HERO rallið á Íslandi
Hin merka HERO rallkeppni fór fram á Íslandi á dögunum. Þann 7. – 13. september síðastliðinn mættu hér til leiks á 39 bílum – þeim elsta frá árinu 1939 og þeim yngsta frá 1980, keppendur í rallíi gamalla bíla. Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson startaði síðan rallinu í ausandi rigningu þann 7. september.
Kristján Snær Jónsson er ungur bílaáhugamaður af Reykjanesinu. Við hjá Bílablogg.is hittum Kristján Snæ á dögunum en hann var einmitt í aðstoðarmanna teyminu í rallýkeppni eldri bíla HERO eða Historic Endurance Rallying Organization. Kristján Snær ásamt öðrum íslenskum bílaáhugamönnum unnu sem Local Traveling Marshalls (aðstoðar og fylgdarmenn) í rallýinu.
Íslenskir aðstoðarmenn
Keppendurnir fóru á ákveðinn byrjunarstað og skráðu niður tímana hjá sér og svo vorum við á næsta tímastoppi þar sem við skráðum niður komutíma. Svo heldu þeir áfram að næsta tímastoppi. Þetta tókst mjög vel enda vorum við nokkuð heppin með veður meðan á keppninni stóð. Það var slatti af bilunum á leiðinni og viðgerðarmenn rallsins stóðu sig eins og hetjur. Komu alltaf öllu strax í gang og það voru í raun aldrei neinar tafir vegna bilana. Dagleg keyrsla bílanna var um 280 kílómetrar að meðaltali og alls voru eknir tæpir 2000 kílómetrar í keppninni. Til að teljast gildur í keppninni þarf bíllinn að hafa verið framleiddur eigi síðar en 1986.
Kristján segir að það hafi reynt á menn að aka þessa leið á Íslandi. Já, ég myndi segja að aksturinn hafi án efa verið það sem reyndi mest á ökumenn í þessu ralli. Þetta eru oft erfiðir vegir og hringurinn í kringum landið var farinn á einni viku. Þegar mest var ekið á einum degi erum við að tala um á milli 300-400 kílómetra – með tveimur tímastoppum.
Ég bjóst ekki við öðru en Austin Mini bíllinn myndi vinna. Hann er lítill og alveg ótrúlega snöggur og þegar verið var að prófa brautir þá flaug hann í gegnum þær án nokkurra vandræða. Ég sá því alveg fyrir mér að Austin Mini myndi vinna þetta eða einn af MG bílunum.
Hverjir taka þátt í svona ralli?
Ætli það sé ekki bara fyrst og fremst fólk sem á næga peninga. Þetta er örugglega fokdýrt sport, bæði að halda bílunum við, búa þá undir keppni, koma þeim til landsins og taka síðan þátt í nokkuð dýrri keppni. Ég myndi sko pottþétt grípa tækifærið og fylgja þessu bílafólki í keppni ef mér byðist það segir Kristján Snær. Ég hef mikinn áhuga á bílasporti og félagar mínir eru margir í þessu.
Ég myndi segja að uppáhaldsbíllinn í rallinu nú í sumar hafi verið Datsun 240Z, silfurlitaður. Flottur bíll.
HERO liðið kom hingað til lands árið 2008, í apríl 2015 og síðan núna í sumar. Keppnisliðirnir í Íslandsferðunum eru tveir, nákvæmnisakstur og tímaat(test). Nákvæmnisaksturinn er eins og sérleið í íslenska rallinu. Keppendur vita hvar leiðin byrjar en ekki neitt um tímapunktana á leiðinni og þurfa því að hafa sig alla við að haldast á tíma á allri leiðinni til að fá sem minnsta refsingu. Svo virkar tímaatið þannig að ekið er eins hratt um braut með keilum og markmiðið að snerta engar keilur því það gefur refsistig.
Sigurvegari keppnninnar voru einmitt keppendurnir á Austin Mini bílnum, þau Owen Turner and Rachel Vestey en þau voru með keppnisnúmerið 31. Í öðru sæti lentu þau Seren og Elise Whyte á Standard 10 og í því þriðja þeir David og Edward Liddell á Triumph TR4.
Myndband um HERO keppnina á Íslandi.
Hér má sjá vefsíðu keppninnar á Íslandi sem fór fram nú í sumar.
Umræður um þessa grein