Það þótti heldur betur magnað árið 1968 þegar bifreið var flutt frá Íslandi til annars lands með þotu!
Tæpu ári eftir að fyrsta þota Íslendinga, Gullfaxi, kom til landsins flutti hún þennan „nýstárlega farm“ sem fjallað var um á forsíðu Vísis þann 18. apríl 1968. Þótti með ólíkindum að annað eins væri hægt: Að senda bíl til London á aðeins tveimur tímum. Auðvitað var það og er magnað!
Fyrirsögn fréttarinnar: „Bifreið til London á tveim tímum – Gullfaxi með nýstárlegan farm“
„Þota Flugfélags Íslands annaðist nú fyrir skömmu nýstárlega flutninga. Nú eru ekki lengur vandræði því samfara að flytja bifreiðir millilanda. Liggi mönnum á slíkum flutningum er vandinn ekki annar en að hafa samband við Flugfélagið og að fáum klukkustundum liðnum er bíllinn kominn í fjarlægt land. Þetta gerðist nýlega. Bíll í eigu brezks ríkisborgara var fluttur héðan til London með Gullfaxa, þotu Flugfélagsins,“ sagði í frétt Vísis.
Þotan, sem var af gerðinni Boeing 727, var keypt ný frá verksmiðjum framleiðandans og var henni ákaft fagnað við komuna til landsins í júní 1967. Eins og glöggt má sjá af framhaldi fréttarinnar var Gullfaxi mikill og merkur gripur.
„Eins og kunnugt er af fréttum er þotan útbúin stórum vörudyrum, og eins og sjá má á myndinni, sem tekin var, þegar bíllinn var settur um borð hér í Reykiavík, áttu starfsmenn félagsins ekki í neinum vandræðum með að koma bifreiðinni fyrir. […] Í vetur hefur framhluti þotunnar verið nýttur til vöruflutninga, en um þessar mundir aukast farþegaflutningar á ný og öll 114 sæti flugvélarinnar verða nýtt til farþegaflutninga.“
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein