Miðað við fjölda ökumanna, umferðarþunga og ástands vega mætti ætla að hér ættu að vera fleiri umferðarslys en raun ber vitni. Við erum nokkuð ofarlega sem þjóð þegar kemur að umferðaröryggi.
Erlendir ferðamenn
Samt sem áður eru erlendir ökumenn að aka um vegi landsins með mismunandi reynslu og kunnáttu til að aka bifreið svo við tölum nú ekki um frumstætt vegakerfi okkar.
Eini tvöfaldi vegurinn í báðar áttir er Reykjanesbrautin. Hún er ekki einu sinni öll tvöföld og verður það ekki alveg á næstunni en framkvæmdir eru hafnar.
Lélegir vegir
Við búum á eyju, samt notum við þungaflutninga á bílum á þjóðvegi nr. 1 með tilheyrandi auknu sliti á vegum. Hingað koma á þriðju milljón ferðamanna sem margir leigja sér bíl og aka um landið. Þeir mæta þessum trukkum allt árið um kring í myrkri, hálku eða með sólarlagið í andlitið.
Símanotkun undir stýri
Hefur þú svarað skilaboðum á „messenger” í akstri? Lestu skilaboð í akstri – kannski bara á ljósum? Hvernig er tilfinningin?
Ég ók brautina í morgun (Reykjanesbraut). Tók eftir nokkrum sem horfðu niður við stýrið. Maður sér það í splittaða sekúndu þegar maður ekur framhjá bíl að viðkomandi er í símanum. Og síminn er ekki við eyrað heldur í klofinu, ökumaðurinn horfir niður. Það er jafnvel verið að senda skilaboð með þumlinum.
Ég veit að þetta er freistandi en ég get lofað ykkur að þetta er ekki þess virði.
Læt fylgja með link á myndband sem vert er að horfa á.
Viljum við hafa þetta svona?
Nú er spurningin hvernig hægt sé að vinna í þessum málum á jákvæðan hátt. Forvarnir eru einn sterkasti þáttur í umferðaröryggismálum sem um ræðir.
Ættum við að skylda unga ökumenn til að horfa á myndbönd sem sýna afleiðingar umferðarslysa?
Engin lögga
Hins vegar eru evrópubúar að leysa sambærileg mál með auknu eftirliti. Lögreglan ekur þá í flutningabíl og fylgist með og myndar aðra flutningabílstjóra og hvort þeir séu að gera eitthvað annað en að aka.
Myndavélaeftirlit hefur að sama skapi aukist. Til dæmis væri auðveld leið til hraðastýringar á Reykjanesbraut að innleiða myndavélakerfi sem reiknar síðan út hraða bifreiðar.
Þú verður að smjöri
Hér er síðan hlekkur á reiknivél sem gefur upp nokkar lykiltölur sem máli skipta í árekstri.
Ef við tökum mig sem dæmi og ég ek á 100 km. hraða, ég er 115 kg. og ég er í bílbelti. Þá er hægt að reikna út nokkrar lykiltölur ef ég ek á og stöðvast skyndilega. Til dæmis verður G (G-force) um 198 í árekstrinum.
G er þyngdarkraftur og gildið segir til hve mikil þyngdaraukning verður á massanum við árekstur. Í þessu tilfelli fer þyngdarkrafturinn það hátt að það jafngildir því að bíllinn fari í pressu sem þjappar honum saman með 22 tonna þunga. Þetta gerist síðan allt á ansi stuttum tíma eða 14 ms. (millisekundum).
Og það lifir enginn svona árekstur af.
Hér eru síðan tvö myndbönd sem sýna hvernig hægt er að sinna forvörnum tengdum símanotkun í akstri.
Umræður um þessa grein