Kaninn að brjálast í framleiðslu batterísbíla
Nú kynnir GM komu Silverado með rafmagnsmótorum. Sá á að komast tæpa 650 kílómetra skv. WLTP staðlinum.
Ef menn aka á 80% hlaðinni rafhlöðu erum við að tala um 520 kílómetra, drögum svo frá hleðslutap vegna vetrarveðurs og þá erum við komin í 365 kílómetra í raundrægni. Ekki slæmt fyrir svo stóran bíl.
GM fer aðrar leiðir en Ford með F150 Lightning. Undirvagni Ford F150 Lightning hefur verið breytt talsvert mikið frá brunavélagerðunum. GM notar hins vegar grunninn af Hummer EV bílnum sem grunn fyrir Silveradoinn þó um allt öðruvísi bíl sé þar að ræða.
Þó svo að bílnum svipi æði mikið til Silverado dagsins í dag eru hluföllinn allt önnur. Húddið er styttra, lægra og ekkert grill er að flækjast neitt fyrir.
Það gerir bílinn mun rýmri. Afturbitar stýrishússins eru ekki ósvipaðir og á nýja rafmagns Hummernum. Enda er húsið mun rúmbetra og stærra en á þeim gamla.
Mótorarnir gefa 510 hestöfl og er 833 Nm tog í bílnum, sem kemur á markað 2025. Sú gerð sem verður í boði fyrir almenning 2024 er af RST gerð en sá bíll er líka búinn tveimur mótorum sem til samans gefa um 664 hestöfl og 1057 Nm af togi.
Sá fer úr 0 í 100 km/klst á 4,5 sekúndum segir GM.
Hægt verður að hlaða að hámarki 350 kW af straumi inn á bílinn hafi menn aðgang að slíkri hleðslustöð, dráttargetan er um 3,6 tonn og burðargetan um 544 kg. Markmiðið er að búa til bíl sem getur dregið tæpt tonn segir GM.
Til samanburðar við Fordinn, þ.e. F150 Lightning, ber hann örlítið meira en dregur aðeins minna – fer samt eftir gerðum bíla. Fordinn getur hlaðið 150 kW af straumi inn á bílinn á klukkustund.
Jæja, þá eruð það verðin. Fyrsta útgáfa, RST 2024 er „fully loaded“ mun kosta frá 105 þúsund dollurum. Grunngerðir munu kosta frá um 40 þúsund dollurum þegar bíllinn kemur á markað 2025.
Frétt unnin upp úr grein á Autoblog.
Umræður um þessa grein