Hvað ætti ég að eiga marga bíla?
Um nokkru síðan hringdi vinur minn einn í mig til að ræða bílamál. Hann er svona kall eins og ég, síðmiðaldra, í tveggja manna fjölskyldu, börnin flogin og barnabörnin orðin nokkur. Hann hefur til heimilisbrúks tvo bíla; nokkurra ára gamlan rafbíl og álíka gamlan jeppling.
Pælingin, sem hann vildi ræða við mig var hvorn ætti að endurnýja og uppfæra. Hann langar að skipta jepplingnum fyrir meira jeppalegan bíl og er að spá í léttbreyttan Pick Up. En hin hliðin er, að eins og hann er ánægður með rafbílinn sinn til innabæjarbrúks þá þolir konan hans hann ekki.
Ekki svo að skilja að hún hafi neitt á móti bílnum sem slíkum, þvert á móti. Hún er hins vegar illa þjökuð af drægnikvíða. Að sögn þessa vinar míns þá veldur það henni verulegum áhyggjum að aka honum er hún hefur minnsta grun um að þurfa að fara eitthvað lengra en í vinnuna og heim aftur.
Klemman er þessi: Að breyta jepplingnum í Pick Up gæfi aukin færi á ferðalögum út fyrir þjóðveg 1, og í ljósi þess hve þessum pallbílum hefur farið fram í seinni tíð þá má vel brúka hann til daglegs snatts þar að auki. En að breyta rafbílnum í nýjustu kynslóð slíks, sem hefur mun meiri drægni en sá gamli, mundi fríja frúna frá drægnikvíðanum.
Auðvitað væri einfalda svarið: Gerðu bara hvort tveggja, en það kostar of marga peninga. Svo, títtnefndur vinur minn er í vondri klemmu.
Ofan á klemmuna bætist svo umhverfissamviskubitið; við eigum jú helst að eiga sem fæsta bíla og sem umhverfisvænasta, ekki satt?
En þessi vinur minn er held ég engan veginn einn um að glíma við þennan vanda. Sjálfur hef ég í einhver ár notað einmitt þessa samsetningu heimilisbíla; lítinn smábíl, sem síðasta árið hefur m.a.s. verið rafbíll til almenns hvunndagsbrúks og nokkurra ára gamlan pick up til veiði- og fjallaferða, skarks í sumarbústaðnum og annars, sem krefst alvöru jeppa.
Einn af göllunum við að gera út tvo bíla er tvöfaldur fastakostnaður; tryggingar, bifreiðagjöld, viðhaldskostnaður, dekk o.s.frv. Auðvitað er þetta lúxusvandamál. Þegar ég var lítill átti nær engin fjölskylda fleiri en einn bíl. En það er langt síðan það var og lífsstíll margra hefur mikið breyst síðan þá.
Alla vega; viðfangsefnið er: Hvað á ég að eiga marga bíla?
Einn bíll, helst lítill og sparneytinn er ódýrasti kosturinn og jafnframt sá umhverfisvænsti. En hann uppfyllir ekki þarfagreiningu mína á hvað heimilisbíllinn þarf að geta gert. Mig langar að geta komist í Þórsmörk og inn á hálendið á sumrin og á skíði á veturna og kannski í lengri ferðalög með slatta af barnabörnum og farangur; ég tala nú ekki um ef ég ætti tjaldvagn eða hjólhýsi. Þá dugar þessi umhverfisvæni bill engan veginn.
Ef ég á að láta þær langanir mínar ráða för og eiga bara einn bíl þarf ég (eða langar allavega til) að eiga jeppa. Því fylgir hins vegar, sé hann notaður í allan minn akstur, sá galli, að hann eyðir fullt af eldsneyti, sem bæði mengar og kostar mikið. Þá gæti ég jafnvel fyllst samviskubiti yfir loftslagssóðaskap mínum.
Og þá er bara ein lausn eftir; að eiga tvo bíla. Vandinn er, eins og áður sagði aukinn fastakostnaður við að eiga fleiri en einn bíl.
Ef öllum væri fúlasta alvara með að draga þurfi úr loftmengun af bílanotkun ættu stjórnvöld að mínu viti að hvetja alla til að eiga einmitt fleiri en einn bíl, ólíka bíla til að sinna ólíkum þörfum. Svona rétt eins og skiptilykill er góður til síns brúks og leysir oftast skrúfþörfina, en það er miklu betra að eiga sett af misstórum skrúflyklum. Eða; er einhver bara með einn hníf í eldhússkúffunni?
Í mínum huga hafði títtnefndur vinur minn algerlega rétt fyrir sér. Þetta er held ég í raun umhverfisvænasta lausnin og því sú skynsamlegasta: Einn umhverfisvænn bíll plús einn jeppi. Jeppinn er einvörðungu notaður til þess sem maður þarf jeppa til, smábíllinn í allt annað. Þannig er mengunarsóðinn nær aldrei notaður í innanbæjarsnattið og sá umhverfisvæn(n)i tekur á sig megnið af árlegum akstri.
Svo eftir standa þrír valkostir: Að vera eins umhverfisvænn og ég get, kaupa rafbíl (eða a.m.k. smábíl) og sleppa því að gera ýmislegt sem mig langar; Gefa skít í allt og keyra öllum stundum alvöru jeppa eða gera út tvo bíla.
Og þá kemur aftur allur aukakostnaðurinn við að gera út tvo bíla. Þá er bara ein lausn, ef ég er ekki tilbúinn til að gefa mér afslátt af þarfagreiningunni.
Að eiga jeppa og nota hann öllum stundum til allra hluta. Gallinn er að hann notar miklu meira af eldsneyti en smábíllinn, ég tala nú ekki um ef sá er rafbíll, sem mengar mun meira og kostar mig auk þess miklu fleiri krónur árlega við eldsneytisdælurnar. Já, það er vandlifað í henni veröld.
Umræður um þessa grein