Hagnýt ráð í bílaviðgerðum
Bifvélavirkjar jafnt sem ófaglærðir sem stunda bílaviðgerðir hafa lært ýmis brögð sem flýta fyrir eða hreinlega bjarga geðheilsunni þegar allt virðist ómögulegt. Hér verður fjallað um eitthvað af þeim. Einnig verða gefin almenn ráð.
Öryggi
- Ekki tjakka bíl upp ef hann stendur í halla og passaðu að hann sé á stöðugu undirlagi.
- Ef þú tjakkar bíl upp settu þá alltaf búkka undir sílsinn ef þú þarft að fara undir bílinn. Settu búkkann eins nálægt tjakknum eins og hægt er því þar er sílsinn gerður fyrir að sitja á tjakk eða búkka. Stundum eru sílsar ryðgaðir þá er betra að finna einhvern annan stað sem getur ekki bognað, kramist, slitnað eða brotnað þegar þyngd bílsins hvílir á búkkanum.
- Settu eitthvað við eitt eða fleiri hjól sem skorðar það og kemur í veg fyrir að bíllinn færist úr stað. Sumir bílar koma með slíkum búnaði í tjakk settinu.
- Notaðu viðeigandi hlífðarbúnað.
- Ekki berja með einum hamri á annan. Hamrar eru ekki gerðir fyrir þetta og geta hrokkið í sundur eða flísast úr þeim, flísin endar stundum í andliti þess sem gerir þetta og þar getur hún valdið varanlegum skaða.
Almenn ráð
- Þegar þú ert að vinna í bíl skrúfaðu þá eina rúðu niður, ekki læsa bílnum og settu lykilinn í lykillæsinguna á bílstjórahurðinni eða ofan á topp bílsins. Ef það er hætta á að það komist ryk eða vatn inn um opinn gluggann límið þá plast yfir gluggaopið.
- Ef þú veist ekki hvað þú ert að gera láttu þá frekar einhvern annan sem kann að gera það um viðgerðina. Þó að það geti verið dýrt að láta laga bílinn fyrir sig er enn dýrara að láta bílinn í hendurnar á öðrum til að klára viðgerðina.
- Hafðu einhvern til aðstoðar sérstaklega ef þú ert ekki vanur viðgerðum.
- Ef þú ert að vinna undir húddinu (vélarhlífinni) settu þá t.d. handklæði á brettin þá rispar þú síður lakkið.
- Ef þú þarft að sjóða, brenna eða hita eitthvað undir bílnum, skoðaðu þá vandlega hvort það er eitthvað eldfimt nálægt eða eitthvað sem getur bráðnað. Best er að hreinsa allt vel, jafnvel úða vatni á það sem virkar þurrt og brennanlegt svo hlífa t.d. hosum, hlífum o.fl. sem er úr plasti eða gúmmíi. Það er hægt að vefja rennblautri tusku eða handklæði utan um sumt eða setja upp að öðrum hlutum (meira að segja rennandi blautt bréf virkar). Ef vinnan tekur langan tíma bleyttu þá tuskuna aftur. Það er líka hægt að nota málmplötur sem skjöld ef einhver slík er tiltæk. Hafið vinnusvæðið hreint undir bílnum sem er verið að vinna í en ekkert eldfimt má liggja þar og helst ekki umhverfis bílinn.
- Ekki safna hlutum eða drasli á vinnusvæðinu eða í kringum það, það getur valdið brunahættu og slysahættu. Safnaðu því sem þú hefur tekið úr bílnum á öruggan stað sérstaklega ef það á að nota það aftur, t.d. í kassa eða upp á borð.
- Ef bíllinn þarf að standa óhreyfður í mánuð eða meira þá gæti verið ástæða til að taka rafgeyminn úr sambandi (eða tengja lítið hleðslutæki við rafgeyminn). Flestir nýrri bílar eyða stöðugt smá rafmagni en oft dugar hleðslan á rafgeyminum í 28 daga eða eitthvað lengur ef allt er með felldu. Hafið þó í huga að suma hluti eins og rafmagnsrúður og sóllúgur þarf stundum að endurstilla. Eins eru sum útvörp kóðavarin. Ef rafmagnið fer af þá þarf að setja inn kóðann á ný. Best er kynna sér fyrst hver kóðinn er hjá umboðinu fyrir bílinn en oft fylgir hann bílnum í eigendahandbók eða á sérstöku spjaldi í sumum tilfellum. Handbók bílsins ætti að gefa upplýsingar um hvernig á að setja inn kóðann og stafesta hann. Rúðurnar er oftast hægt að endurstilla með því að ýta eða toga í takkann eftir atvikum til að skrúfa rúðuna upp og halda takkanum þar í 5 til 15 sekúndur eftir að rúðan er komin í toppstöðu. Stundum kemur kippur í rúðuna sem staðfesting á að aðgerðin hafi tekist. Takið alltaf mínuspólinn úr sambandi en ekki plúsinn því þá getur komið neistaflug. Gott er að slökkva á tækjum eins og útvarpi og miðstöð áður en rafgeymirinn er aftengdur. Til að fá nákvæmar leiðbeiningar um hvað á að gera eftir að rafgeymirinn hefur verið tengdur aftur þá er best að leita upplýsinga á Netinu. En hvað sem má segja um Google og YouTube þá eru þau vinir þínir í þessu tilfelli. Ef þú hefur tíma núna þá skaltu kynna þér þetta núna en ekki bíða þangað til að þú þarft að fara út á flugvöll. Skoðið líka myndbandið í lið 2. í Rafkerfi hér fyrir neðan.
- Áður en haldið er af stað í viðgerð eða viðhald kynntu þér leiðbeiningar um hvernig á að framkvæma aðgerðina. Vertu líka viss um að þú hafir alla varahlutina og réttu varahlutina. Stundum er hægt að finna TSB (Technical Service Bulletin) sem eru fréttabréf frá bílaframleiðendum á Netinu sem fjalla um þekkt vandamál, hvernig á að bregðast við og stundum eru númer á varahlutum sem nota á í viðgerðinni eða endurbótinni að finna þar. Stundum er líka hægt að finna verksmiðjuinnkallanir á Netinu. Ef þú finnur eitthvað slíkt gerðu þá við það fyrst eða láttu gera við það fyrir þig áður en lengra er haldið. Svolítið Gúgl og YouTube gláp getur sparað þér mikinn tíma, við bifvélavirkjarnir notum þetta grimmt og skömmumst okkar ekkert fyrir það.
- Notaðu snjallsímann, taktu myndir fyrir, á meðan og eftir að verkinu lýkur.
- Ef þú ert að losa eitthvað stykki úr bílnum sem fer í ruslið að verki loknu og þú ert viss um að vera með rétta varahlutinn, eyddu þá ekki miklum tíma í að losa stykkið úr, ekki vanda þig. Ef það er fljótlegra að skera stykkið, klippa, slíta eða brjóta það án þess að skemma neitt annað gerðu það þá bara strax.
- Ef þú fjarlægir eitthvað stykki af mótornum, troddu þá tusku í gatið svo boltar, rær eða skrúfur detti ekki inn í það.
- Hringdu í varahlutaverslanir og partasölur eða leitaðu á Netinu að varahlutum. Oft er hægt að fá uppgerða hluti eða notaða hluti sem eru ódýrari en viðgerð á hlutnum myndi kosta. Það kemur líka stundum fyrir að það svari ekki kostnaði að gera við eitthvað því nýr hlutur getur verið hagkvæmari kostur. M.a. gæti verið betra að kaupa annann eins notaðann bíl sem er í góðu standi og nota þann gamla í varahluti.
- Vertu þér út um allt sem gæti þurft að skipta um áður en þú byrjar. Þú getur alltaf skilað því sem þú notar ekki. Ekki láta varahlutaskort eða verkfæraskort stoppa þig.
Rafkerfi
- Aftengdu alltaf mínusinn á rafgeyminum fyrst og tengdu hann síðast ef þú þarft að taka geyminn úr sambandi. Plúsinn er merktur með rauðum lit til aðgreiningar frá mínusnum (sá nýlega dæmi þar sem tengipunktar fyrir startkapla undir vélarhlíf voru báðir rauðir) sem er svartur og plúspóllinn er sverari en mínusinn á rafgeymum. Pólarnir eru líka merktir með + og – en þau merki sjást oft illa eða ekki ef rafgeymirinn er óhreinn. Svona á að skipta um rafgeymi. Sjá myndband hér!
- Ef þú þarft að aftengja rafgeyminn í skamma stund (eða skipta um hann) þá er til búnaður sem hægt er að tengja í sígarettukveikjarann eða rafmagnsúrtakið (merkt power outlet) sem viðheldur nægu rafmagni til að tölvur missa ekki minnið. Þetta er líka hægt að útbúa heima ef þú átt tengið sem passar og tengir vírana við t.d. 9V kassarafhlöðu. Þetta virkar bara ef rafmagnið fer ekki af rafmagnsúrtakinu þegar svissað er af bílnum. Stundum er hægt að breyta því með því að færa eitt öryggi til í öryggjaboxi. Það er líka hægt að fá búnað eins og þann sem sést í eftirfarandi myndbandi. Sjá myndband hér!
- Yfir 50% bifreiða sem lagt er biluðum út í vegarkanti, samkvæmt tölfræði í Evrópu, enda þar vegna rafmagnsbilana í rafkerfi. Oftast eru þetta vandræði með hleðslu eða rafgeymi. Sem er oft auðvelt að koma í veg fyrir. Það er gott ráð að láta mæla hleðsluna og rafgeyminn reglulega. Fæstir eiga mælitæki til þess sjálfir.
- Tengið startkapla helst ekki á rafgeymi a.m.k. ekki mínusinn, oft eru sérstakir tengipunktar fyrir kaplana í bílum. Rafgeymar eru alls ekki alltaf undir vélarhlífinni en það er samt oftast hægt að gefa start þar.
- Það er hægt að halda rafgeyminum hreinum án tækja. Sumir nota matarsóda sem er blandaður í vatn og skrúbba pólana á rafgeyminum með þeirri lausn. En eitt gamalt ráð sem mér var kennt og hefur dugað mér vel er að hella heitu vatni úr krana yfir pólana. Ef það hefur orðið tæring á geymaskóm úr kopar þá verða þeir skínandi á eftir. Skolið svo með köldu vatni á eftir til að óhreinindin sitji ekki eftir einhvers staðar fyrir neðan rafgeyminn. Þurrkið svo allt vatnið ofan af rafgeyminum.
- Stundum þarf að hreinsa geymaskóna að innan og pólana þar sem skórnir snerta þá t.d. með sandpappír (varist að taka of mikið efni), þegar því er lokið og búið að tengja geyminn aftur, þá má setja einhverja feiti yfir skóna og pólana þegar þeir eru tengdir til að koma í veg fyrir að það myndist útfellingar við pólana. Sílikon feiti er sennilega best, sumir nota vaselín (petroleum jelly), aðrir koppafeiti og jafnvel koparfeiti. En varist að láta feitina lenda á snertifletinum því hún er einangrandi.
Hemlakerfi
- Ef þú þarft að lofttæma hemlakerfi passaðu þá að það sé nægur vökvi í forðabúrinu. Athugið að sum ABS hemlakerfi þarf að lofttæma með tölvu.
- Ef loftnippill losnar ekki auðveldlega sláðu þá á endann á honum það losar um tæringu sem heldur nipplinum föstum. Fyrir alla muni náðu honum úr án þess að brjóta hann, nýir fást víða og eru ekki dýrir en brotni hann í gatinu gætir þú þurft að skipta um hjóldælu og það er dýrt.
- Ef þú ert að skipta um hemlaslöngu eða rör er oft best að skera eða klippa nálægt nippli og setja topp upp á til að losa. Oft þarf að reka topp upp á nippilinn sem er einu eða tveimur númerum of lítill af því nippilinn er svo ryðgaður. Ef það er ekki hægt þá er möguleiki að nota rörtöng eða eitthvað annað sem tryggir gott átak. Fastir eða skaddaðir boltar, rær eða skrúfur o.fl.
Fastir eða skaddaðir boltar, rær eða skrúfur o.fl.
- Ef þig vantar meira átak en þú ræður við gætir þú sett rör upp á endann á lyklinum sem þú ert að vinna með en gættu að því að lykillinn þolir bara visst átak. Eins ef þú ert að vinna með fasta lykla getur þú sett lokaða endann eða augað á boltann sem á að losa og tekið annann stærri lykil og sett lokaða endann á honum inn í opna endann á hinum og þú ert kominn með tvöfalt átak. Það væri reyndar hægt að bæta fleiri lyklum við en þetta getur verið varasamt.
- Súrefnisskynjarar geta verið ansi fastir en það eru til sérverkfæri (toppar) til að losa þá en þau duga samt ekki alltaf. Besta ráðið virðist vera að setja opna endann á föstum 22 mm (minnir mig) lykli á “rónna” á skynjaranum og slá á hinn endann á lyklinum með þungum hamri. Skynjarinn er laus eftir þetta. Best að klippa vírana í sundur (ef það á ekki að nota hann aftur) aðeins frá skynjaranum þá eru þeir ekki að þvælast fyrir og halda ekki á móti þegar hann er skrúfaður úr.
- Ef þú ert að glíma við bolta sem er fastur í áli prófaðu þá að láta heitt kranavatn renna yfir svæðið í kringum hann, hann losnar á endanum þó það taki marga klukkutíma. Ryðolía og hitun með gasi virðist yfirleitt ekki gera neitt gagn, það gerir frekar ógagn.
- Steinolía er ágætis snittolía fyrir ál.
- Ef þú þarft að skipta um glóðarkerti getur þú þurft að láta vélina verða a.m.k. 80° heita áður en þú reynir það. Sumir bílaframleiðendur mæla með þessu.
- Svipað gildir stundum um spíssa/dísur í díselmótorum ef mótorinn er heitur þá er auðveldara að ná þeim úr. Ég heyrði sögu þar sem það var erfitt að ná spíss úr heddi en eftir að hafa komið afdráttarkló fyrir, setja “pressu” á hann með klónni og láta heitt vatn renna yfir heddið þar sem spíssinn var datt hann úr fyrir rest.
- Ef haus á skrúfu er skemmdur er hægt að leggja gúmmíteygju yfir hausinn, þrýsta skrúfjárni inn og prófa að snúa.
- Eru allir föstu lyklarnir of stórir fyrir verkið? Þá er hægt að bjarga sér með því að fylla bilið með einhverjum málmhlut eins og smámynt, ró, skinnu eða stinga skrúfjárni á milli. Þetta gæti mögulega líka virkað þegar toppar eru of stórir.
Þessi grein er skrifuð samkvæmt reynslu höfundar, því sem hann hefur lært af samstarfsfólki, yngra og eldra bæði faglærðu og ófaglærðu. Einnig leit að lausnum t.d. á YouTube.
Það væri gaman ef lesendur gætu komið með athugasemdir um hvort það sé eitthvað í þessari grein sem þeim finnst að mætti bæta við og þá undir hvaða lið.
Hér er gott ráð frá einum lesanda okkar á Bílablogg.is – Einari Torfa Einarssyni Reynis.
Eitt sem ég hefði viljað bæta við, þegar menn/konur eru að losa bolta og finna hvernig hann þyngist meir við hvern snúning sem boltinn fer. Þá væri snjallræði að herða aftur upp á boltanum eða jugga framm og tilbaka og setja smurefni með, þar sem oft er endinn á boltanum (hinum meginn) mjög ryðgaður og veldur því að boltinn verður sífellt stífari þegar gengjur boltans þar sem ryðið er og gengjur stykkis sem hann er skrúfaður í mætast. Í svona tilvikum er “tilfinningin” mikilvægust, að finna hvenær ákveðin stærð af bolta er farin að þyngjast það mikið við losun að hann á í hættu með að slitna/brotna í sundur.
Af þessum sökum og fleirum þá mæli ég eindregið ekki með að nota loftlykla né rafmagnslykla við að losa minni bolta í bílum þar sem svona aðstæður geta komið upp, því með þessum öflugu tækjum er engin leið að “finna” hve stífur boltinn er.
Auðvitað mætti færa rök fyrir því að högg vélanna hjálpa til við að koma ryðguðum boltanum í gegnum gengjurnar og þó að satt reynist þá hefur hitt reynst mér betur í gegnum tíðina. Sérstaklega þegar tekið er með að þegar mjög ryðgaðar gengjur eru “neyddar” í gegnum aðrar gengjur þá geta þær einfaldlega skemmst eða eyðilagst. Þess vegna er betra að taka sér tíma í stífa bolta því það getur sparað óteljandi klukkutíma í að bora út og snitta ef allt færi til heljar.
Einar Torfi Einarsson Reynis.
Umræður um þessa grein