Í stað Renault Kadjar kemur nýr rafmagnssportjeppi
Nýi rafmagnsjeppinn mun sitja fyrir ofan Megane E-Tech Electric og mynd Auto Express sýnir hvernig hann gæti litið út
Renault Kadjar, sem segja má að tilheyri þessum óræða flokki bíla sem almennt eru kallaðir sportjeppar, hefur átt nokkrum vinsældum að fagna hér á landi, hið minnsta 650 slíkir eru á skrá samkvæmt tölfræðivef Samgöngustofu, en núna ætlar Renault að stefna á sömu mið samkvæmt því sem lesa má á vef Auto Express á Bretlandi.
Renault mun hleypa af stokkunum nýjum rafknúnum fjölskyldujeppa sem mun sitja fyrir ofan Megane E-Tech Electric sem nýlega var kynntur á bílasýningunni í München, – og við munum sjá hann á bílasýningunni í París 2022, að sögn yfirmanna vörumerkisins.
Gilles Le Borgne, varaforseti tæknimála Renault, sagði við Auto Express að vörumerkið sé „þegar að vinna að nýjum bíl milli Megane [E-Tech Electric] og Nissan Ariya [sem Renault mun deila palli sínum með] fyrir komandi ár “
Þessi annar rafknúni „crossover“ frá franska fyrirtækinu verður byggður á CMF-EV grunninum, sem er sérgerður með rafbíla í huga, og að sögn Le Borgne er hægt að teygja hann upp í allt að 4,7 m að lengd, með allt að 2.780 mm hjólhaf.
Núverandi meðalstóri sportjeppi Renault með hefðbundinni brunavél, Kadjar, er 4.489 mm langur og með 2.646 mm hjólhaf, þannig að jafnvel þó að rafknúinn arftaki Kadjar sé svipaður að heildarlengd verður hjólunum ýtt í þá átt að bæta hönnunina og hámarka plássið.
Þetta nær til rafhlöðunnar, sem verður fest í gólf bílsins.
Le Borgne lagði áherslu á að „hönnunin gæti auðveldlega hentað fyrir 60 kWh rafhlöðuna“ og að „hámarksorka um borð verður 87 kWh“.
Hið síðarnefnda mun skila um 500 kílómetra drægni en 130kW DC hraðhleðsla þýðir að 10 til 80 prósent áfylling á rafhlöðuna tekur 35 mínútur og bætir við um 300 kílómetra akstursvegalengd.
Renault hefur þróað ofurþunna rafhlöðu fyrir CMF-EV grunninn.
Rafhlaðan sem er aðeins 110 mm þykk gerir það að verkum að plássið fyrir farþega nýtist betur og hámarkar möguleika sérhannaða grunnsins fyrir rafbíla; þessi nýi sportjeppi ætti líka að bjóða upp á meira farangursrými en 472 lítra farangursrými Kadjar í dag.
Það fer eftir rafhlöðuvali, 215 hestafla mótor að framan mun líklega knýja bíla sem eru búnir 60kWh rafhlöðu, en öflugri 239 hestafla eining er gerð til að koma með afl á framhjólin á 87kWh gerðinni.

Fjórhjóladrifið er frátekið fyrir Alpine útgáfuna
Hins vegar sagði Le Borgne við Auto Express að ólíkt Ariya tvíburanum myndi Renault ekki nota rafmótor að aftan til að útbúa bílinn með fjórhjóladrifi; þetta verður frátekið fyrir heitu Alpine útgáfuna.
Inni í rúmgóðu innarýminu verður nýja Android Automotive OpenR upplýsingamiðstöðin búin skörpu og tæru 12,3 tommu stafrænu mælaborði og 12 tommu uppréttum snertiskjá með þráðlausum hugbúnaðaruppfærslum.
Eins og mynd Auto Express sýnir mun þessi næsti sportjeppi Renault fylgja nýjustu þróun hönnunar vörumerkisins, þar sem nýja, einfalda merkið situr í miðjunni á milli mjórra LED framljósanna og dagljósanna.
Innfelld hurðarhandföng eru til að draga úr loftmótsstöðu, með sléttu yfirborði á hurðunum í jafnvægi með beittari línum að framan og neðan.
Að sögn varaforseta alþjóðlegrar markaðssetningar Renault, Arnaud Belloni, gæti bíllinn verið með nýtt merki að aftan líka. Þegar hann var spurður um styrk Kadjar sem nafns eða hvort við gætum búist við að sjá nýtt nafn, í ljósi arfleifðar Renault, eftir að hafa fundið upp Megane, R5 og (fljótlega) nútímalegan R4 sagði hann: „Við gætum komið með nýtt nafn. Nafnið er einfalt.
Annaðhvort hefur bíllinn heppnast vel og þú getur sagt „Við skulum fara í aðra kynslóð,“ eða sagan er þegar til. Clio er saga. Megane er saga. Espace er saga. Þú verður hissa; við komum með ný nöfn líka.”
Brotthvarf Kadjar nafnsins þýðir að mjög líklegt er að næsti jeppi Renault verði kallaður eitthvað annað. Hann bætti við að „stefnumótið sé á næsta ári“ svo búast megi við að bíllinn fari í almenna sölu árið 2023 að prófunum loknum.
Spjallað við Gilles Le Borgne

Framkvæmdastjóri tæknimála Groupe Renault svaraði nokkrum spurningum á vef Auto Express; spurningum um tæknileg atriði sem einkenna munu næsta rafmagnsjeppa Renault.
Sp .: Hversu stór verður bíllinn?
A: „Breidd er í raun mjög mikilvæg þegar kemur að flokkaskiptingu. Þú getur stækkað hjólhafið og skögunina [e. overhangs], en breiddina, við getum farið auðveldlega í 1,85m. Og auðvitað getum við farið í 4,7m á lengd.
Sp .: Þýðir það að við munum sjá sjö sæta útgáfu af nýja bílnum þegar hann fer í sölu?
A: „Nei, það er ekki áætlað að gera það. Það eru tvær sætaraðir í augnablikinu, en ekki þrjár raðir. Það er þó nokkuð fjölhæfur grunnur og innan þeirra sjö bíla sem kynntir verða árið 2025 verður annar bíll á CMF-EV grunninum.
Sp .: Þýðir það að stefnan að fullri rafvæðingu stuðli að hraðari þróun bíla?
A: „Þegar uppbygging bílsins og lykilatriðin liggja fyrir, viðskiptatækifærin en ekki stílinn, getum við farið af þessu hugmyndastigi til upphafs framleiðslu á 150 vikum. Ég veit hvernig á að gera það. Það er margt sem rafknúin ökutæki eiga sameiginlegt, sem þýðir að við getum unnið hratt.
Sp .: Hvers vegna munum við ekki sjá fjórhjóladrifna útgáfu af næsta rafmagnsjeppa Renault?
A: „Það verður ekki undir merki Renault, heldur Alpine vörumerkinu. Það er svolítið snemmt að tala um þennan bíl fyrir Alpine, en hann verður virkilega hágæða bíll-fjórhjóladrifinn með góðu togi. Hann verður svolítið öðruvísi. Við erum að festa hönnunina og erum frekar langt komin. En tæknin í grunninum gefur okkur möguleika á að búa til mjög öruggan og lipran bíl; við viljum að sú tilfinning skili sér.“
Vangaveltur um nýja Kadjar
Bílavefsíður hafa velt fyrir sér nýjum Renault Kadjar og birt ýmsar hugmyndir. Sumir hafa fjallað um væntanlegan bíl, en aðrir hafa leitt getum að því að núverandi Kadjar muni hætta og arftaki koma í staðinn.
Við verðum bara að bíða og sjá til hvað gerist.

(byggt á vef Auto Express og fleiri vefsíðum)
Umræður um þessa grein