Hyundai Ioniq 6: Snjall bíll með mikið rými

Tegund: Hyundai Ioniq 6

Árgerð: 2023

Orkugjafi: Rafmagn

Þægilegur í akstri, góð drægni, vel búinn
Skott frekar þröngt og höfuðpláss aftur í
168
DEILINGAR
1.5k
SMELLIR

Við vorum að vonum spennt að fá að prófa margverlaunaðan Ioniq 6 frá Hyundai á Íslandi fyrir fáeinum vikum síðan.

Og við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Bíllinn stendur fyllilega undir þeim titlum sem honum hefur hlotnast þó ekkert sé nú fullkomið í þessum heimi.

Hyundai Ioniq 6 er margverðlaunaður rafmagnsbíll.

Margverðlaunaður

IONIQ 6 vann þrenn verðlaun á 2023 World Car Awards, „World Car of the Year”, „World Electric Vehicle” og „World Car Design of the Year”!

Dómnefnd sem samanstóð af 100 bílablaðamönnum veitti IONIQ 6 viðurkenningu fyrir aðdráttarafl, straumlínulagaða hönnun og hugvitssamlegt rými.

Svipar ef til vill aðeins til Mercedes Benz CLS og einhverra gerða af Porsche.

Þessi þrefaldi sigur er í takt við árangur IONIQ 5 sem lék sama leik árið 2022.

Eins og áður sagði er stendur bíllinn ágætlega undir þessum titlum en við höfum verið að pæla hvort það sé ekki orðið „gamaldags” að fá eitthundrað álitsgjafa, allir blaðamenn, í stað þess að fá álit hundrað eða jafnvel þúsund, hugsanlegra bílkaupenda sem sýndur yrði bíllinn og þeir segðu hvað þeim fyndist um gripinn?

Ioniq 6 er svolítið sérstakur bíll.

Fullur af tækni og nýjungum

Þetta er fallegur bíll, fullur af splunkunýrri tækni, hannaður til að vera hagnýtur, þægilegur og öruggur. Allt atriði sem við viljum sjá í nútíma rafmagnsbíl á markaðnum.

Hönnunin er sambland ýmissa þátta, hann er pixlaður hér og þar og sést það klárlega á ljósum bílsins, hann liggur frekar lágt á en hæð undir lægsta punkt er svosem ekki mikil. (14.1 sm).

Hæð undir lægsta punkt á til dæmis Ford Focus Active er um 20 sm. Ekki er lokum fyrir það skotið að maður sjái smá Porsche og Mercedes-Benz lúkk á Ioniq 6 og þar kemur afturhlutinn sterkastur inn í samanburðinum ásamt hönnun þaklínu bílsins.

Pixlar skipa veglegan sess í hönnun bílsins.

Skoðaðu árgerð af 2019 Mercedes-Benz CLS og afturendann á Porsche 911.

Góð drægni

Útspilið hjá Hyundai með þessum bíl er án efa vel útilátin drægni bílsins en hún er gefin upp allt að 614 km skv. WLTP staðlinum á afturdrifsbílnum. Drægnin á reynsluakstursbílnum, sem er aldrifinn er um 519 km. skv. WLTP staðlinum.

Raunnotkun

Stóra spurningin er síðan hversu mikil drægnin er í raun. Samkvæmt vefnum ev database, sem við höfum oft miðað okkur við og séð drægnitölur standast nokkuð vel, segir að í íslensku sumarveðri sé bílinn ef til vill að fara um 510 km. á fullri rafhlöðu í blönduðum akstri. Það er ansi vel í lagt. Í köldu veðri gæti þessi tala hins vegar farið niður undir 350 km. Ef þessar tölur standast er Ioniq 6 meðal þeirra bíla sem hafa hvað mestu drægni í flokki rafhlöðubíla.

Rafhlaðan í bílnum er 77 kWh. Afturhljóladrifinn er mótorinn að gefa um 229 hestöfl en fjórhjóladfinn með tveimur mótorum er aflið um 325 hestöfl.

Bíllinn er sérlega vel búinn og hátt tæknistig að öllu leyti.

Vel búinn bíll

Hyundai Ioniq 6 kemur afar vel búinn. Staðalbúnaður er ríkulegur og má þar nefna þætti eins og lyklalaust aðgengi, blindhornsviðvörun, leiðsögukerfi, skynvaæddan hraðastilli, akreinastýringu og árekstrarvörn. Grunntýpan kemur einnig með rafdrifnum afturhlera og sætum og forhitun á miðstöð.

Á dýrari týpunum bætist síðan við búnaður eins og 360° myndavél, bílastæðaaðstoð, blindhornsmyndavél, 45’ viðbótarveruleika sjónlínuuskjár (AR HUD) og BOSE hljómkerfi.

Rými fyrir farþega og ökumann er mjög gott.

Að auki eru í boði búnaður eins og nudd í framsætum, glerþak og 20 tommu álfelgur á dýrustu týpunni.

Þægilegur og hljóðlátur

Ioniq 6 er ágætlega sprækur er ansi þægilegur í akstri. Hann liggur vel og er nokkuð þýður, tekur ójöfnur án þess að mikið beri á.

Það er lítið veghljóð enda hugsað fyrir því með einangrun á milli rafhlöðu og teppa bílsins.

Vel á minnst, teppinn eru úr endurunnum fisknetum. Samt er engin fiskilykt í bílnum.

Rúðustýring er í miðustokknum sem gerir að verkum að meira pláss er fyrir fætur við hurðir bílsins.

Það eina sem við finnum að bílnum er aðgengi að skottinu og höfuðpláss aftur í. Opið er lítið og er án efa óþægilegra að hlaða bílinn en ef hann hefði verið hafður sem hlaðbakur. 

Skottið nær langt inn og það er stallur sem gerir að verkum að erfiðara er að ná hlutum út úr skottinu.

Flennipláss aftur í og setur djúpar. Eina sem skyggir á er höfuðpláss fyrir fullvaxna einstaklinga aftur í.

Mjög gott pláss

Sætin eru þægileg að hætti Hyundai og plássið aftur í er eins og í hefðbundinni setustofu. Þó er þaklínan það lág að maður um 190 sm. rekur höfuðið næstum í toppinn þegar setið er aftur í.

Umhverfisvænt efnisval

Hyundai hefur hugsað fyrir umhverfinu í hönnun þessa bíls sem og Ioniq 5 en efnisval er allt miðað við endurvinnanleg efni sem skaða náttúruna sem minnst.

Hyundai Ioniq 6 er hannaður með hagkvæmni og endurvinnslu í huga. Sætin eru úr endurvinnanlegu plastefni og teppi úr fiskinetum.

Lítið viðnám

Einstaklega lágur loftviðnámsstuðull, upp á aðeins 0,21 á örugglega sinn þátt í að gefa bílnum meiri drægni en keppinautanna. En þetta er einn lægst loftviðnámsstuðull á rafmagnsbíl í dag.

800 volta rafhlöðukerfið býður upp á eina hröðustu hleðslu í boði og eykur drægni um 351 km á aðeins 15 mínútum!

Falleg hönnun blasir hvarvetna við manni.

Hentar breiðum hópi

Hyundai Ioniq hentar án efa víðtækum notendahópi. Hann hentar fjölskyldufólki eflaust sérlega vel vegna mikils pláss, góðrar drægni og hraðrar hleðslu. Ioniq 6 er stærri og rennilegri en bróðir hans Ioniq 5 og gæti því hentað frekar notandum sem hafa þurfa meira meðferðis.

Aðgengi og umgengni er sérlega þægileg og gott er að setjast inn í bílinn bæði fram í og aftur í.

Hyundi Ioniq 6 er án efa með betri valkostum á markaðnum í dag þó svo að Tesla Model 3 sé enn með vinninginn hvað varðar drægni og verð, séu bílarnir bornir saman með svipuðum búnaði.

Myndband

Helstu tölur

Verð: frá 7.990.000 kr. til 9.890.000 kr. Reynsluakstursbíll, Premium á 9.890.000 kr.

Afl mótors: 325 hö.

Tog: 605 Nm.

Drægni: 519 km. skv. WLTP staðli

Hleðslugeta: 233 kW á klst.

Hleðslugeta með heimastöð: Allt að 11 kW á klst.

Stærð rafhlöðu: 77 kWst.

Lengd/breidd/hæð: 4.855/1.880/1.495 mm.

Myndband er tekið á Samsung S21 Ultra.

Álitsgjafar: Pétur R. Pétursson og Gunnlaugur Steinar Halldórsson

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar