BL frumsýnir nýjan sjö manna fjórhjóladrifinn lúxusrafsportjeppa
Við heyrum stöðugt fréttir af nýjum bílum frá Asíu sem eru að koma á Evrópumarkað, einkum nýjum rafbílum. Núna er enn einn slíkur að bætast við hér á landi eins og lesa má í eftirfarandi fréttatilkynningu frá BL:
Hongqi er nýtt bílamerki hjá BL við Sævarhöfða og verður af því tilefni haldin sérstök frumsýning nk. laugardag, 15. október milli kl. 12 og 16. Á sýningunni verður flaggskip framleiðandans, hinn aldrifni (AWD) og 100% rafdrifni lúxussportjeppi, Hongqi E-HS9, kynntur og verður reynsluakstursbíll til taks á staðnum.
Hlaðinn þægindum og tækni
Hongqi E-HS9 er stór og rúmgóður 100% rafdrifinn, fjórhjóladrifinn lúxusjeppi frá Hongqi sem framleitt hefur bifreiðar allt frá árinu 1958. Staðalbúnaður í grunngerðinni er vítt opnanlegt glerþak, rafstýrður afturhleri og þykkari bílrúður en venja er til að auka hljóðvist í farþegarýminu.
E-HS9 Exclusive gerðin er búinn meiri tækni en margir eiga að venjast, svo sem loftpúðafjörðun, Nappaleðurákvæði og nuddi í sætum ökumanns og farþega.
Við framsæti Exclusive eru auk þess fjórir skjáir sem samanstanda af stafrænu mælaborði og þremur upplýsinga- og afþreyingarskjám.
Hlaðinn öryggisbúnaði og miklum munaði
Á öryggissviði eru Hongqi E-HS9 búinn mikilli og þróaðri tækni, m.a. skynvæddum hraðastilli með nálægðarstillingum, AVAS hljóðviðvörunarkerfi, rafrænu stöðugleikakerfi, ákeyrsluviðvörun, umferðarskynjara að aftan, 360°myndavélakerfi, bílastæðaaðstð, akreinaskynjara og -stýringu auk sjálfvirkrar neyðarhemlunar svo fátt eitt sé nefnt.
Ítarlegri upplýsingar um vandaðan þæginda- og öryggisbúnað Hongqi E-HS9 má nálgast á vefsíðu merkisins hér á landi, Hongqi.is, bl.is og hjá söluráðgjöfum BL við Sævarhöfða.
Allt að 551 hestafl
BL býður Hongqi E-HS9 í sex og sjö sæta útgáfum sem boðnar eru í þremur búnaðarútfærslum; Comfort, Premium og Exclusive. Útgáfurnar Comfort og Premium eru með sæti fyrir sjö manns (2x3x2) og Exclusive fyrir sex (2x2x2). Comfort-útfærslan er búin 84 kWh rafhlöðu sem skilar 435 hestöflum og 396 km drægni á meðan Premium og Exclusive hafa 99 kWh raflöðu og 551 hestafls rafmótor og er drægni beggja útgáfa 465 km.
Þótt þessi rúmgóði og stæðilegi lúxusjeppi sé um 2,6 tonn er snerpa allra gerða geysilega mikil enda bíllinn aldrifinn og með togkraft frá 600 til 750 Nm sem skilar hröðun úr kyrrstöðu í 100 km/klst á innan við 5 sekúndum.
Góðar viðtökur erlendis
Framleiðsla Hongqi hófst árið 1958 og afhenti framleiðandinn á síðasta ári yfir 3,5 milljónir ökutækja. Hongqi E-HS9, flaggskip merkisins, hefur fengið góðar viðtökur á mörkuðum Evrópu þar sem bíllinn er kominn í sölu, ekki síst í Noregi, þar sem selst hafa um 1.300 eintök frá því að salan hófst fyrr á þessu ári.
Auk Íslands eru um þessar mundir að taka til starfa umboð fyrir merkið í Svíþjóð og Hollandi.
Kostar frá 10.690.000
Bíllinn verður á nokkuð breiðu verðbili, grunngerðin Comfort – 7 sæta kostar frá kr. 10.690.000, Premium-gerðin, einnig 7 sæta kostar frá kr. 12.290.000 og Exlusive – 6 sæta kostar frá kr. 13.390.000
Umræður um þessa grein