Írabakki, Urðarbakki, Ósabakki, Öskubakki… Nei, afsakið öll! Sem betur fer er Öskubakki ekki í Bakkahverfinu í Breiðholti en ég minnist að hafa, þegar ég villtist í því hverfi, fengið símtal frá þeim sem ég ætlaði að hitta og var þá spurð hvar ég væri stödd:
MB: „Ég er í Öskubakka,“ sagði ég – þá stödd í Ósabakka (eins og orðhákar vita getur merking orðsins „ós“ m.a. verið reykur og ármynni) og fannst ég dálítið fyndin. Það þótti Breiðhyltingnum hins vegar ekki og fannst Hafnfirðingurinn í símanum frekar illa að sér.
En nú er eldgos og því fullkomlega við hæfi að fjalla um öskubakka!
Öskubakkinn, sem hluti af innréttingu hins hefðbundna bíls, heyrir fortíðinni til. Sígarettukveikjarinn sömuleiðis. Reykurinn stígur upp af minningunni en öskubakkinn, já, nokkuð langt er síðan askan yfirgaf hann.
Við hjónaleysin rákum bílapartasölu þar til fyrir ekki svo löngu. Af öllum þeim bílum sem við rifum (árgerðir ca. 2007-2013 – með öskubakka) man ég eftir svakalega fáum bílum þar sem stubba eða ösku var að finna í þar til gerðum öskubökkum.
Var hægt að telja þá á fingrum annarrar handar og átti maður þó nóg eftir af lausum fingrum að talningu lokinni.
En hvernig byrjaði þetta öskubakkastúss eiginlega? Og hvenær áttuðu framleiðendur sig á að þeir væru hreinlega að vaða reyk með þeirri tímaskekkju sem öskubakkinn var? Eða öllu heldur: Hvenær var öskubakkinn orðinn tímaskekkja?
Hugmyndin að þessari umfjöllun kom frá dyggum lesanda Bílabloggs sem hafði þá lesið greinina um Sögu hanskahólfsins og nefndi að saga öskubakkans gæti átt erindi við lesendur. Mikið rétt!
Hér kemur greinin, og í öllum bænum, ekki hika við að koma með tillögur að umfjöllunarefni!
Askan beint í trýnið
Blaðamenn eiga að gæta hlutleysis í hvívetna í skrifum sínum og finnur undirrituð að orðin sem límast hér á skjáinn eru síst boðberar hlutleysis. Burtséð frá því þá eru þau ef til vill fulltrúar reykleysis en skal gætt að gildishleðslunni hér eftir!
Í afar skemmtilegri grein sem birtist í Chicago Tribune árið 1994 sagði viðmælandi blaðamanns, Tom nokkur Morton, fyrrum reykingamaður:
„Ég man að framleiðendur komu öskubakkanum iðulega fyrir beint fyrir neðan miðstöðina, þannig að þegar maður kveikti á miðstöðinni fauk askan út um allan bílinn.“
Já, það var kannski þess vegna sem fyrsti bíllinn hans var blæjubíll; Ford Sportsman af árgerð 1948.
Staðsetning öskubakkans var til að byrja með frekar óheppileg og víða á alnetinu margslungna er þess getið að öskubakki undir miðstöðinni hafi verið ávísun á:
1. Að ökumaður og farþegi fengju öskuna beint í fésið, eða…
2. Að askan sáldraðist yfir allt inni í bílnum og væntanlega þá sem í honum voru.
Svona var þetta nú í gamla daga. Þetta var álíka klókt og að hafa öskubakka í mótorhjóli.
Hafa ber í huga að í þá daga voru öskubakkarnir líka opnir en ekki leið á löngu þar til menn hættu að láta sem ekkert væri; með öskubarið smetti, andfúlir og illskeyttir eftir að hafa asnast til að kveikja á miðstöðinni.
Nei, þetta var ekki í lagi! Auðvitað hætti fólk ekki að „púa“ og með tíð og tíma komu í bíla krómaðir öskubakkar með loki og þar með var öskuvandinn úr sögunni. Hinn almenni fólksbíll var ekki lengur „öskubíll“.
Nokkuð var lagt upp úr að öskubakkar í „betri“ bílum væru gasalega fínir og flottir og þannig var það í einhverja áratugi.
Allt til tíunda áratugarins þegar farið var að líta öskubakkann hornauga og ekki þótti réttlætanlegt að skikka fjölskylduna til óbeinna reykinga í því smáa rými sem farþegarými jú er.
Allra síst er ætlun greinarhöfundar að þykjast vera vitur og því er enn gripið niður í þessa góðu grein sem vísað er í hér að ofan:
Frá 1994/5 þurftu til dæmis kaupendur Dodge Stratus og Chrysler Cirrus að óska sérstaklega eftir öskubakka þegar nýr bíll var keyptur. Öskubakkinn var ekki lengur staðalbúnaður heldur aukabúnaður.
Greinin góða sem tvívegis hefur verið vísað í byggir að mestu á heimsókn blaðamanns á Henry Ford safnið í Dearborn í Detroit.
Þar er nefnilega mikið öskubakkasafn að finna (þ.e. í bílum á safninu) og það safn heimsótti ég á þeim árum er ég var bílablaðamaður og alls konar blaðamaður á Morgunblaðinu.
Málið er að þær milljón myndir sem teknar voru á safninu eru á svo góðum stað að þær finnast ekki. Hugsa ég mér gott til „glóðarinnar“ og mun fjalla meira um safnið góða síðar – þegar myndirnar koma í leitirnar.
Hvað „býr“ í öskubakkanum?
Þar sem sú er hér hamrar á lyklaborð á alla vega tvær drossíur af kynslóð fornbifreiða (þarf þó ekki endilega að seilast aftur til fornaldar til að finna öskubakka) eru hæg heimatökin þegar kemur að því að greina frá hvað sé í öskubökkum þeirra bíla. Ekki er þar neitt tóbakskyns. Svo mikið og margt veit ég.
Í BMW 518 er sápa og SIM kort í blessuðum öskubakkanum. Sápan, já… Hún er ekki fljótandi heldur er um að ræða agnarsmátt sápustykki sem vinkona mín gaf mér fyrir mörgum árum þegar ég skutlaði henni eitthvert.
Nú rennur upp fyrir mér ljós: Hefði hún gaukað að mér tannbursta þá hefði það verið vísbending um að skolt þyrfti að skrúbba.
En sápa? Jæja, ég tek þetta til mín. SIM kortið er hins vegar ráðgáta sem ekki þarf að leysa.
Í öskubakka Jaguar XJ6 er ekki neitt. Jú, þar er ljós. Ljós fyrir þá sem eiga bágt með að sjá hvort takist að slökkva í öskugjafanum. Ljós í myrkri? Ætla að opna öskubakkann næst þegar sá gamli bilar og athuga hvort ég sjái ljósglætu í þessu öllu saman.
Notagildi öskubakkans hefur þó alla tíð verið teygt langt út fyrir og yfir reyk og ösku og oftar en ekki hafa bakkarnir verið fullir af klinki eða rusli.
Það kemur vægast sagt ódaunn af öskubökkum sem innihalda það sem þeim er gert að innihalda og má auðveldlega áætla að jafnvel mestu stórreykingamenn sem enn hafa eitthvert lyktarskyn reyni eftir fremsta megni að halda öskunni og stubbunum útbílis (utan bíls).
Þegar ég hugsa málið betur man ég að í mínum forna BMW eru öskubakkar í farþegarýminu aftur í!
Sannleikurinn er sá að þegar sonur var lítill tilkynnti hann sigri hrósandi aftan úr almenna farrýminu í bílnum að „það væri sko ruslahólf“ í hurðarspjaldinu. Mjög löngu seinna fann ég í öskubakkanum aftur í klístrað ógeð sem eitt sinn hét tyggigúmmí og fleira álíka spennandi. „Ruslahólfið“ hefur ekki verið notað í áratug eða svo.
Hvað vék fyrir hverju?
En að kjarna málsins! Hvað breyttist og varð til þess að öskubakkinn fór á öskuhauga hugmyndanna í bílasögunni?
Það eru svo sem engin geimvísindi að baki. Fleira fólk reykti áður fyrr. Tökum Bandaríkin sem dæmi: Þar reyktu 42% fullorðinna árið 1965. Árið 2006 var hlutfallið komið niður í 20.8% en samkvæmt vefsíðu sem ætti að vera marktæk þá er hlutfallið nú um 9%. Því hefur það á sínum tíma þótt álíka eðlilegt og sjálfsagt að hafa öskubakka í bílum og okkur þykir að hafa glasahaldara í bílum nútímans.
Árið 2000 birtist grein í dagblaðinu The Nevada Post um brotthvarf sígarettukveikjara og öskubakka úr bílum. Rætt var við Bill George, sem þá var talsmaður Ford í Bandaríkjunum, og sagði hann að „þar sem stöðugt væri reynt að draga úr kostnaði við bílaframleiðslu væri ekki réttlætanlegt að framleiða bíla með dóti í sem fólk kærði sig ekki um,“ og eru það prýðilegustu rök.
Rökin eru fleiri og má þar nefna markaðslögmálið er hefur með framboð og eftirspurn að gera: Um aldamótin voru margir komnir með farsíma.
Ekki þótti fýsilegur kostur að reyna að troða þeim í öskubakka og þörfin fyrir geymsluhólf óx, sem og eftirspurn eftir 12V innstungu til að hlaða farsímana.
Heilsuvitund (ef það orð var ekki til þá er það til núna!) fólks hefur aukist þó svo að offituvandi virðist ekkert á förum: Færri reykja, fleiri vilja hafa vatnsbrúsa við höndina og á sama tíma eru sumir ómögulegir ef ekki eru milljón hólf í bílnum fyrir kókakóla og baneitraða orkudrykki.
Æj, hvað mér leiðist svona markaðs-heilsu-blabla-eitthvað… en engu að síður eru þetta atriði sem öskubakkinn þurfti að bakka fyrir.
Svo má ekki sleppa að minnast á að GPS, afþreyingarkerfi og annað sniðugt þarf sitt pláss og þá er eins gott fyrir öskubakkann að vera ekki fyrir.
Það þótti greinilega einu sinni sjálfsagt mál að reykja í bílum og öskubakkar voru eflaust fleiri en öryggisbelti í einhverjum bílum á einhverju tímabili í bílasögunni.
Í dag þykir alveg ótækt ef einhver reykir í bíl með börnin aftur í, og sjáist slíkt er næsta víst að maður „jesúsi“ sig og ákalli Óðin og Þór um leið og sagt er: „Neineinei, hver gerir eiginlega svona?“
Tímarnir breytast og bílarnir með!
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein