Við sem búum á þessu landi megum eiga það að vera frekar sniðugt jeppafólk. Margslungið veðurfarið gefur okkur ekki bara byr undir báða vængi heldur blæs það stundum öllu hreinlega um koll. Þá er nú gott að eiga góðan jeppa. Toyota hefur haldið jeppasýningar um árabil og nú er komið að sýningunni 2022.
Það sem mér persónulega finnst skemmtilegt við jeppasýningar Toyota er að þar eru ekki „bara“ bílar sem umboðið er með til sölu. Þar eru nefnilega alls konar „úber-jeppar“ til sýnis og í ár, þ.e. á morgun, verður til sýnis býsna vel búinn jeppi frá Neyðarlínunni sem notaður er við, tjah, verstu aðstæður ef svo má segja. Alla vega við mjög krefjandi aðstæður út um allt land.
Svo er alltaf gaman að sjá magnaða jeppa sem meistararnir frá Arctic Trucks hafa breytt og gert að algjörum listaverkum. Listaverkum á hjólum.
Klukkan 12 á morgun, laugardaginn 26. febrúar hefst húllumhæið og stendur til klukkan 16.
Tæknibíll „mannsins með drónann“
Eitt af því sem hlýtur að teljast með því forvitnilegra á sýningunni er bíll ljósmyndara nokkurs. Björn Steinbekk kannast margir við vegna hreint út sagt magnaðra drónamyndbanda frá eldgosinu í fyrra. Þessi myndbönd og ljósmyndir fóru um allan heim – enda alveg svakalega flott. Björn er jeppamaður og á einn tæknilegasta Hilux landsins.
Þessi Hilux er víst (hef ekki séð hann sjálf) svo gott sem fullbúið útsendingarstúdíó í formi jeppa.
Útivistargræjur, jeppagræjur og allt mögulegt til jeppaferða frá Garminbúðinni, Hafsporti og Unbroken verður á sýningunni. Og auðvitað líka nýir fjórhjóladrifsbílar Toyota; Land Cruiser, Hilux, Highlander, RAV4 og Yaris Cross. Ef mér skjátlast ekki verður heitt á könnunni – annað kæmi á óvart!
Sem sagt: Á morgun, laugardaginn 26. febrúar, á milli 12 og 14 í Kauptúni í Garðabæ.
Umræður um þessa grein