Bandaríska umferðaröryggisstofnunin IIHS (The Insurance Institute for Highway Safety) verðlaunaði nýlega kóresku fyrirtækjasamsteypuna Hyundai Motor Group (HMG) þegar fyrirtækið veitti viðtöku tíu leiðandi öryggisverðlaunum fyrir framúrskarandi öryggisbúnað í fimm gerðum nýjustu bíla frá Hyundai og fimm bíla frá Genesis sem er lúxusmerki Hyundai.
Að mati dómnefndar IIHS er HMG leiðandi framleiðandi í bílaiðnaði heimsins í dag og handhafi sérstakra heiðursverðlauna IIHS fyrir árið 2025 fyrir öryggisbúnað í hæsta gæðaflokki (TOP SAFETY PICK (TSP) og TOP SAFETY PICK+ (TSP+).

Stafræna fjölmiðlafyrirtækið U.S. News & World Report hefur fjögur ár í röð útnefnt Hyundai Tucson sem besta minni fjölskyldusportjeppann í Bandaríkjunum, nú síðast fyrir yfirstandandi ár.
Bílarnir frá Hyundai sem hlutu verðlaunin eru IONIQ 5, IONIQ 6, KONA, SANTA FE og loks Tucson. Frá Genesis voru það GV60, tvær útfærslur af GV70, GV80 og svo stóri og rúmgóði lúxusbíllinn G90. Brian Latouf, forstjóri og alþjóðlegur öryggis- og gæðastjóri Hyundai Motor Group, var að vonum kátur með verðlaunin og sagði að frammistaða HMG byggðist fyrst og fremst á þrotlausum og miskunnarlausum öryggisprófunum sem undirstrikuðu óbilandi skuldbindingu bílaframleiðandans við viðskiptavini sína.
„Þessar niðurstöður IIHS staðfesta hollustu okkar í þessum efnum og núverandi forystu Hyundai Motor Group í öryggismálum bíliðnaðarins.“

Brian Latouf, forstjóri og alþjóðlegur öryggis- og gæðastjóri Hyundai Motor Group.
IIHS herti kröfurnar fyrir 2025
IIHS gerði nokkrar breytingar á verðlaunaviðmiðum sínum fyrir árið 2025 með því meðal annars að leggja aukna áherslu á vernd fyrir farþega í annarri röð með sérstökum prófunum sem krefjast háþróaðrar öryggisbeltatækni.
Þessar nýju öryggiskröfur IIHS leiddu til þess að aðeins 48 bílgerðir komust á verðlaunapall í ár, samanborið við 71 bílgerð árið 2024. Sjá nánar á iihs.org.
Forsíðumynd er af Genesis GV80
Umræður um þessa grein