Jaguar F pace

TEGUND: Jaguar

Árgerð: 2018

Orkugjafi:

Dísel

137
DEILINGAR
1.2k
SMELLIR

Ekki lengur bara fyrir sérvitringa

Íslendingar eru undarlegur þjóðflokkur, eins og allir aðrir auðvitað. Á meðal okkar einkenna er til dæmis það að við skiptum seint um skoðun þótt allar staðreyndir bendi okkur í aðrar áttir. Það er af þessum sökum sem lambakjötið er hjartfólgnara en innflutt og frosið kjöt, innanáeinangruð hús enn smíðuð þrátt fyrir að umheimurinn einangri utaná og japanskir bílar keyptir vegna áreiðanleika þrátt fyrir að áreiðanleiki í dag sé fremur bundinn við einstakar gerðir bíla fremur en framleiðendur.

Það er með þennan bakgrunn sem Blýfótur prófar þetta sinnið Jaguar F-Pace, vitandi það að Jaguar í dag er ekki lengur bíll sérvitringa heldur áreiðanlegur og sportlegur bíll fyrir bílhneigða. Blýfæti langar nefnilega dálítið að kasta ljósi á hvernig Jaguar er í dag því það er svo órafjarri þeim hugmyndum sem margur landinn kann að hafa um merkið.

Enginn mótmælir því að Jaguar er lúxusmerki. Breska konungsfjölskyldan er í áskrift í bílum frá framleiðandanum sem í dag framleiðir líka Land Rover. Áreiðanleiki Jaguar er almennt á pari við eða ofan við meðaltal iðnaðarins og einstaka gerðir þykja mjög vel heppnaðar og eru því vinsælar sem flotabílar á meginlandi Evrópu og í Bretlandi.

Raunhæfur kostur

En það er auðvitað ekki áreiðanleikinn einn og sér sem fólk ætti að skoða. Jaguar F-Type er vel heppnaður útlitslega, rúmgóður og vel útbúinn jepplingur sem nýtir vélbúnað frá Land Rover til að skila drifgetu umfram meðaltalið en sögulega sportlega eiginleika Jaguar til að framkalla aksturseiginleika sem eru sjaldgæfir í þessum flokki bíla.

Prófunarbíllinn er með 2.0 lítra dísilvélinni sem skilar vel sínu en hennar helsti löstur er hve gróf hún er. F-Type er einnig vel útbúinn og smekklegur að innan og hafa innréttingarnar fengið uppfærslu í nýjustu gerðinni og eru núna vel á pari við það sem samkeppnin býður. Stemmningslýsingin er allsstaðar og breytir lit eftir því hvaða akstursstilling er notuð, á milli græns og rauðs – sparnaðarstillingar eða sports. Sætin eru frábær, leðrið í hærri gæðaflokki en maður á að venjast í þessum verðflokki og almennt er andrúmsloftið innandyra afslappað og gæðalegt. Það fer vel um mann og bungan á húddinu gefur fyrirheit sem 2.0 lítra dísilvélin mætir en 3.0 lítra dísilvélinn uppfyllir fullkomlega.

En stærsti jákvæði punkturinn við þennan bíl eru frábærir akstursleikarnir sem jaðra við það besta sem samkeppnin hefur að bjóða. 8 gíra sjálfskipting hendar 3.0 lítra dísilvélinni vel en með þeirri vél er bíllinn geysilega öflugur og fær í flestan sjó. Sjálfsskipting gerir minni vélinni einnig kleift að njóta sín en það örlar á töf þegar tekið er af stað sem ef til vill má rekja til stórrar túrbínu sem þarf að ná sér upp á snúning fyrir minni vélina. Með stærri vélinni er viðbragðið hinsvegar frábært – líkt og í bensínbíl.

Fínn jepplingur

Ásóknin í jepplinga er gríðarlega mikil. Undirritaður er almennt meira fyrir sérhæfðari bíla en vandinn er að þar þyrfti tvo bíla til að ná fram samvirkninni í þessum eina, t.d. fólksbíl með sportlega eiginleika og jeppa með jeppaeiginleika. Jaguar F-Type og aðrir slíkir bílar eru því skiljanlega eftirsóknarverðir. Það væri hinsvegar óskandi að fólk skoðaði þennan nýliða á markaðnum með jákvæðum huga því hann hefur raunverulega upp á nokkuð óvenjulega góða eiginleika að bjóða.

Jaguar F-Type er stæðilegur bíll. Það er völlur á honum og freystandi að líta um öxl þegar gengið er frá honum. En það sem mestu máli skiptir er að manni líður vel undir stýri og hann er afslappandi þegar maður vill. Eins og sannur öðlingur þá er hann ljúfur sem lamb flestar stundir en Jaguarinn er aldrei langt undan ef kalla þarf hann fram. Þetta er fínn jepplingur.

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar