Manni nokkrum brá heldur í brún þegar hann kom auga á hugmyndabíla frá Nissan innan um brotajárn á leið í pressuna skammt frá höfuðstöðvum framleiðandans í Tennessee. Upprunalegu hugmyndabílarnir (frumgerðirnar) eru nefnilega á leið í bílapressuna.
Já, eins og hvert annað rusl á að pressa upprunalegt eintak af hugmyndabílnum Nissan Quest minivan frá 2002 og eintak af Bevel hugmyndabílnum frá 2007. Þessu furðaði maðurinn sig á og birti myndirnar sem hann tók af bílunum á „haugunum“ í bílagrúppu á Facebook fyrir mánuði síðan.
Þar með var athygli bílablaðamanns The Drive vakin og hingað er sagan nú komin. Haugarnir, eins og ég ætla að kalla þennan stað, eru rétt fyrir utan Nashville í Tennessee. Höfuðstöðvar Nissan í Bandaríkjunum eru á þeim slóðum, þ.e. í bænum Franklin.
Eins og góðra blaðamanna er siður beið Peter Holderith hjá The Drive, ekki boðanna og fór og kannaði málið. Bæði hafði hann samband við umsjónarmann hauganna og bílaframleiðandann sjálfan.
„Þeir eru ekki til sölu,“ sagði starfsmaður hauganna. „Það á að pressa þá.“
Sá sem svaraði fyrir hönd Nissan hafði eitthvað svipað að segja. Bílarnir höfðu verið í geymslu á sögusafni framleiðandans og þegar þeir komu úr geymslunni þótti ljóst að ástandið á þeim væri of lélegt til að halda þeim við. „Við geymdum þá eins lengi og við gátum,“ sagði talsmaður Nissan.
Jú, þetta er dálítið snúin staða því ekki má selja frumgerðir á borð við þessar og ekki kemur heldur til greina að gefa þá, eftir því sem blaðamaður The Drive komst að. Bílarnir hafa því verið á leiðinni á haugana í mörg ár.
Maðurinn sem kom auga á bílana innan um ruslið, Dayton Cooper, sagði að það hefði fyrst og fremst verið Bevel sem fangaði athygli hans, því bíllinn virtist vera í góðu ástandi. Í mun betra standi heldur en Quest. „Engar rúður lélegar, öll hjólin á sínum stað og að innan virtist hann nokkuð hreinn fyrir utan smá ryk,“ sagði Cooper við blaðamanninn.
Hann sagðist jafnframt halda að Bevel-inn yrði bara eins og nýr ef pumpað væri í dekkin og skolað af bílnum.
Starfsmaðurinn talaði af sér
Cooper þessi náði starfsmanninum á ruslahaugunum á spjall og sennilega hefur sá síðarnefndi talað af sér þegar hann sagði að algengt væri að þangað kæmu hugmyndabílar á fund bílapressunnar. Raunar væru þarna á svæðinu tveir hugmyndabílar og þeirra biðu sömu örlög.
Sagði starfsmaðurinn ennfremur að Nissan gerði þá kröfu að myndband væri tekið af förguninni svo enginn vafi léki á því að þeir væru orðnir að klumpi.
Það var víst engin leið ti að „bjarga“ þessum bílum frá pressunni og Cooper virtist þykja þetta mjög miður. Persónulega skil ég hann ekki alveg því mér þykja þessir bílar hundljótir en jújú, það er önnur saga.
Enda bætti blaðamaðurinn við í lok greinar sinnar, sem í heild er að finna hér, að það sé nú almennt svo að hugmyndabílum er eytt. Þessir bílar eru ekki með verksmiðjunúmer og ekki löglegir í umferðinni. Enda uppfylla þeir ekki neinar öryggiskröfur og er þá eitthvert vit í að fylla geymslur og söfn af svona beinagrindum? Nei, ég bara spyr.
Samt, eins og blaðamaður The Drive bendir réttilega á, þá voru það nákvæmlega þessir bílar sem voru aðalatriðin á bílasýningunum á sínum tíma; glandsandi fínir svo hægt var að spegla sig í þeim. Að ógeymdri vinnunni og efniviðnum sem fór í að búa þá til.
Nissan Quest varð að minivan með sama nafni og Bevel hugmyndabíllinn var hugmyndin að því sem síðar fékk nafnið Nissan Cube.
Þessu skylt:
Sportbíllinn sem ekki varð?
Bílar sem aldrei fóru af stað
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein