Sala á notuðum bílum hefur verið þróast á löngum tíma hér á landi. Í upphafi bílaldar hér var þetta mjög einfalt, bílarnir gengu kaupum og sölum manna í milli og „bílasölur“ voru einfaldlega ekki til.
En á seinni hluta síðustu aldar voru þessi viðskipti orðin það algeng að fyrstu bílasölurnar komu fram í dagsljósið. Salan fór fram með tvennum hætti, oftast var lítið plan við viðkomandi bílasölu þar sem hægt var að skoða bílana, en algengara var að bílarnir „voru á skrá“ hjá bílasalanum sem hafði það hlutverk að finna kaupanda að bílnum og ef það heppnaðist þá var haft samband við eigandann og hann kom með bílinn á staðinn.
En með mikilli fjölgun bíla, og sérstaklega með uppítökum við sölu nýrra bíla komu bílaumboðin sjálf inn á þennan markað, ýmist undir eigin nafni eða stofnuðu sérstök fyrirtæki utan um þetta.
En enn var þetta fyrst og fremst sala á einkabílum sem notaðir höfuð verið á heimilum. Þetta fór smátt og smátt að breytast eftir því sem bílaleigum fjölgaði og ferðamannastraumurinn jókst.
Með þessari gífurlegu fjölgun ferðamanna til landsins er nú svo komið að sala á nýjum bílum til bílaleiga hefur á stundum slagað hátt í sölu á bílum til almennings, eða jafnvel umfram það.
Þetta hefur í framhaldinu orðið til þess að á hverju ári kemur stór hluti notaðra bílaleigubíla inn á markað notaðra bíla, og oftar en ekki þvælist það oft fyrir kaupendum notaðra bíla hvort þeir eru að skoða notaðan bílaleigubíl sem hefur þurft að þola ýmislegt misjafn á vondum vegum landsins eða hér sé venjulegur „heimilisbíll“ sem hefur að mestu verið notaður hér í þéttbýlinu.
Ef tölur samgöngustofu fyrri bara þetta ár eru skoðaðar má sjá að bílaleigubílar á vegum landsins voru liðlega 30 þúsund núna í loka mánaðarins, og höfðu sveiflast á bilinu 25 til 31,5 þúsund á árinu. Þessi tala segir okkur að þetta kemur til með að verða hátt hlutfall á endursölumarkaði á næstunni.
Notaðir bílaleigubílar eru að gerbreyta endursölumarkaðinum á bílum á Íslandi
Í ljósi þess sem sagt var hér að framan datt okkur hjá Bílablogg.is í hug að skoða aðeins notaða markaðinn á Íslandi. Þar kemur í ljós að þú greiðir hámarksverð fyrir notaðan bílaleigubíl í stað þess að fá afslátt af meira eknum bíl, eknum af fleiri hundruð manns, jafnvel þúsundum. Enginn afsláttur og erfitt að gera skiptidíla.
Tökum dæmi um Hyundai Tucson ekinn um 80 þús., árgerð 2022 og við vitum að var bílaleigubíll. Ásett verð var 4.480 þús. krónur. Við skoðuðum bílinn, gerðum fyrirspurn og áttum að fá svar daginn eftir. Þá hafði bílaleigan sem átti bílinn hækkað verðið um eina milljón krónur á viðkomandi bíl.
Sami bíll, stuttu seinna er kominn á „tilboð” þar sem upphaflega verðið er komið á bílinn aftur. Þetta er afar bagalegt þar sem notaði markaðurinn er gegnsýrður af ofnotuðum bílaleigubílum á nánast sama verði og þú myndir kaupa bíl sem hefur verið í einkaeigu.
Bílaleigurnar selja bílinn eftir að vera búnar að afskrifa hann einu sinni, jafnvel oftar. Hvað ræður þessara aðferðarfræði? Er það hrein og bein græðgi?
Hundruðir manns hafa ekið bílnum
Það þarf ekki að fjölyrða að bílaleigubílar eru mikið eknir, enda markmiðið hjá leigunum að hafa sem hæst nýtingarhlutfall. Hins vegar er bíllinn mun meira umgenginn, mun meira ekinn og líklega talsvert meira slitinn eftir notkun á bílaleigu heldur en vegna einkanota. Að sjálfsögðu er misjafn sauður í mörgu fé og við vitum að til er leigjendur sem gefa bílunum engan grið og aka eins og hann sé einnota. Mun fleiri eru eflaust þeir sem fara vel með bílana og skila þeim í svipuðu ástandi og þeir tóku þá – en meira eknum, meira notuðum og meira slitum.
Þess vegna ættu bílaleigubílar að vera mun lægri í verði í endursölu en aðrir sambærilegir bílar.
Bílaleigubílar eru keyrðir af mörgum notendum yfir styttri tíma. Bílarnir fara oft stuttar ferðir og keyrslumátinn mismunandi en það getur leitt til meira slits miðað við bíla í einkaeigu. Bílaleigubílar safna því kílómetrum mun hraðar þar sem þeir eru í nánast stöðugri notkun.
Einkabílum er venjulega ekið af einum aðalnotanda eða heimilisfólki og hafa minni notkunartíðni en ef til vill lengri ferðir. Akstursstíllinn hefur tilhneigingu til að vera stöðugri, sem gæti dregið úr sliti með tímanum.
Rekstraleigubílar
Ef horft er til bílaleigubíla erum við í raun að tala um tvenns konar leigufyrirkoulag. Mestur hluti bílaleigubíla er leigður til ferðamanna og annarra sem þurfa bíla í stuttan tíma.
En á síðari árum hefur orðið mikil aukning í bílum sem eru í „rekstrarleigu“ – þetta eru bílar sem bílaumboðin „selja“ til viðskiptavina með þeim hætti að bíllinn er í raun á „rekstraleigu“ – notandinn borgar fast mánaðargjald, og leigutíminn getur verið misjafn, þrjú eða fimm ár sem dæmi.
Margar bílaleigur hafa farið í svipað fyrirkomulag, og leigja þá oftar en ekki fyrirtækjum flota af bílum til daglegra nota. Í þessu tilfelli getur notkunin verið miklu breytilegri, sumir eru notaðir einfaldlega eins og um einkabíl væri að ræða, en í öðrum tilfellum eru þetta atvinnubílar, sem sölumenn og starfsmenn fyrirtækja nota í vinnuferðum, og þá er notkun bílanna farin að færast nær notkun á hefðbundnum bílaleigubíl.
Viðhald
Bílaleigur fylgja almennt ströngum viðhaldsreglum. Þar sem rekstur þeirra byggist á því að halda bílum í toppstandi er bílaleigubílum vel viðhaldið samanborið við bíla í einkaeigu. Þetta getur leitt til þess bílaleigan þurfi að skipta oftar um hluti eins og bremsur, dekk og vökva, sem getur hjálpað til við að lengja líftíma þeirra, þrátt fyrir þyngri notkun. Þó eru íslensku umboðin dugleg við að selja þjónustuskoðanir, einmitt til að stunda fyrirbyggjandi viðhald.
Viðhaldsáætlanir geta verið mjög mismunandi eftir eigandum. Þó að sumir eigendur séu duglegir gætu aðrir seinkað venjubundinni þjónustu, sem getur haft áhrif á endingu bílsins. Bílar í einkaeigu gætu lent í frekari vélrænum vandamálum síðar á líftímanum vegna ósamræmis í viðhaldi.
Slit
Vegna þess hve bílableigubílum er ekið af mörgum notendum með mismunandi akstursvenjur, hafa bílaleigubílar tilhneigingu til að verða fyrir tíðari minniháttar skemmdum, svo sem rispum, sliti að innan og niðurbroti á bremsum eða dekkjum. Hins vegar eru þessir bílar oft lagfærðir fljótt vegna eðlis leigubransans.
Varðandi einkabílinn gætu eigendur væntanlega verið varkárari með bíla sína, sem leiðir til minni lakkskemda. Hins vegar getur langvarandi slit (sérstaklega ef viðhald er vanrækt) leitt til stærri og dýrari viðgerða í framhaldinu.
Afskriftir og endursöluverðmæti
Vegna mikils kílómetrafjölda sem safnast upp á styttri tíma og þeirrar vitneskju að bílaleigubílum sé ekið mun meira, ættu þeir að lækka hraðar í verði en bílar í einkaeigu. Þegar þeir eru seldir inn á notaðan bílamarkað ættu bílaleigubílar að vera seldir á lægra verði miðað við einkabíla á sama aldri.
Bílar í einkaeigu lækka almennt hægar, sérstaklega ef eigandinn heldur bíl sínum vel við og heldur kílómetrafjölda innan marka viðmiðunartalna um akstur á ári. Bílar með einn eiganda hafa tilhneigingu til að hafa hærra endursöluverðmæti vegna þess að þeir eru taldir hafa fengið betri meðferð.
Ending
Þó að bílaleigubílar geti safnað kílómetrum hratt, er tími þeirra í leiguflota frekar stuttur. Flestir eru seldir eftir 2-3 ár eða eftir að hafa náð ákveðnum kílómetraþröskuldi (venjulega 30,000 til 70,000 kílómetrar árlega). Þeim er hins vegar oftast vel við haldið þannig að ending bílanna þarf ekki að vera minni.
Bíll í einkaeigu er kannski í notkun eins eiganda í langan tíma og með réttu viðhaldi getur hann auðveldlega enst í 10-15 ár eða lengur. Ending er oft meira tengd því hversu vel bílnum er viðhaldið og tíðni notkunar hans.
Eldsneytisnýting og slit á vél
Tíðar styttri ferðir bílaleigubíla, sérstaklega borgarakstur, geta haft áhrif á afköst vélarinnar með tímanum og dregið úr eldsneytisnýtingu. Hins vegar hafa leigufyrirtæki tilhneigingu til að viðhalda flotanum með nýjum gerðum, sem eru sparneytnari og umhverfisvænni.
Eigendur einkabíla sem geyma bíla sína í lengri tíma geta fundið fyrir minnkandi eldsneytisnýtingu eftir því sem bíllinn eldist. Hins vegar hafa þeir líka tilhneigingu til að vera varkárari með hvernig bílnum er ekið, sem gæti hugsanlega dregið úr sliti á vélinni.
Bílaleigubílar verða fyrir meira sliti á styttri tíma vegna fleiri notanda og tíðni notkunar.
Viðhald í bílaleigubílum getur verið betra en á bílum í einkaeigu, sem hjálpar til við að vega upp á móti viðbótarsliti.
Bílar í einkaeigu geta átt lengri líftíma miðað við ár, þar sem þeim er ekið sjaldnar og af meiri varkárni.
Hve langan tíma tekur að greiða bílinn upp
Tíminn sem það tekur bílaleigu að greiða ökutæki að fullu (þ.e. endurheimta kostnað ökutækisins með leigutekjum þess) fer eftir nokkrum þáttum, þar á meðal kaupverði bílsins, leiguverði, nýtingarhlutfalli, rekstrarkostnaði og fjármögnunarkjörum. Hins vegar, byggt á almennum starfsháttum iðnaðarins, er hér yfirlit yfir þá þætti sem taka þátt og dæmigerðar tímalínur.
Lykilþættir sem hafa áhrif á útborgunartíma:
Kaupverð ökutækis:
Bílaleigur kaupa oft ökutæki með afslætti, sérstaklega þegar þau kaupa í lausu beint frá framleiðendum. Afslátturinn getur verið á bilinu 10% til 30% undir smásöluverði. Því lægra sem upphaflegt kaupverð er, því hraðar er hægt að greiða ökutækið. Ef við skoðum íslenska markaðinn sjáum við fljótt að nokkur stór umboð hér á landi stunda sjálfir bílaleigustarfsemi. Þeir eru þannig beggja vegna borðsins og geta náð hámarks hagkvæmni í innkaupum.
Nýtingarhlutfall:
Þetta vísar til þess hversu oft ökutækið er leigt út. Ökutæki með hátt nýtingarhlutfall (80-90% tilvika) mun afla tekna hraðar en ökutæki með lægra nýtingarhlutfall. Venjulega er bílaleigubíll á toppleigu þar sem eitthvað er að gera með meðalnýtingarhlutfall um 70-80%, sem þýðir að bíllinn er leigður út í um 20-25 daga í mánuði.
Rekstrarkostnaður:
Kostnaður eins og tryggingar, viðhald, þrif, afskriftir og stjórnunarkostnaður dregur úr hreinum hagnaði á leigðan bíl. Þennan kostnað þarf að standa straum af áður en leigufyrirtækið byrjar að „greiða” bílinn. Viðhald og afskriftir bíla eru mikilvægir þættir í því að ákvarða hversu fljótt ökutæki verður arðbært.
Er þörf á meira aðhaldi?
Að þessu öllu framansögðu vaknar spurning um hvort þörf sé á meira aðhaldi? Frá sjónarhóli kaupandans á hann rétt á að vita hvort bíllinn sem hann er að skoða hjá bílasala sé hefðbundinn einkabíll eða hvort um sé að ræða bílaleigubíl sem á kannski misjafna notkunarsögu að baki.
Í mörgum nágrannalöndum er þess vandlega gætt að tilgreina hvort um sé að ræða bílaleigubíl eða ekki.
Í dag er hér á landi fylgst með því hvort bíll hafi lent í tjóni og þess getið ef hann kemur í sölu Spurningin er því hvort það þurfi einfaldlega að láta þá skráningu fylgja bílaleigubíl sem fer á almennan markað að hann hafi verið notaður sem slíkur og það sé ekki hægt að afmá þessa skráningu?
Jóhannes Reykdal
Pétur R. Pétursson
Umræður um þessa grein