- Á dögunum fjölluðum við um breytingu á eldsneytismarkaði hér á landi, þegar olíufélögin nánast í skjóli nætur, skiptu yfir í 95 oktan bensín með 10% blöndu etanóls.
Miklar umræður sköpuðust í kjölfarið og mikil viðbrögð urðu við greininni okkar.
Vefur Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, fjallaði um þetta í einni frétt en ekki síðan söguna meir.
Undirritaður var fenginn í stutt viðtal í morgunútvarpi Rásar 2, þar sem aðeins var farið yfir málið.
Þar sem þessi breyting á framboði eldsneytis snertir fyrst og fremst eigendur eldri bíla þá hefði mátt búast við kröftugum mótbárum af þeirra hálfu, og því koma undirrituðum verulega á óvart að hlusta á viðtal við formann Fornbílaklúbbsins í kvöldfréttum útvarps þar sem hann hafði í raun nánast ekkert út á þetta að setja. Enda kom í ljós að þessi umræddi aðili er starfsmaður olíufélags sem hefur fyrst og fremst áhuga á að selja sína vöru.
Etanól getur skaðað vélbúnað fornbíla.
Meðal þeirra sem ég hef heyrt í eru eigendur mótorhjóla og fisflugvéla, sem hafa lýst gangtruflunum og ekki síður áhyggjum af rakasöfnun í eldsneytiskerfi sem eru með þessu nýja eldsneyti, sem getur kallað fram ryðmyndun á innra byrði vélanna, þegar langt líður á milli notkunar.
Nú síðast hafði samband við mig landsþekktur áhugamaður um fornbíla, sem lýsti vanþóknun sinni á „áhugaleysi“ Fornbílaklúbbsins á málinu.
Hann sagði að sú 5% blöndun etanóls sem var fyrir í eldsneyti hér á landi hefði haft slæm áhrif á gamla bílinn sinn og ekki myndi þetta nýja E10 bensín bæta málið, því þetta væri meðal annars að eyðileggja þéttingar í bensíndælu. Þar til viðbótar væru vaxandi áhyggjur af rakasöfnun í eldneytiskerfinu. Trúlega yrði að setja „aftöppunartappa“ á alla bensíngeyma fornbíla svo hægt væri að tappa öllu bensíni af þegar bílar væru settir í vetrageymslu.
Etanólið er ætandi
Mikið hefur verið fjallað um E10 bensínið á erlendum vefsíðum og flestir eru þar á einu máli um slæm áhrif þess, sérstaklega á gamla bíla.
„Etanól er ætandi þannig að með hærra hlutfalli etanóls í E10 er meiri hætta á tæringu á málmi, plasti og gúmmíi í eldsneytiskerfi fornbílsins þíns.
Þetta getur valdið mörgum vandamálum, allt frá biluðum eldsneytislögnum til vandamála með blöndunginn.
Etanól gleypir vatn
Vatnsgleypni er vandamál ef fornbíllinn þinn stendur kyrrstæður í langan tíma, eins og reyndin er með mjög marga eldri bíla. Því lengur sem bíllinn er kyrrstæður, því meiri raki safnast upp og það getur valdið alvarlegum vandamálum bæði varðandi akstur og öryggi.
Með öðrum orðum, þetta nýja E10 bensín er ekki besti kosturinn til geymslu. Þetta bensín getur valdið vandræðum fyrir litlar vélar sem eru aðeins notaðar á ákveðnum árstíðum – til dæmis sláttuvélar, utanborðsmótora og keðjusagir. Þegar E10 bensín er notað á þessa vélar eftirfarandi gerst;
Gúmmíþéttingar skemmast. Etanól er leysir sem brýtur niður ákveðin efni. Meðal annars gúmmí, og þá sérstaklega eldra gúmmí. Þetta leiðir oft til leka á þéttingum og slöngum og leka í öðrum gúmmí- eða plastþéttingum.
Vélin tekur inn á sig raka. Vandamál við etanól er að það bindur raka. Þetta þýðir að vatnsmagn E10 bensínsins getur aukist með tímanum sem getur valdið tæringu í vélum sem eru ónotaðar í nokkra mánuði í senn.
Þessi tæring skemmir blöndunginn og leiðir oft til vélarbilunar.
Blanda fyrir tvígengisvélar er með lélega endingu. Rakabindingarhæfileikar etanóls geta einnig haft neikvæð áhrif á bensínblöndu fyrir tvígengisvélar – sem hefur í för með sér óstöðugt og óáreiðanlegt blöndunarhlutfall. Þetta eykur hættuna á vélarvandamálum í bátum og tækjum sem eru sjaldan notuð.
Olíufélögin þegja þunnu hljóði
En það sem mér kemur mest á óvart er hve olíufélögin hafa lítið látið í sér heyra varðandi þessa breytingu. Það hefi mátt halda að það væri þeirra hagur að uppfræða okkur um kosti og galla þessa nýja E10 eldsneytis, benda á hvað bíleigendur geti gert, fjölgað sölustöðum á 98 oktan bensíni sem ekki er með íblandað etanól, þannig að eigendur bíla og tækja sem vilja geta notað slíkt bensín hafi möguleika á að nálgast það.
Við eigum eftir að fjalla enn frekar um þetta mál á næstunni þegar við höfum náð að afla frekari upplýsinga.
Umræður um þessa grein