Nú er bara komið að þessu! Cambrian rallið í Norður-Wales hefst í fyrramálið og þar eigum við góða fulltrúa.
Íslandsmeistararnir í ralli, þeir Gunnar Karl Jóhannesson og Ísak Guðjónsson, keppa þar en við ræddum við þá fyrir rúmum mánuði síðan og viðtalið við þá má lesa hér.
Pollrólegur en grjótharður keppnismaður
Blaðamaður tók Gunnar Karl tali þar sem hann hafði í nógu að snúast í Wales og spurði nokkurra spurninga. Nú hef ég þekkt Gunnar Karl frá því hann var sautján ára en það var árið 2014 sem ég lukkaðist til að keppa í ralli fyrst. Það, að kynnast því magnaða fólki sem er í kringum þá akstursíþrótt er eitt mesta heillaskref lífs míns. En nóg um það!
Það sem ég vildi segja um Gunnar Karl er að alltaf, já alltaf, er hann alveg pollrólegur. Í miðri keppni og allt í stressi; nei, þá er þessi maður algjörlega slakur. Í það minnsta virðist hann vera það. Og það virðist hann líka vera í dag, daginn fyrir keppni.
Hvernig sem það nú er þá er hann mikill keppnismaður og það sama á við um Ísak. Þess vegna eru þeir Íslandsmeistarar og þess vegna verður mjög spennandi að fylgjast með keppninni á morgun, laugardaginn 30. október.
Tvennt ólíkt
Eins og sagði í fyrri greininni sem vísað er í hér að ofan þá hafa þeir Gunnar Karl og Ísak báðir keppt í ralli erlendis en þetta er í fyrsta skipti sem þeir keppa saman erlendis.
Undirbúningur fyrir svona keppni er mjög frábrugðinn undirbúningi fyrir hefðbundið rall hér heima. „Það er voða lítið sem maður getur gert sjálfur, í rauninni. Þetta kostar mikið meira því maður þarf að borga öðrum fyrir að gera hlutina fyrir mann. Hluti sem maður myndi annars gera sjálfur, eins og að undirbúa bílinn og sjá til að allt sé í lagi. Eins og til dæmis bremsusystemið á bílnum, það er slitið að aftan og við myndum bara skipta um það sjálfir heima en hér þurfum við að borga öðrum fyrir að gera það. En bíllinn er svo sem í góðum höndum og við treystum þeim alveg til að vinna starf sitt vel,“ segir Gunnar Karl.
Mesti munurinn snýr samt að leiðarnótunum, en keppendur fá ekki að skoða fyrirfram þær leiðir sem eknar verða í rallinu og þar af leiðandi er gerð leiðarnótna með allt öðru sniði en maður er vanur. Nánar var fjallað um þetta í fyrri greininni og leyfi ég mér að birta aftur svar Ísaks um leiðarnóturnar:
„Við fáum ekki að leiðarskoða og því reiðum við okkur á video og leiðarnótur sem keppnishaldarar útvega okkur. Þetta fá keppendur viku fyrir rallið og gefst okkur tími til að undirbúa okkur eins vel og völ er á. Ferjuleiðir eru frekar langar í þessu ralli og það getur verið mjög krefjandi að rata og villast ekki. Við fàum nákvæma leiðarbók sem við verðum að fylgja í einu og öllu! Tímakortin eru flóknari svo og allt það sem tengist service og fleiru,“ útskýrir Ísak.
Jarðvegurinn, dekkin og vegirnir
Keppendur fá þó að prófa bílana í sambærilegu umhverfi og keppt er í. Þannig að þó keppendur hafi ekki ekið sérleiðirnar fyrirfram, hafa þeir hugmynd um hvernig vegirnir og jarðvegurinn er.
„Það kom mér á óvart hversu þéttur jarðvegurinn er. Hann er samt allt öðruvísi en á Íslandi og erfitt að lýsa þessu. En miðað við hvað dekkin slitnuðu rosalega hratt í testinu þá er undirlagið greinilega allt öðruvísi. Þetta er víst mjög sleipt þegar það er blautt þannig að það verður áhugavert að sjá hvernig vegurinn þróast þegar hann er blautur,“ segir Gunnar Karl en eins og spáin er núna ætti að rigna snemma í fyrramálið en annars ætti hann að hanga þurr fram eftir degi.
Vissulega skiptir jarðvegurinn miklu máli og sömuleiðis hvernig vegirnir eru lagðir. „Heima eru vegirnir tiltölulega flatir og halla smávegis annað slagið en hérna eru rosalega margir staðir þar sem vegurinn hallar og er í rauninni eins og öfug skál. Hann er hæstur í miðjunni og fellur svo niður sitthvorum megin. Þannig að í svona flæðandi beygjum sem eru vinstri-hægri-vinstri þá verður maður að fara ofan í beygjuna þar sem er rosa góður camber [halli], þannig að ef þú ferð of hratt í gegnum beygjuna þá ferðu í öfugan halla út úr henni, sem dregur þig stundum inn í drulluna og draslið sem er fyrir utan veginn. Þetta er stærsti hluturinn sem ég þarf að passa mig á í röllunum hérna.“
Það sem gæti hægt á þeim
Gunnar Karl segir tvennt geta hægt á þeim í rallinu, þ.e. sem þeir eru meðvitaðir um og það er slitið á afturdrifinu og það að hafa ekki fengið að leiðarskoða. „Við getum ekki alveg treyst nótum sem aðrir hafa skrifað, alla vega getum við ekki treyst þeim betur en okkar eigin nótum,“ segir Gunnar Karl en minnir á að það sé mikil heppni að hver og ein leiðanna þriggja sé ekin tvisvar. „Þá getum við lagað nóturnar og reynt að gera betur í seinna skiptið.“
Helstu keppinautarnir
Það er nú stóra spurningin: Hverjir verða helstu keppinautar þeirra á morgun? Í rallinu hér heima getur maður verið nokkuð klár á hverjir styrk- og veikleikar annarra keppenda eru, enda þekkjast flestir ágætlega og keppendur mun færri en til dæmis í Cambrian rallinu.
Hátt í hundrað og fimmtíu áhafnir eru skráðar og okkar menn eru númer 28 í rásröð og sex aðrir úr sama flokki á undan í röðinni. En alls eru 28 í þeirra flokki. Gunnar Karl útskýrir hvernig best sé að líta á þetta: „Við setjum fókusinn á þá sem eru á undan okkur í rásröð. Við ætlum bara að vera í mixinu með þessum sex í B13 flokknum sem ræsa á undan okkur.“
Nefnir Gunnar Karl ökumann að nafni George Lepley sem er númer 12 í rásröðinni sem verðugan keppinaut: „Hann er rosalega fljótur og er á Evo X sem er búið að græja fyrir alveg tvöfalt verðið á bílnum okkar þannig að það er rosalega öflugur bíll. Svo eru fleiri flottar græjur í flokknum eins og Ford Escort og fleiri.“
Topp fimm fyrir íslensku þjóðina
„Við ætlum að reyna að vera eins ofarlega og við getum. Topp fimm er held ég raunhæft markmið og auðvitað væri rosalega gaman að komast á pall!“ Þau orð Gunnars Karls hljóma vel og munum við fylgjast með og greina frá gangi mála á morgun, eftir því sem fréttirnar berast eyja á milli.
Þeir sem komið hafa nálægt ralli vita hve mikilvægt er að hafa góða styrktaraðila en það er ekki síður mikilvægt að finna stuðning allra sem fylgjast með.
„Styrktaraðilarnir okkar eru náttúrulega bara íslenska þjóðin. Það eru margir íslenskir rallarar og gamlir vinir sem hafa hjálpað okkur mikið til að komast hingað út. Svo eru það styrktaraðilarnir Olís, Brauð & Co., Dominos og Poulsen auðvitað, GT-Akademían, Klettur og Merking. Allir hafa þeir hjálpað okkur mikið í sumar. Olís hefur gert þessa ferð fjárhagslega mögulega. Og auðvitað allir liðsmennirnir sem eru með okkur. Þetta er ekki einstaklingsíþrótt,“ segir Gunnar Karl og tekur fram að enn eigi eftir að nefna fólkið sem farið hefur með stærsta hlutverkið í þessu öllu saman.
„Pabbi og mamma. Ég á það til að gleyma að nefna þau. Alveg óvart! Þau hafa sýnt mikla þolinmæði því þetta hefur tekið dálítið á fjölskylduna og það er mikið lagt undir og svolítið stress á köflum. Pabbi og mamma eiga stærsta hrósið skilið fyrir að vera með mér í þessu, bæði á erfiðum tímabilum og góðum tímabilum. Þau eiga þetta í raun allt saman, alla titlana og sigrana,“ segir Gunnar Karl Jóhannesson að lokum.
Meðfylgjandi myndir koma frá hinum ýmsu liðsmönnum sem og ljósmyndaranum Arfon Jones sem gaf okkur glaður leyfi til að birta þær hér.
Hér er hlekkur á tímana og uppfærast þeir á morgun í takt við gang rallsins
Rásröðina má sjá hér
Síðast en ekki síst er hér hlekkur á síðu bílstjórans Gunnars Karls.
Umræður um þessa grein