Rafbílalína Hyundai, Ioniq, bætir annarri skrautfjöður í hatt sinn á næsta ári þegar Ioniq 6 kemur á markað. Hann fylgir eftir hinum víðfræga Ioniq 5 og verði Ioniq 6 eitthvað í líkingu við þann brautryðjanda, er von á góðu!
Ioniq 6 er stór fólksbíll en Ioniq 5 er „crossover“, svo því sé haldið til haga. Ioniq 6 verður keppinautur rafbíla á borð við Tesla Model 3 og BMW i4. Drægni Ioniq 6 verður sú mesta af rafbílum Hyundai fram að þessu. Er þar fyrir að þakka þeirri þróun sem orðið hefur á 800 volta E-GMP grunninum en hann er nú notaður víða innan Hyundai samsteypunnar.
Nýi bíllinn hefur sést í prófunum að undanförnu en hann verður væntanlega formlega frumsýndur næsta sumar. Sögusagnir herma að Hyundai hafi seinkað frumsýningu bílsins vegna nokkurra verkfræðilegra lagfæringa, sem ætlað er að auka drægni bílsins umfram 482 km hjá Ioniq 5.
Þessar síðbúnu breytingar fela í sér endurskoðun á hönnun bílsins og stærð hans, þar sem hann er með aðeins lengri yfirbyggingu. Hyundai mun nú búa Ioniq 6 með 77,4kWh rafhlöðu sem deilt er með Kia EV6, frekar en að treysta á 73kWh pakkann sem er í Ioniq 5.
Með því að tvinna saman loftaflfræðilegri hönnun Ioniq 6 og hugmyndabílsins Prophecy frá síðasta ári, fæst mögulega yfir 500 km drægni. Auk þess er notast við fjórhjóladrifið úr Ioniq 5 en sá bíll er 301 hö og með fjórhjóladrifi í tveggja mótora drifrás.
Gert er ráð fyrir að bíllinn verði boðinn með minni 58kWh rafhlöðu og eins mótors uppsetningu, sem gerir grunnverð bílsins lægra.
Ioniq 6 verður í svipuðum hlutföllum og Ioniq blendingarnir, með lengri vélarhlíf og stærra yfirhangi að framan og aftan en Prophecy-bíllinn. Fernra dyra coupe lögunin verður brotin upp með því að bæta við vindskeið að aftan sem situr lágt á skottlokinu til að bæta loftlæði.
Innréttingin í nýja bílnum er frekar í anda Ioniq 5 en Prophecy, með svipuðum tveggja skjáa upplýsinga- og tækjabúnaði. Hann mun einnig koma með hefðbundnum miðjustokki með armpúða sem liggur frá mælaborðinu í gegnum miðju farþegarýmisins.
(byggt á frétt á Auto Express og fleiri bílavefsíðum – mynd af Ioniq 6 af vef Auto Express)
Umræður um þessa grein