Harley-Davidson bjó til rafknúið fjallahjól án fjöðrunar að framan eða aftan
Þetta er í rauninni fjallahjól eins og þau voru í lok síðustu aldar
Serial 1 vörumerki Harley-Davidson afhjúpaði nýjasta rafhjólið sitt á þriðjudaginn, og það er svolítið þannig að menn velta vöngum. Fyrirtækið lýsir Bash/Mtn sem fjallahjóli, en fæstir nýliðar myndu vilja fara með nýjasta rafhjólið neitt annað en á auðvelda slóð.
Það er vegna þess að Bash/Mtn er með fullkomlega stífa álgrind og gaffal, án fjöðrunar að framan eða aftan.
Það kemur heldur ekki með stillanlega hæð á hnakki og eftir því sem þeir hjá Autoblog komast næst er engin einföld leið til að bæta slíkum möguleika við upp á eigin spýtur. Eini höggdeyfirinn sem þetta hjól kemur með er SR Suntour NCX sætispósturinn sem býður upp á allt að 50 mm færslu.
Harley-Davidson heldur því fram að þeir eiginleikar sem upp á vantar séu í raun ástæðan fyrir því að kaupa Bash/Mtn. „Engin vandræðaleg fjöðrun til að stilla, engin fín drifrás til að stilla – bara tvö hjól, einn gír og einn tilgangur; að veita sem beinustu tengingu milli þín og slóðarinnar,“ sagði fyrirtækið.
Þegar þú hefur farið fram hjá óhefðbundinni hönnun lítur Bash / Mtn út eins og ágætis rafreiðhjól. Hjólið er með 529 Wh rafhlöðu sem má fjarlægja og fyrirtækið segir að muni veita á milli 48 og 152 km drægni, allt eftir landslagi og stillingu sem notuð er.
Það tekur tæpar fimm klukkustundir að hlaða rafhlöðuna að fullu, þó að hlaða megi allt að 75 prósent á um það bil tveimur og hálfri klukkustund.
Sem rafhjól í flokki 1 mun Bash/Mtn hætta að veita þér aðstoð þegar þú hefur náð 32 km hraða á klukkustund. Til að fullkomna pakkann eru TRP vökva diskabremsur og 27,5 tommu slöngulaus dekk frá Michelin.
Á 3.999 dollara (um 509.000 ISK) er Bash / Mtn í hagkvæmari kantinum af því sem þú getur búist við að borga fyrir rafmagns fjallahjól frá fyrirtækjum eins og Canyon, Giant og Trek, en þá eru þessar gerðir allt öðruvísi hjól. Harley-Davidson ætlar aðeins að framleiða 1.050 eintök af Bash/Mtn, en þar af eru 525 hjól ætluð til sölu í Bandaríkjunum.
Tengt myndband:
Umræður um þessa grein