Hin alþjóðlega Formúlukeppni FIA (ABB FIA Formula E World Championship) í akstri rafknúinna keppnisbíla hefst nk. laugardag, 13. janúar, í Mexíkóborg. Þangað mætir Jaguar með nýjasta og þróaðasta keppnisbílinn til þessa; Jaguar I-TYPE 6, uppfærðan frá síðasta keppnistímabili, þar sem minnstu munaði að Jaguar stæði uppi sem sigurvegari.
Aðalökumaður verður sem fyrr Mitch Evans sem sigraði keppnina árið 2020 og mætir nú með Nick Cassidy, nýjum liðsfélaga í keppninni.
Alls keppa í ár 22 ökumenn frá ellefu liðum. Jaguar framkvæmdi langt prófunarferli bíla sinna í Valencia á Spáni og telur Jaguarteymið liðið aldrei hafa verið jafn vel undirbúið og í ár.
Þótt þetta sé í fyrsta sinn sem þeir Evans og Cassidy keppi saman í liði Formúlu E eru þeir þó þrautreyndir ökumenn í keppninni, þekkjast vel og eru raunar æskuvinir frá Nýja Sjálandi. Samanlagt hafa þeir unnið þrettán sigra og komist 37 sinnum á verðlaunapall í Formúlu E.
Nick Cassidy segist spenntur fyrir komandi keppnistímabili. „Við höfum varið mörgum mánuðum í undirbúning og ég get ekki beðið eftir að hefja keppni fyrir hönd Jaguar TCS Racing.
Brautin í Mexíkó er hröð og krefjandi sem allir ökumenn hlakka til að aka. Við erum staðráðin í að mæta af sem mestum krafti í fyrstu keppnina og ná besta mögulega árangri.“
Jaguar TCS Racing
Jaguar hóf þátttöku í Formula E árið 2016 og var þá fyrsta lúxusmerkið sem skráði sig til keppni. Auk keppninnar í Mexikó verður keppt í Diryah í Saudi Arabíu og Mónakó auk þess sem Tókyó í Japan og Shanghai í Kína bætast við sem nýir áfangastaðir.
Í keppninni leggur Jaguar til eigin aflrás, sem inniheldur mótor, gírskiptingu, rafkerfi og afturfjöðrun. Til að lágmarka kostnað við framkvæmd keppninnar styðjast öll keppnislið við sömu skel og undirvagn, sem eru úr koltrefjum auk þess sem rafhlaða allra liða er sú sama.
Fyrirkomulagið gerir m.a. kleift að framleiðendurnir geti einbeitt sér enn betur að þróun skilvirkari og léttari rafbíla með enn meiri afköstum og drægni.
Aðgengilegt á Eurosport
Áhugasamir um E Formula kappaksturins geta m.a. nálgast áhorfið á Eurosport.
Umræður um þessa grein