Gömul og úrelt bílorð
Bíllinn á sér vel yfir hundrað ára sögu hér á landi og í upphafi bílaaldar var ekki mikið til af orðum um þá hluti sem voru í bílnum, en eftir því sem árin liðu var farið að koma fram með íslensk orð yfir ýmislegt í bílunum, sum góð en önnur voru síðri og náðu eiginlega aldrei að festast í málinu.
Innan bílgreinarinnar var komið á laggirnar „bílorðanefnd“. Innan nefndarinnar störfuðu nokkrir mætir menn sem hittust reglulega og það var kappsmál þeirra að koma með góð orð í stað þeirra „tökuorða“ sem voru orðin allsráðandi í málinu.
Meðal þeirra voru þeir Guðni Karlsson, sem var um langa hríð í forsvari fyrir Bifreiðaeftirlit ríksins og skrifaði meðal annars þá merku bók Bíllinn, sem fjallaði um bílinn og alla helstu íhluti hans, Finnbogi Eyjólfsson, sem gjarnan var kenndur við Heklu, sem var vinnustaður hans mestan hluta ævinnar og langt fram yfir þann tíma sem menn setjast í helgan stein.
Svo má nefna Ingiberg Elíasson, sem starfaði við kennslu í bíliðnaði, fyrst hjá gamla Iðnskólanum og svo við Borgarholtsskóla, en hann lést fyrir aðeins nokkrum dögum síðan.
Bílorðanefndin vann ötullega að því að safna saman nöfnum og hugtökum í bíliðnaði. Ég þekkti flesta þessa menn vel og vann náið með Finnboga Eyjólfssyni um árabil.
Köttát og dínamór
Þegar ég fékk bílprófið fyrir 60 árum og fór um leið að umgangast bíla, þá lærði maður öll þau helstu orð sem snertu viðhald og notkun bíla.
Bíllinn var Morris 8, með 6 volta rafkerfi, en það var að vísu búið að skipta út vélinni og setja vél úr Austin 8 af sömu árgerð í staðinn, og sömuleiðis voru framljósin úr Austin 8.
En maður lærði fljótt að gera við allt sem maður gat sjálfur og þá þurfti að læra „réttu“ orðin yfir alla hluti.
Meðal eftirminnilegra orða má nefna „köttát“ eða Cut-Out, sem stýrði rafhleðslunni í bílnum og stýrði því hvernig rafmagnið frá „dínamónum“ var leitt til rafkerfisins og geymt í rafgeyminum.
„Köttátið“ var lítið box og þegar það var opnað komu í ljós spólurofar sem opnuðu eða lokuðu fyrir rafstrauminn og stýrðu þannig hleðslunni frá „dínamónum“.
Ó já – „dínamór“ eða græjan sem framleiddi rafstrauminn (rafallinn eða alternatorinn í dag) var sívalningslaga tæki, sem leit út eins og rafmótor, með reimskífu sem tengd var við viftureimina á bílnum.
Það þurfti stundum að skipta um fóðringar í dínamó og oftar um kolin í honum, en þau voru tvö og lágu að snúningsfleti á öxli dínamósins og áttu það til að slitna hratt, sérstaklega ef ekið var mikið á rykugum vegum.
Kveikja og „platínur“
Kveikjan er tengd snúningsöxli og er notuð er í brunahreyflum með neistakveikju sem hafa vélrænt tímastillta kveikju. Meginhlutverk kveikjunnar er að leiða háspennustraum frá kveikjuspólunni að kertunum í réttri kveikjuröð og á réttum tíma.
Það mætti halda lengi áfram að skrifa um gömul og glötuð orð út bílaheiminum, en látum þetta nægja að sinni. Meira næst.
Umræður um þessa grein