Hin stórvarasama „stereo-tónlist“
Hætturnar leynast víða og hér er hættan í formi tónlistar. Í frétt sem birtist fyrir 42 árum í Vikunni kemur nefnilega fram að vísindamenn hafi komist að því að lífhættulegt geti reynst að „kveikja á stereo-segulbandinu“ í bílnum.
Lítum nánar á þetta stórvarasama fyrirbæri sem minnst var á í frétt Vikunnar þann 13. mars 1980:
„Bandarískir vísindamenn koma víða við í rannsóknum sínum. Nú hafa þeir komist að því að lífshættulegt getur reynst að kveikja á stereo-segulbandinu í bílnum á meðan á akstri stendur. Donald A. Norman, sálfræðiprófessor við Kaliforníuháskóla, segir:
Eitt af því versta sem þú getur gert sjálfum þér er að kaupa stereohljómflutningstæki í bílinn þinn. Tónlistin, sérstaklega ef hún er góð, tekur hug þinn allan og færir athyglisgáfuna frá akstrinum yfir í heim tónanna.
Slíkt getur reynst afdrifaríkt, jafnvel lífshættulegt — því við akstur verða bílstjórar að hugsa um aksturinn eingöngu eigi þeir að vera öruggir.
Sem dæmi um hvað getur farið úrskeiðis við slíkar aðstæður er að ökumaður missir alla stjórn á hraða, hraðinn fer að stjórnast af takti tónlistarinnar. Ökumaðurinn hættir að taka eftir hættumerkjum og verður líkast til of seinn á sér ef hættu ber að höndum.
Tónlistin veldur því að þú hættir að heyra nokkuð annað en hana.
Svo getur farið í draumaheimi tónanna að þú heyrir ekki einu sinni í vælandi sírenu að baki þér. Gætir eins haldið að hún væri aðeins gott innlegg í tónverkið — og þú lygnir aftur augunum. KRASSSSSS!!!!!“
Svo mörg voru þau orð og var blaðamaður nokkuð örlátur þegar kom að upphrópunarmerkjunum í lokin! Enda háalvarlegt mál að leyfa tónlistinni, einkum ef hún er góð, að taka hug manns allan við aksturinn.
Umræður um þessa grein