Róttækir réttlætisriddarar bílastæða tefldu sinn fyrsta leik árið 2012 með stofnun Facebook-hópsins „Lærðu að leggja“. Nú, hátt í áratug síðar, hefur fjöldi meðlima hópsins margfaldast og telur tæp 14 þúsund. Í dag heitir hópurinn „Verst lagði bíllinn“.
Með þessari grein hefst óformleg úttekt á nokkrum áhugaverðum íslenskum „bílagrúppum“ sem til eru á Facebook. Fjöldi slíkra grúppa eða hópa er til og um að gera að kynna þá hér. Skoðum nú ögn betur hinn fjölmenna hóp sem nú heitir Verst lagði bíllinn.
Jafnt og þétt birta meðlimir hópsins myndir af bílum sem lagt hefur verið ósæmilega, að þeirra mati.
Samkvæmt upplýsingum inni á síðunni eru að meðaltali 49 ný innlegg þar í hverjum mánuði og nýir meðlimir síðasta mánuðinn tæplega 60. Það má því segja að nokkurt líf sé í þessum langlífa Facebookhópi.
Athygli vekur kannski að bílnúmerin á þeim bílum sem illa hefur verið lagt eru vel sýnileg og væri því áhugavert að vita hvort tilgangurinn sé að haft sé samband við fólk sem leggur illa. Þekkja lesendur til þess?
Einnig væri áhugavert að fá viðbrögð lesenda við spurningum undirritaðrar:
Eru hópar sem þessi líklegir til að fæla fólk frá því að t.d. leggja illa? Ef svo er, felst fælingarmátturinn í birtingu bílnúmersins? Eða, síðast en ekki síst: Bregður fólki þegar það sér með eigin augum mynd af því hversu illa það lagði; iðrast og tekur upp betri siði?
Hér er hlekkur á síðuna.
Ath. Undirrituð hefur gert nöfn og bílnúmer illgreinanleg á meðfylgjandi myndum en myndirnar eru skjáskot af síðu hópsins. Hópurinn er opinn.
Forsíðumynd/Unsplash
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Ábendingar um fleiri íslenskar bílagrúppur, sem sniðugt væri að fjalla um, má líka senda á malin@bilablogg.is
Umræður um þessa grein