Hógvært franskt fjölskylduljón

TEGUND: Peugeot 3008

Árgerð: 2019

Orkugjafi:

Aðstaða ökumanns, umgengni
Aftursæti leggjast ekki alveg flöt
138
DEILINGAR
1.3k
SMELLIR

Hógvært franskt fjölskylduljón

Frakkar gera svo margt öðruvísi en við hin sem búum með þeim í Evrópu. Þeir álíta kaffibolla og Croissant fínan morgunverð á meðan Bretar skúffa í sig steiktum tómati og baunum. Frakkar hugsa líka öðruvísi þegar kemur að bílum og fáir framleiðendur hugsa jafn mikið fyrir öllu eins og höfuðsmenn ljónsins hjá Peugeot.

Ég varð spenntur og kátur þegar mér bauðst að taka 3008 til prufu. Ástæðurnar voru tvær: Í fyrsta lagi þá langaði mig mikið að prófa vél ársins í sínum flokki. Hún er 1,2 lítra bensín, þriggja sílindera og urrar vel. Eitthvað sem á vel við Peugeot 3008 bílinn sem ég var á. Þessi vél knýr bílinn áfram í gegnum nýja átta gíra sjálfskiptingu. Í öðru lagi langaði mig til að upplifa sýn Peugeot á hinn fullkomna jeppling.

Útlit Peugeot 3008 er ekki af verri endanum, hvorn endann sem þú horfir á. Hér ráða ríkjum fallegar og úthugsaðar línur sem gefa bílnum fágað og frábært útlit. Takið eftir svarta listanum á milli ljósanna. Skrunaðu svo upp og taktu eftir hvernig framstuðarinn kemur með brot upp og inn í framljósin.

Pláss á pláss ofan

Það er gaman að setjast upp í og koma sér fyrir í 3008. Þú sest beint inn í bílinn og lítið mál er að stilla sætin í fullkomna hæð fyrir mjaðmirnar þínar. Hér þarf ekkert að beygja sig fram eða snúa sér við. Plássið fyrir fæturna er alveg hreint með ágætum.

Stýrinu er hægt að halla, ýta frá sér eða draga að sér og þannig koma sér vel fyrir til að aksturinn verði sem bestur.

Hurðaopin stór. Sætin í fínni hæð. Hátt til lofts. Hvað vill maður meira? ISOFIX? Það er þarna líka.

?

Aðstaða ökumanns í Peugeot 3008. Sætið er þægilegt og heldur vel við þig og auðvelt að koma sér vel fyrir undir nokkuð litlu og töffaralegu stýrinu. Takið eftir að stýrið er ekki hringlótt, heldur örlítið flatt að ofan og neðan. Það er líka nokkuð lítið og gefur þér því sportlega tilfinningu við aksturinn.

Skottið er stórt og ætti að duga flestum fjölskyldum sem hyggja á kaup Peugeot 3008. Í  miðjunni er opnanlegt fag fyrir skíði og fleiri langa og mjóa hluti. Hægt er að fella niður sætin en þó ekki alveg slétt. Plássið er samt nóg og flatt gólfið gerir alla hleðslu einfalda.

Skottið rúmar 591 lítra með sætin uppi en heila 1670 lítra með sætin lögð niður.
Lausn hönnuða Peugeot við því að halda uppi gólfinu í skottinu er sniðug. Svo sniðug að ég tók mynd til að deila því með þér lesandi góður. Þetta gerir aðgengið að varadekkinu einfalt og þægilegt.

Í aftursætunum er lítið mál að koma sér vel fyrir. Handföng í hurðum gefa þér góðan stað til að hvíla olnbogann og sætisbökin eru há og styðja vel við þig. Mér myndi líða vel aftur í Peugeot 3008 frá Hvammstanga til Djúpavíkur með viðkomu á Selfossi. Armpúða er að finna á milli aftursætanna og ISOFIX festingar, sem blessunarlega eru ekki með neinar plasthlífar yfir sér. Þannig ertu laus við að framkvæma dauðaleit að þessum blessuðu hlífum þegar að þú selur bílinn eftir að hafa verið með barnabílstólinn á sínum stað síðan þú keyptir hann.

Eins og sjá má eru hlífar fyrir neðan hurðirnar á 3008 og koma í veg fyrir að þú fáir skít og drullu í buxurnar við það að ganga um bílinn. Bílakallinn kann að meta það.

Mælaborð úr geimskutlu

Þegar ég settist inní Peugeot 3008 í fyrsta sinn þá kom mér nokkuð á óvart hvernig mælaborðið leit út. Þú ert ekki með þetta alveg hefðbundna skipulag á því. Bilið á milli stýrisins og mælaborðsins er nokkuð stórt. Þetta kemur þokkalega vel út og gefur mælaborðinu einstakt, sterkt og á sama tíma hlýlegt útlit. Skjárinn er síðan algjörlega stafrænn og hægt að hafa hann á nokkra vegu, allt eftir því hvað er þér mikilvægast hverju sinni.

Mælaborð Peugeot 3008 er nokkuð töff. Takið eftir sætisbeltis skjánum í loftinu sem er handhægur til að sjá hverjir eru komnir í belti.

Þarna sést hversu stillanlegt stafræna mælaboðið í Peugeot 3008 er. Nokkuð einfalt og allt bara gert með einum takka á stýrinu.

Það eina sem vantar frá Peugeot er að þeir setji slökkva og ræsa takkann í toppinn og þá líður þér eins og þú sért í raun að keyra um á geimskutlu en ekki frönskum fjölskyldujepplingi.

Undir skjánum fyrir afþreyingarkerfið eru flýtitakkar til að hoppa á milli útvarpsins, Apple Carplay/Android Auto eða leiðsagnarkerfisins til dæmis. Þeir eru nokkuð töff í útliti, þéttir í snertingu og eru silfurlitaðir með flottri hönnun.

Nokkuð handhægar geymslur eru víða í mælaborðinu, þar á meðal þessi fyrir kort.
Allt í kringum bílstjórann hafa hönnuðir Peugeot komið fyrir allskyns stjórnbúnaði fyrir bílinn. Þráðlausa hleðslu er að finna undir flýtitökkunum fyrir framan gírstöngina á mjög svo hentugum stað.

Öll efnin sem þú síðan snertir um bílinn eru þægileg viðkomu. Hér er ekki að finna plöst sem eiga frekar heima sem matardiskar ungabarna.

Peugeot 3008 krakkar.

Lokaorð

Peugeot 3008 kom mér á óvart þegar ég prufaði hann. Hann á svo sannarlega skilið öll þau verðlaun sem hann hefur unnið hingað til en þau eru orðin um sextíu. Ég mæli með Peugeot 3008 fyrir allar þær fjölskyldur sem eru að leita sér að þægilegum fjölskyldubíl í formi jepplings sem hefur útlitið með sér, plássið fyrir allt dótið sem fylgir okkur nútíma fólki, er þægilegur í akstri og umgengni. Taktu hann GT Line með bensínvélinni, eða dísel ef þú ert mikið í langkeyrslu, og Sunset Copper litnum sem er gylltur. Prufaðu svo að setja í hann skíðapoka og sendu mér mynd.

Ef þér lýst á’ann, keyptann!

Helstu tölur:

Verð frá: 4.430.000 (Október 2019)

Verð á sýndum bíl: 4.830.000 (Október 2019)

Vélar í boði: Bensín/Dísel

Hjólahaf: 2.675mm

L/B/H: 4.450/1.840/1.620mm

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar