Húmorsbíllinn Gremlin
Hugmyndin að Gremlin fæddist sama ár og undirritaður, enda má segja að margt sé sameiginlegt með okkur og þessum sérstæða bíl. Í fyrsta lagi er hann mjög furðulegur í útliti, líkt og hönnuðir AMC hafi ekki nennt að klára bílinn þegar þeir voru komnir aftur fyrir framhurðir.
Frumdrög á ælupoka
Það voru einmitt þeir Dick Teague hönnunarstjóri American Motors og stílistinn Box Nixon sem áttu þarna hlut að máli. Þeir höfðu rætt möguleikann á styttri útgáfu af einhverjum af bílum fyrirtækisins.
Það var svo einhvern tímann þegar Dick Teague sat í flugvél yfir Bandaríkjunum að hann teiknaði frumdrög bílsins aftan á ælupoka.
Hann einfaldlega notaði útlit Javelin aftur fyrir framhurðir og stytti síðan bílinn. Útkoman var þessi bráðfallegi og snjalli smábíll AMC,; AMC AMX-GT, tveggja sæta „pony“ útgáfa af Javelin.
Fyrst AMX
AMX var frumsýndur á alþjóðlegri bílasýningu í New York í apríl 1968. AMC átti lítinn aur á þessum tíma. Og olíukreppan átti eftir að banka hressilega í bensíntankana þegar fór á líða á áttunda áratuginn. Þeir vildu framleiða minni bíla. Útlit bílsins ber þess merki að búa þurfti eitthvað til úr litlu. Þetta var „þrír fjórðu“ alvöru bíll og „einn fjórði“ eitthvað alveg út úr kú.
Bíllinn vakti óskipta athygli almennings. Fólk horfði lengi til að finna út hvort bílinn væri svona hrikalega ljótur eða svona æðislega flottur.
Smábílaævintýri
Á þessum tíma kom Ford með Pinto; smábíl sem var svar fyrirtækisins í olíukreppunni. Vandinn við þann bíl var hins vegar sá að í honum gat kviknað eldur við smæstu aftanákeyrslur.
Hann var því gallagripur greyið og hreinlega talinn hættulegur.
Chevrolet setti á markað hinn bilanagjarna Chevrolet Vega sem svara átti kallinu um minni bíla í olíukreppunni.
Notuðu það sem til var
Bob Nixon (ekki skyldur Nixon forseta) hóf störf hjá AMC aðeins tuttugu og þriggja ára að aldri og átti eftir að verða hönnunarstjóri AMC í henni framtíð. Það var hann sem tók AMC Hornet og gerði það nákvæmlega sama við hann og Dick Teague hafði gert við Javelin bílinn.
Hann köttaði hann í sundur um það bil í miðju og setti sama bakenda á hann og Dick hafði sett á Javelin. Þá varð útkoman Gremlin.
Gremlin var ólíkinda kvikindi
Á þessu stigi vil ég taka fram að kvikindið Gremlin er talin goðsagnakennd, uppátækjasöm furðuvera sem veldur bilunum í allskyns vélum og tækjum, ekki síst flugvélum.
Lýsing á þeim hefur verið á ýmsa vegu en meðal annars sem skepnur með oddhvasst bak, stór og undarleg augu og litlar klær á örmum og kjaft með beittum tönnum.
Vinsæll og flottur
Auðvitað var Kaninnn að reyna við framleiðslu lítilla bíla. Gremlin var meira að segja næstum því eins stuttur og VW Bjalla, munaði bara um fimmtíu sentimetrum.
Verðið var gott
Árið 1970 var Gremlin einn ódýrasti bíllinn á markaðnum í Bandaríkjunum og kostaði rétt undir tvö þúsund dollurum stykkið. Hægt var að fá hann með tveimur stærðum af 6 strokka línuvélum, tveggja sæta með föstum afturglugga og fjögurra sæta með opnanlegum afturglugga.
Árið 1972 var meira að segja hægt að fá kaggann 8 strokka.
Gremlin var framleiddur og seldur við góðan orðstír til ársins 1978. Heildarframleiðsla fór í tæpar 700 þúsund einingar. Það var síðan X gerðin sem sló í gegn en það var aðeins útlitspakki – engin afkastabreyting. Auglýsingar á Gremlin voru flestar fléttaðar saman við húmor. Markmiðið var að þú fengir mikið fyrir lítið, og lítinn bíl en værir að sama skapi umhverfisvænn töffari – enda var eyðslan ekki nema rúmir 11 lítrar á hverja 100 kílómetra.
Hér er bráðskemmtilegt myndband um sögu bílsins frá Boca bræðrum:
Myndir: Wikipedia.
Umræður um þessa grein