KGM Torres EVX – aðdáun með smá óvissu!

Tegund: KGM Torres EVX

Árgerð: 2025

Orkugjafi: Rafmagn

Verð, innrétting, frágangur, akstursþægindi, pláss
Grænt ljós við baksýnisspegil
281
DEILINGAR
2.6k
SMELLIR

Rafbílamarkaðurinn minnir um þessar mundir á kambríumsprengingu eða stórahvell – nema, að í stað undarlegra dýrategunda er allt að fyllast af rafmögnuðum jepplingum. Í hverri viku kemur glansandi rafmagnbíll á götuna og lofar að leysa loftlagsvandræðin.

Torres EVX býður upp á loforð um hversdagslegt notagildi og kjarna alvöru jeppa.

En í þessu rafmagnaða andrúmslofti brýtur einn af þeim blað. Þetta er KGM Torres EVX (þetta nafn hljómar eins kóði sem hefur verið hafnað af „The Matrix”), rafmagnstvíburi Torres 1.5 GDI gerðarinnar, og á sama tíma frumraun KGM í heimi rafvæðingar.

Torres EVX býður upp á loforð um hversdagslegt notagildi og kjarna alvöru jeppa. Við skulum sjá hvort þetta sé bara markaðstrikk eða kannski eitthvað meira.

Frumleg hönnun afturhlerans.

Kunnuglegt andlit, nú með rafmögnuðu afli

Við fyrstu sýn lítur Torres EVX út eins og bensínættinginn. Og þetta er ekki tilviljun, heldur vísun í „Powered by Toughness” heimspeki KGM, sem hljómar eins og einkunnarorð ofurhetju frá níunda áratugnum (en á í raun að fela í sér óbugandi anda með traustum arkitektúr og skúlptúrfegurð). Ímyndaðu þér ástarsamband milli Rubik’s Cube og Tonka trukks – og þú ert með mynd af þessum jeppa í höfðinu.

KGM Torres EVEX er rammaður inn í grófa plastumgjörð sem gefur bílnum sterklegt og töff útlit.

Við erum með lárétt LED dagljós, svipmikil handföng á húddinu og heildarútlit sem öskrar: „Ég stend mig vel bæði í skutli og skreppum en ég get alveg farið ótroðnaðr slóðir líka … kannski.” Torres EVX er ekki enn einn straumlínulagaður sápudiskurinn sem á að svífa um loftið eins og draugur.

Hann lítur út eins og jeppi sem gæti hæglega unnið bardaga við ísbjörn sem kom á jaka frá Grænlandi (en í guðanna bænum ekki reyna það), svolítið eins og … Jeppi. Að aftan eykur áberandi hönnunarþáttur, sem líkir eftir varahjólshlíf, sjarmann en það erfir hann lóðbeint frá stærri torfærubílum.

Reyndar er bíllinn bara framhjóladrifinn en í augum manns lítur þetta bara út eins og jeppi. Allavega jepplingur, sportjepplingur jafnvel.

Undir þessari harðgeru skel er rafmagnað hjarta. BYD CTP batteríið lofar meira viðnámi gegn skemmdum og frammistöðu, með afkastagetu upp á 73,4 kWh og 462 kílómetra drægni (samkvæmt WLTP staðlinum). Í raun, í stóra samhenginu, getum við treyst á um 400 kílómetra í bæjarakstri á góðum sumardegi en á hringveginum líklega um 300 kílómetra.

Og KGM, í næstum biblíulegri trú, veitir tryggingu á rafhlöðunni að einni milljón kílómetra. Þetta er eins og að fara til tunglsins og til baka… tvisvar. Eða einfaldlega sem leigubíll frá Leifsstöð í Hörpuna og fram og til baka 9615 sinnum. Þetta tilboð hjá KGM fær okkur ekki aðeins til að klappa fyrir bílaframleiðandanum heldur einnig standa upp og klappa.

Tæknilegur stjórnklefi og flott innanrými

Innréttingin í Torres EVX er blanda af Silicon Valley og skandinavísks andvara. Tveir 12,3 tommu skjáir ráða ríkjum í mælaborðinu, eins og vökul augu, myndavél metur aksturslag þitt (en skynjar of ákaft tilvistarkvíða þinn – sem betur fer er hægt að slökkva á þessum þreytuskynjara ökumanns).

Mjög vel búið innanrými og alvöru leður á sætum. Virkilega þægileg sæti og gott er að stíga inn og út úr bílnum.

Apple CarPlay (aðeins með snúru, því miður, eins og áratuginn áður!), Android Auto, TomTom leiðsögn og 360° myndavél (fullkomið til að greina innkaupakerrur sem hafa villst, þó myndgæðin gætu verið betri) – allt er á sínum stað.

Framúrstefnuleg hönnun skjánna tryggir hámarks magns upplýsinga og gefur þér stjórn á nákvæmlega öllu.

Grafíkin er bæði flott og skýr, margmiðlunarkerfið virkar nokkuð skilvirkt, en það getur alveg verið pirrandi – til dæmis – útvarpsupplýsingastikan nær yfir suma hnappana þegar við viljum fara inn í stillingar bílsins, þannig að áður en KGM lagar það með uppfærslu (ef þeir gera það) lærir þú að bölva hljóðlega fyrir framan börnin.

Og ekki halda að þú munir yfirgnæfa það með tónlist vegna þess að hljóðkerfið veldur vonbrigðum – hljóðið er flatt og svipbrigðalaust, jafnvel eftir nokkuð tímafrekt fikt í tónjafnarastillingum.

Hagkvæmni er KGM ofarlega í huga. Fljótandi miðjustokkurinn býður upp á skjól fyrir allar jarðneskar eigur þínar (síma, lykla og Smint), þráðlaust hleðslutæki (vegna þess að snúrur, eins og við höfum þegar staðfest, eru fjarlæg fortíð). Innréttingin er skreytt með málm- og koparáferð (og hvers vegna ekki?

Og jafnvel þótt það sé úr plasti, þá kemur það virkilega vel út!), stillanleg umhverfislýsing, fallega hönnuð, þægileg sæti með rafstillingu fyrir ökumann og farþega (þar á meðal mjóbaksstuðning, sem er sjaldgæft utan úrvalsflokksins!). Sætin eru ekki aðeins upphituð og loftræst, heldur einnig þægileg, sem gerir jafnvel lengstu ferðirnar ánægjulegri.

LED lýsing gefur bílnum sterkan svip.

Farþegar í aftursætinu hafa furðu mikið pláss – þrír fullorðnir geta auðveldlega passað í aftursætin (eða fjórir, ef þeir eru í nánu sambandi). Geymsluhólfin eru vel ígrunduð því allir elska vel falda króka og kima.

Skottið býður upp á glæsilega 839 lítra og þegar aftursætin eru felld niður stækkar það í 1662 lítra, sem gerir Torres EVX að fullkomnum félaga í fjölskylduferðir eða til að flytja stóran hund, lítinn hest eða þrjár kindur.

Hiti og kæling í framsætum.

Akstursævintýri (margt beint úr bæklingi KGM – ég las – í alvöru!)

Torres EVX er knúinn af 201 hestafla rafknúnum mótor með 339 Nm togi og er ekki bara glæsilegur í þéttbýli; Hann passar vel fyrir lítil og stór ævintýri. Hröðun frá 0 til 100 km/klst er 8,1 sekúnda, sem er meira en ágætis árangur. Þrátt fyrir 1915 kg þyngd er bíllinn furðu lipur og mjúkur og stýrið endurspeglar nokkuð vel viðnám vegarins.

BYD (blade) rafhlaðan gerir ráð fyrir frekar hraðri hleðslu. Með 350 kW hleðslstöð geturðu endurnýjað orku úr 10% í 80% á aðeins 28 mínútum. Jafnvel með 100 kW hleðslutæki tekur aðeins 37 mínútur að fullhlaða.

Allt að 11 kWh í heimahleðslustöð en um 120 kWh í hraðhleðslu.

Það er leitt að í Torres EVX er engin varmadæla sem mörgum þykir nauðsynlegur kostur á Íslandi. Sem betur fer virkar hitakerfið samstundis, sem og upphitun sæta og stýris.

En alvöru rúsínan í pylsuendanum er eiginleikinn fyrir (V2L) hleðslu. Það breytir Torres EVX í farsíma rafmagnsbanka, sem getur knúið allt frá fartölvu til lofthamars og kannski upp í lýsingu á lítilli sumarbústaðabyggð.

Fullkomin fyrir útilegur og aðrar frístundir með fjölskyldunni. Og eins og alvöru „jeppa” sæmir, getur EVX dregið kerru sem vegur allt að 1,5 tonn (með bremsu) og 500 kg (án bremsu), því stundum þarf að flytja eitthvað – til dæmis stóran hest, því litlir, eins og við munum, geta verið í skottinu.

Öryggi og aðrar brellur

Öryggiskerfin eru mörg, eins við þekkjum æ betur í heimi sem minnir í auknum mæli á Mad Max kvikmynd. Torres EVX býður upp á heilt stafróf af skammstöfunum: AEB, LDW, LKA og fullt af öðrum kerfum sem eru hönnuð til að bjarga þér frá því að lenda í ógöngum.

Því miður eru viðvörunarhljóðin of áleitin og kerfin sjálf geta verið aðeins of kappsöm. Hinsvegar þekkjum við það úr flestum nútímabílum í dag. Þú getur slökkt á þeim, en þú verður að kafa í niður í gegnum valmyndina og það sem verra er, eftir að hafa endurræst bílinn þarftu að gera þetta aftur.

Farþegar í aftursæti stillt framsæti ef þarf.

Ó, og ég gleymdi næstum einu smáatriði í viðbót. Græna ljósdíóðan við baksýnisspegilinn, logar stanslaust. Fann reyndar ekki hvað þetta græna ljós gefur til kynna en kannski er það GPS, tenging við netið eða kannski leynilegt merki fyrir geimverur, en eitt er víst – það er smá pirrandi og spillir þægindum við akstur og skín í augu ökumanns í myrkri.

Annað, og það sem maður saknar helst, er 4×4 / AWD. Bensín Torres er búinn fjórhjóladrifi, en rafbíllinn ekki. Og það sem meira er, bíllinn togar það vel að hann spólar af kæti þegar stigið er á orkjugjöfina.

Heillandi bíll á sanngjörnu verði

KGM Torres EVX er svolítið sérstakur bíll. Þetta er rafbíll sem reynir ekki að vera annað en það sem hann er, ekki of framúrstefnulegur eða of … nokkur. Hann heldur sinni sérstöku hönnun, býður upp á ágætis drægni, hagnýtar lausnir og hendir inn rafhlöðuábyrgð fyrir fáránlega brjálaða eina milljón kílómetra.

Torres EVX er engin bylting, heldur traustur, nokkuð vel heppnaður og furðu heillandi valkostur á markaði fullum af uppblásnum loforðum. Þetta er eins og þægilegir gönguskór í heimi háhæla – kannski ekki þeir smörtustu, en helvíti hagnýtir. Og í heimi sem færist hraðar og hraðar í átt að glundroða er hagkvæmni dyggð sem vert er að meta, jafnvel þó með örlítið kaldhæðnislegu brosi.

Vegna þess að fyrir svo lágt verð fáum við mjög frumlegan bíl, sem er ekki fullkominn en mun örugglega eignast sína notendur og jafnvel aðdáendur.

10 ára eða 1 milljón kílómetra rafhlöðuábyrgð segir okkur að KGM séu nokkuð öruggir með vöru sína. Torres EVX er sterkur leikur fyrir þá sem eru að leita að einhverju meira en bara smart rafmagnsgræju.

Myndband

Helstu tölur:

Verð: 5.990.000 kr. – 6.990.000 kr. með orkustyrk. Verð á reynsluakstursbíl 6.990.000 kr. með orkustyrk.

Orkugjafi: Rafmagn

Afl: 201 hö.

Tog: 339 Nm.

Rafhlaða: 73,4 kWh.

Farangursrými: 839/1662 lítrar

Drægni: 462 km WLTP staðli

Drif: FWD

Lengd/breidd/hæð – mm: 4.700/1.890/1.720

Texti og ljósmyndir: Radek Werbowski

Myndband: Pétur R. Pétursson

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar