Nokkru fyrir aldamótin átti ég það til að fá heiftarlega dellu fyrir hinum ýmsu GTI-bílum. Sagði þá fólk í kringum mig: „Nú er hún Malla með dillu.“ Það versta var að þetta var alltaf sagt eins og maður væri í eins konar ástandi, ekki húsum hæfur og síst af öllu væri maður marktækur á meðan.
Þetta var ekki gott því mér var fúlasta alvara með minni dellu eða mínum „dillum“ eins og foreldrar mínir, afar og ömmur kölluðu þetta. Ég gat bara ekki hugsað um annað en tiltekna bíla og oft voru þeir margir í einu. Ég las allt sem ég komst yfir um þessa bíla, teiknaði þá og prófaði ef kostur var á.
Þetta síðastnefnda var einmitt það erfiðasta. Það er að segja áður en ég fékk bílprófið. Þá var nefnilega alveg ómögulegt að prófa bílana. Og ekki gekk að reyna að fá foreldra mína til að fara og prófa þá með mér nema kannski í eitt skipti en það var ekki GTI-bíll heldur Dodge Ram og skrifaði ég um það í öðrum pistli (hlekkur hér neðst).
Já, og rétt er að viðurkenna að ég fæ enn svona „dillur“ en mér tekst bara betur að fela þær fyrir þeim sem í kringum mig eru.
Hér eru nokkrir þeirra bíla sem get varla sofið fyrir um nætur og dreymdi um á daginn!
Renault 5 Turbo
Ég gekk býsna langt til að eignast þennan bíl en hann er jafnframt sá eini í þessari upptalningu sem ég hef eignast. Auðvitað hef ég átt marga bíla um ævina en þessi er nú sá skemmtilegasti og næst á eftir má nefna Subaru Impreza WRX sem búið var að eiga einhver ósköp við en það er nú önnur saga.
Um Renault 5 Turbo hef ég skrifað grein og er hlekkur á hana hér neðst.
Peugeot 205 GTI 1.9
Citroen Saxo VTS 16v
Ástæðan fyrir því að mig langaði í þennan var sú að til var túrbó-kitt sem ég ætlaði að setja í bílinn. Þessum bílum (1996-2003) var víst nokkuð auðvelt að breyta og gera úr þeim algjörar rakettur.
En ég eignaðist hvorki bílinn né kittið.
Toyota Corolla GTI
Honda C-RX 1.6 VTEC
VW Golf GTI og VR6 og svo auðvitað R32 síðar
Fiat UNO GTI
Mig langaði nú aðallega í þennan af því ég átti Fiat UNO og taldi víst að hann gæti hæglega orðið að GTI ef ég hugsaði bara nógu mikið um það. Úr varð að ég fór, eins og álfur, út í Bílanaust og keypti mér GTI merki sem ég límdi aftan á.
Úff… ég veit. Hrikalega hallærislegt!
Þeir voru auðvitað mun fleiri en þessir tóku sitt pláss í kollinum á mér. Og gera kannski enn!
Þessu nátengt:
Ég og Renault 5 Gt Turbo
Bílarnir sem ég hefði viljað eiga 1998
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein