Jaguar XF reynsluakstur – ef Facebook stöðuuppfærsla væri bíll
Bílnum.is gafst kostur á að reynsluaka Jaguar XF á dögunum við það sem verða að teljast kjöraðstæður í íslensku haustveðri. Það var kannski synd, bíllinn fjórhjóladrifinn og hann hefði eflaust getað sýnt góða takta í slabbi og skítaveðri. En þrátt fyrir allt er þetta Jaguar, fágaður bíll fyrir fágað fólk og veðrið var því ákjósanlegt.
Jaguar kom inn á íslenskan markað eftir langa bið unnenda breska framleiðandans vorið 2015 með kynningu á F-Type sportbílnum. Síðan hefur BL opnað glæsilegan sýningarsal fyrir merkið og kynnt hvern bílinn á fætur öðrum. Jaguar er kærkomin viðbót á íslenska markaðinn sem hefur að mestu verið bundinn við þýska framleiðendur og Lexus og Volvo.
Enn í dag stendur Jaguar fyrir sportlega eiginleika – eitthvað sem ef til vill mætti segja að sé á undanhaldi hjá þýska keppinautinum frá sama umboði. Það sést líka á bílnum. Framsvipurinn er vígalegur ef ekki ágengur. Bíllinn er stór, er í sama flokki og fimm línan frá BMW, en felur það tiltölulega vel. Lágar hliðarrúður og stórir hurðarfletir leyna stærð bílsins vel. Svipurinn að aftanverðu er þó veikari en síður en svo illa heppnaður.
Skarar framúr í aksturseiginleikum sem skapar mótsögn
Að innan er Jaguar XF í Portfolio útgáfunni bæði vel útbúinn og smekklegur. Jaguar fer sínar eigin leiðir við hönnun á innanrými og stendur ekki alveg á pari við samkeppnina eins og hún er best – en nýtur þó þess að skera sig rækilega úr því mengi með óvenjulega hönnuðu mælaborðinu. Það fer vel um mann við stýrið og manni líður afskaplega vel.
Búnaður bílsins er enda góður. 2.0 lítra Ingenium dísilvél sem skilar 180 hestöflum nægir bílnum vel en hún er tiltölulega gróf og spillir örlítið upplifuninni sem unnendur eldri gerða Jaguar vænta. 8 gíra sjálfskiptingin er sömuleiðis skilvirk í sinni vinnu en hún nær samt sem áður ekki breiða yfir grófa dísilvélina.
Og þarna erum við kominn að því sem er dálítil mótsögn við þennan bíl. Aksturseiginleikar hans eru nefnilega algjörlega framúrskarandi. Bíllinn svínliggur og beinlínis skreppur saman þegar honum er hent í beygjur. Fjöðrunin ræður afar vel við ójöfnur og lélegt þriðja heims malbikið sem boðið er uppá á Íslandi. Fjórhjóladrifið gerir bílinn ennfremur sérlega fótvissann og það er ekki erfitt fyrir mann að kaupa það að „Torque Vectoring“ búnaðurinn hafi mikið um það að segja hve ótrúlegt grip bíllinn hefur í beygjum á lélegu yfirborði.
En í þessu felst semsagt þessi mótsögn. Háþróaður undirvagn bílsins kallar á sportlegan akstur sem gróf dísilvélin getur illa mætt sómasamlega. Vélin dugir einfaldlega ekki til að nýta það besta sem undirvagninn býður upp á. Fyrir þá sem kjósa stílinn og vilja njóta hans innan ramma skynseminnar er Jaguar XF Portfolio 2.0 dísil hinsvegar prýðilegur kostur. Það er þó afskaplega freystandi að ímynda sér hvurslags hörku apparat þessi bíll sé með 300 hestafla twin turbo V6 dísilvélinni sem kostar þó bara hálfa milljón til viðbótar. Hann er 5,5 sekúndur í hundraðið og samt sparneytinn… en því miður bara afturhjóladrifinn sem í augum sumra er vissulega enginn ókostur.
Valkostur til móts við jepplingafárið
Dísilvélin þýðir að bíllinn er í hagstæðari tollaflokki en ef hann væri t.d. með bensínvél og það getur oft ráðið úrslitum um hvort bíll sé boðlegur með tilliti til verðs á íslenskann markað. Verð Jaguar XF Portfolio er samkeppnisfært, sérstaklega þegar haft er í huga hve fótviss og hentugur fyrir íslenska vegi þessi bíll er – hann kostar 8.590.000 eins og hann var prófaður en grunnverðið er 7.590.000. Ódýrasta gerð Jaguar XF er á 5.790.000.
Umgengni um bílinn er almennt góð. Það er nóg pláss í honum, sérstaklega aftur í og það fer vel um ökumenn og farþega. Skottið er rúmgott en heldur djúpt með nokkuð þröngri opnun. Afþreyingarkerfi bílsins eru fín, hljómgæði góð en stillingar fyrir hita í sætum og miðstöð óþarflega flóknar. Snertiskjárinn er almennt þægilegur til noktunar og veitir mikið af upplýsingum fljótt.
Stemmningslýsingin er einnig skemmtileg á haustkvöldi þar sem hún nýtur sín vel og tónar vel við afskaplega falleg leðursætin og óvenjulega innréttinguna.
Lítið er hægt að segja um hvernig það er að reka Jaguar XF – til þess er merkið of ungt á Íslandi. Það liggur hinsvegar fyrir að Jaguar er vinsæll heilt yfir í flotastjórnun á meginlandinu og það ekki síst vegna þess að bílarnir eru áreiðanlegir og Jaguar býður góð þjónustuplön. Samkvæmt lauslegri skoðun á áreiðanleika könnunum eru viðgerðir, aðrar en slithlutir, sjaldgæfar undir 160 þúsund kílómetra akstri.
Það er einnig vert að minnast á það að Jaguar XF með þessum vélbúnaði, sparneytinni en öflugri dísilvél og fjórhjóladrifi, er áhugaverður kostur á móti jepplingunum sem eru eftirsóttir í dag – oftast vegna þess að fólk vill sitja hátt. Hæðin kemur niður á aksturseiginleikunum og því hvernig hægt er að beita bílnum – ökuþórarnir ættu því að skoða XF fremur en jeppling.
En hver er þá niðurstaðan? Jaguar er kannski dálítið eins og Facebook uppfærsla okkar flestra. Kjörinn til að sýna okkar bestu og glæsilegustu hliðar, en inn við beinið sennilega bara vinnuþjarkur.
?