Bók um ökumanninn danska, Kevin Magnussen, kom út í gær. Á dönsku. Í bókinni gerir hann upp árin sem hann keppti í Formúlu 1. Nú kemur sér vel að hafa lært dönsku í öll þessi ár, ekki satt?
Kevin Magnussen er fæddur í Hróarskeldu í Danmörku þann 5. október 1992. Faðir hans, Jan Magnussen er fyrrum keppandi í Formúlu 1, F3, NASCAR og Le Mans GT og alls konar fleira. Það er því engum vafa undirorpið að þeir feðgar hafa um eitthvað að spjalla þegar þeir hittast. En um fjölskylduna og hinar ýmsu tengingar getum við fjallað betur síðar.
Í gær, daginn sem bókin Allt eða ekkert: Árin í Formúlu 1 kom út, skrifaði Kevin stöðuuppfærslu á Twitter. Hann hefur látið Twitter alveg eiga sig síðan í júní og urðu aðdáendur hans kátir þegar hann tók að „tísta“ á ný.
Tístið var um nýju bókina og er eitthvað á þessa leið (þó við kunnum öll dönsku voða vel, þá leyfi ég mér samt að snara þessu yfir á íslensku):
„Í dag kom þessi [mynd af bókinni] loksins út. Ég er bæði ánægður og stoltur af bókinni, þar sem ég segi í hreinskilni frá Formúlu 1, leiðinni á þann áfangastað og lífinu þar með sínum lægðum og hápunktum. Vona að þið munið lesa!“
Með fullri virðingu, þá ekur hann mun betur en hann skrifar, strákurinn. Enda atvinnuökumaður en ekki rithöfundur. Æj! Já, ég steingleymi að nefna að bókina skrifaði íþróttafréttamaðurinn Ulrik Jönsson sem vinnur á TV2.
Alls hafa fimm Danir keppt í Formúlu eitt en enginn jafnmörg tímabil og hinn ungi Kevin. Hann keppti frá 2014 til 2020, eða sjö tímabil.
Maður skyldi ætla að Danir væru nokkuð stoltir af sínum manni, og eflaust eru þeir það. Eftir sem áður hefur þetta litla „tíst“ ekki vakið eins mikla athygli og gera mætti ráð fyrir.
Nokkrar athugasemdir hafa verið skrifaðar við tístið og flestar um það hvort bókin verði þýdd yfir á ensku en Danirnir spyrja hvort hægt sé að kaupa áritað eintak. Þrátt fyrir að lítið hafi verið fjallað um bókina í dönskum fjölmiðlum er þó eitt og annað bitastætt sem hefur komið fram.
Æskudraumur sem rættist ekki
Í viðtali við TV2 kemur fram að Kevin hafi alla tíð, frá því hann var pjakkur, ætlað sér að verða bestur allra ökumanna. Það er að segja heimsmeistari. Þegar æskudraumurinn hafði enn ekki orðið að veruleika árið 2020 og liðssamningurinn við Haas var ekki endurnýjaður, sá Kevin þann kost vænstan að gefa drauminn upp á bátinn.
Burtséð frá því, þ.e. að hafa ekki náð heimsmeistaratitlinum þá þurfa menn nú að vera býsna góðir til að keppa í Formúlu 1.
Hann gerði margt gott í Formúlunni en ætli hann hafi ekki, eins og við svo mörg, verið grimmasti dómarinn þegar kom að honum sjálfum. Hann lýsir því í bókinni að árið 2015 hafi hann hlunkast niður á botninn. Andlega.
Fékk sér í glas og vaknaði með brotið nef
Eitt skiptið, eftir að hann klúðraði einhverju í keppni í Shanghai í Kína, fór hann með félaga sínum og fékk sér hressilega í staupinu. Hann ætlaði kannski að fá sér í tána en svo virðist sem hann hafi fengið sér í allar tærnar og rúmlega það!
Morguninn eftir, vissi hann ekkert í sinn haus og nefið, já, það var brotið. Hann hafði ekki hugmynd um hvað hafði eiginlega gengið á eða hvort hann hefði hreinlega gengið á. Vegg til dæmis.
Einhver gat frætt hann lítillega um hvað hefði átt sér stað á einhverjum skemmtistað kvöldið áður. Rusti nokkur hélt að Kevin væri einhver allt annar náungi og lumbraði dálaglega á ljóshærða sauðdrukkna Dananum sem vissi hvorki í þennan heiminn né einhvern annan.
Hann fékk aðstoð eftir þessa uppáhellingu og uppákomu en bókina þarf fólk sennilega að lesa til að vita meira um hvernig honum tókst að brölta upp úr þunglyndinu og holunni djúpu árið 2015.
Ekki hættur þó hann sé hættur
Í dag segist hann vera í góðum málum. Hann er hvergi hættur kappakstri og hefur komið víða við á þessu ári, m.a. í Le Mans og Indy-kappakstrinum. Hann er gríðarlegur keppnismaður og segir í sama viðtali að í hvaða akstursíþrótt sem hann keppi, keppi hann til að vinna.
Þrátt fyrir að hafa sogast inn í andlegt svarthol á ferlinum, klúðrað hinu og þessu í einkalífinu og í keppni, þá virðist þessi ungi maður nokkuð brattur, sé tekið mið af viðtalinu sem er aðgengilegt með því að smella á hlekkinn hér að ofan.
Hann og eiginkona hans eignuðust dóttur fyrir nokkrum mánuðum og „nu er det en lille pige, der står øverst på prioritetslisten, og det er dejligt,“ segir Kevin Magnussen á dönsku en ég bara varð að birta smá á dönsku! Þá sjaldan sem færi gefst.
Umræður um þessa grein