandi framvinda
„Nýr Niro“ hljómar skemmtilega og hann er sannarlega nýr í öllum skilningi. Bílablaðamenn fengu að prófa bílinn í Frankfurt fyrir stuttu og þar voru útgáfurnar þrjár: Rafbíllinn, tengitvinn- og tvinnbíllinn. Allt ljómandi kostir en hér skal einkum horft til rafútgáfunnar og tengitvinnútgáfunnar (PHEV). Það sem hér er til umfjöllunar miðast við rafbílinn nema annað sé tekið fram.

Já, og áður en lengra er haldið er rétt að slengja hér fram einu sem fær kannski að malla í undirvitundinni meðan á lestri stendur: CUV = Crossover Utility Vehicle. Ef þetta fær að malla í dálitla stund gæti komið eitthvert snjallyrði á okkar ástkæra og ylhýra. Tilbúið til notkunar! Netfangið mitt er neðst.
Léttist nokkuð og stækkar
Í hinum vestræna heimi þykir léttara betra og á það bæði við um mannfólkið og bíla. Niro er byggður á undirvagni sem heitir K3 (þriðja kynslóð undirvagnsins „K“), og var hægt að gera bílinn rúmlega tuttugu kílóum léttari en forvera hans auk þess sem hann er aðeins lengri og hjólhafið meira.

Þar sem þetta er nýr bíll, nýr Niro, þá er kannski algjör óþarfi að bera hann saman við fyrri Niro. Við getum samt rakið söguna í stuttu máli:
2016 – Niro tvinnbíllinn (HEV) kom á markað. Komst í heimsmetabók Guinness í desember sama ár fyrir lægstu eyðslutölur allra tvinnbíla. Ekið var frá Los Angeles til New York City og meðaleyðslan var 3.1 lítri á hundraðið. Ekki amalegt að koma á markað og slá heimsmet í leiðinni.
2017 – Tengitvinnútgáfa bílsins bættist við.
2018 – e-Niro (Niro EV) kom á markað.
2019 – Niro fékk andlitslyftingu.
2022 – Nýr Niro og hér erum við stödd.
Þetta er auðvitað dálítil einföldun á sögu Niro en það má lesa um þróun þessa ágæta bíls til dæmis á vefnum Autoevolution.
Niro sá vinsælasti
Af öllum tegundum fólksbíla hér á landi tímabilið 1.1.2020 til 1.7. 2022 þá er Kia næstefstur á lista á eftir Toyota. Kia er með rétt tæplega 4000 bíla og er Niro er þar mest seldur, eins og sjá má á meðfylgjandi skýringarmynd.

Hvers vegna hefur Niro notið slíkra vinsælda? Til að svara því er gott að skoða sölu á fleiri mörkuðum til að athuga hvort þetta eigi einungis við um Ísland eða hvort Niro sé svona vinsæll víðar.
Ekki þurfti að leita lengi því um leið og Niro kom á markað í Suður-Kóreu sló hann sölumet í flokki umhverfisvænna bíla. Á tveimur vikum seldust hátt í 2.500 bílar en enginn annar bíll hafði rofið 2.000 bíla múrinn á „græna markaðnum“ þar.
Bæði Popular Mechanics og What Car? völdu rafútgáfu Niro bíl ársins 2019 m.a. vegna drægni og útlits og í Bandaríkjunum sló Niro EV sölumet árið 2021. Á þriðja ársfjórðungi 2021 höfðu hátt í 180.000 Niro EV selst vestra og það er auðvitað alveg magnað.
Þetta er áhugavert og þegar allt er tekið saman þá er það einna helst verðið, drægnin og plássið sem hefur gert hann svona vinsælan á hinum ýmsu mörkuðum.
Áframhaldandi vinsældir?
Nýr Niro hlýtur að vera bestun á því sem gott þótti og það er nefnilega svo spennandi að sjá hvort fyrirsögnin hér að ofan eigi ekki bara ljómandi vel við: Framúrskarandi framvinda.

Þetta byrjaði vel (heimsmet og fleiri met) og áfram gekk það vel með fleiri útfærslum (tengitvinn- og rafútgáfu) og nú er bíllinn orðinn frekar töff í útliti og breytingarnar allar í þá átt sem líklegt er að njóti vinsælda. Það væri rétt framvinda og í takt við þróunina.
Lítum nánar á þættina sem eru líklegir til lukkuvakningar.
Slagorðið „There is a Niro for everyone“ vísar til þess að hægt er að fá bílinn sem rafbíl, tvinn- eða tengitvinnbíl og svo eru litirnir býsna margir. Hægt er að púsla saman hinum ýmsu litum (C pósturinn getur verið í öðrum lit) og möguleikarnir eru fjölmargir.

Útlitið vekur eftirtekt. Það veit ég því í Frankfurt var horft á bílinn og meira að segja komu bílakarlar til mín og hrósuðu mér: rétt eins og ég hefði teiknað bílinn og gert hann svona reffilegan!

Þakkaði ég hrósið fyrir annarra hönd en gaman var að sjá og finna jákvæð viðbrögðin.
Gott „frými“ í rafbílnum
Fyrst ég er byrjuð á orðasuðu þá er ekki seinna vænna að frumsýna nýyrði dagsins. Frými = Frunk. Framrýmið í rafbílum er á ensku kallað „frunk“ og er það samruni orðanna „trunk“ og „front“.

Frunk er fallegt orð en undirrituð leggur til orðið frými (fram + rými) tilbúið til notkunar og það án endurgjalds.

Frýmið er ljómandi gott og eins og sjá má á myndunum er hægt að koma ýmsu fyrir í þessu 20 lítra hólfi sem er vel einangrað til að vatn, kusk og annar ósómi komist ekki að snúrum eða hverju því sem sett er í frýmið.
Beint frá bíl
Ég hugsaði um Stratotanker (KC-135) gefa F-16 orrustuþotu eldsneyti á flugi þegar ég skoðaði græjuna í trjónu rafbílsins, en þetta er eins konar millistykki til að hlaða önnur tæki utan bíls eða innan. Það er agalega skakkt að hafa hugsað um eldsneytistankinn fljúgandi (KC-135) í þessu samhengi því óheppilegri getur samlíkingin vart orðið út frá umhverfisvitundarvakningu. En svona er þetta stundum.

Kallast þetta Vehicle-to-Device (V2D) en „Beint frá bíl“ hljómar hreint ekki svo galið.

Fleira gott fyrir alla:
Hraðhleðslutengi fyrir alla hvar sem fólki er plantað í bílinn
USB-C tengi
Gott fótarými
Prýðileg sæti fram í og góð aftur í (þó er ekki hægt að stilla hæð öryggisbeltis aftur í)
Gott fyrir bílstjórann:
Akstursstillingar í stýri (Sport – Eco – Normal – Snow)
Þráðlaus farsímahleðsla
Snjallfetill (i-Pedal) allt gert með gjöfinni: Gefið í, hægt á, stoppað o.s.frv. Ef sá gállinn er á manni. Snjallfetill er nýyrði og ábendingar afþakkaðar nema í tölvupósti.
Endurheimt hemlaorku má stjórna með flipum í stýri (frá 0 upp í 4)
Framrúðuskjár
Þegar allt kemur til alls
Það var ljómandi skemmtilegt að aka nýjum Niro og hann er verður þeirrar athygli sem hann hefur fengið, verð ég að segja.
Reyndar er ökumannsaðstoðarkerfið dálítið afskiptasamt og minnir mig á konuna sem ég á til að þræta við þegar sjálfsafgreiðslukassinn er notaður í matvöruverslunum. „Settu vöruna á blablabla…“ segir konan í búðinni og það er einmitt það sem ég var að fara að gera. Ökumannsaðstoðin á það til að taka hlutverk sitt of hátíðlega og hreinlega taka fram fyrir hendurnar á manni. Þó maður sé með hendurnar á réttum stað.
Nú hef ég þann fyrirvara á að það gafst ekki tími til að kanna hvort hægt væri að stilla afskiptaseminni í hóf. Það hlýtur að vera en sumir bílstjórar kunna því kannski vel að hafa svona ágengan aðstoðarökumann með í för. Það er líka hægt að slökkva á þessu.

Með góða drægni og rými sem nýtist vel getur Niro hentað vel fyrir hina ýmsu kaupendur; langintesa og þá sem ekki eru mjög langir. Fjölskyldur, einstaklinga, gamla og unga.
Maður situr nokkuð hátt og er gott að setjast inn í bílinn: Ekkert brölt, fettur eða brettur. Það sama á við um að setjast aftur í bílinn. Það er fínt og útheimtir ekki jógaliðleika.
Til stóð að hnýta í verðlagninguna á Niro og setti ég verðið sem mínus við bílinn. Ástæðan er sú að í samanburði við stóra Kia EV6 er verðmunurinn ekki svo mikill en samanburðurinn er ósanngjarn. EV6 með smærri rafhlöðunni og í ódýrustu útfærslu kostar 6.890.777 kr en það er eiginlega of mikill munur á drægni til að sanngjarnt geti talist að bera þá saman.
Niro er aðeins dýrari en Hyundai Kona sem er hægt að segja að sé sambærilegur bíll hvað rafhlöðustærð, drægni og fleira snertir en á þeim munar í grunninn um 300.000 kr.
VW ID.3 er um 700.000 krónum ódýrari en drægnin ekki sú sama.
Þetta er hið flóknasta mál, það er að segja þegar manneskja af málabraut og hugvísindasviði fer að reikna. Þá er voðinn vís. Hvet ég þá sem mikið spá í verðsamanburð að leggjast yfir verðlista umboðanna. Ég segi pass í bili.
HEV frá 5.290.777 kr
EV frá 6.290.777 kr
PHEV frá 6.390.777 kr