Hvaða viðhalds- og viðgerðakostnað losnar þú við þegar þú færð þér rafbíl?
Það er ekki víst að allir geri sér fulla grein fyrir hvaða viðhalds- og viðgerðakostnaður fylgir ekki 100% rafbílum. Það er ansi margt þó eitthvað komi kannski í staðinn en um það verður ekki fjallað hér.
Bílar sem eru í ábyrgð þurfa að fara í þjónustuskoðun a.m.k. einu sinni á ári til að viðhalda ábyrgðinni. Það er reyndar góð regla að láta yfirfara bílinn (eða gera það sjálf(ur)) einu sinni á ári þó hann sé fallinn úr ábyrgð.
En í tilfelli Tesla þarftu ekki að mæta í neinar þjónustuskoðanir en mælt með því að láta meta ástand hemlavökvans stöku sinnum.
Sé bíllinn með brunahreyfli þá þarf a.m.k. að skipta um mótorolíu og smursíu á hverju ári. Jafnvel loftsíu. Eftir enn lengri tíma þarf að skipta um viftureim og tilheyrandi, kerti, kælivökva, vökva á sjálfskiptingu, síu, tímareim og tilheyrandi, tímakeðju, mögulega kúplingu o.fl.
Það þarf stundum að endurnýja pústkerfið að hluta eða í heilu lagi líka. Sumar af þessum skoðunum og viðhaldi getur kostað frá tugþúsundum upp í hundruð þúsunda eftir því hvað þarf að gera. Þetta er kostnaður sem safnast upp.
Af því ekkert af þessum búnaði er í rafbíl þá sleppur eigandi rafbílsins við þennan kostnað.
„Það bilar ekki ef það er ekki í bílnum.“ Eitthvað á þennan veg orðaði fyrrverandi vinnufélagi minn það að auknum búnaði fylgja fleiri bilanir.
Brunahreyflar innihalda mjög marga hreyfanlega hluti sem geta allir bilað; á þeim eru slöngur og rör sem geta farið að leka og alls konar þéttingar sem einnig geta farið að leka. Það eru alls konar skynjarar, segulrofar og rafkerfi sem tengjast brunahreyflum.
Það eru nánast engir hreyfanlegir hlutir í rafmótor og öll áðurtalin atriði eru ekki í eða utan á þeim. Þess vegna eru færri bilanir og minna viðhald í rafbílum.
Að auki ættu hemlar að endast betur í rafbílum því það er hægt að láta rafmótorinn hemla (regenerative braking) og endurhlaða rafhlöður í leiðinni.
Því er það ljóst að það þarf að hafa fleira í huga en bílverðið þegar verið er að velta því fyrir sér hvort henti betur að kaupa rafbíl eða eitthvað annað.
Umræður um þessa grein