Fyndnar auglýsingar geta gefið tóninn í upphafi vikunnar og átt sinn þátt í að koma fólki kampakátu af stað út í umferðina svona á mánudagsmorgni. Sérstaklega ef þær auglýsa eitthvað sem hvorki er fáanlegt né mann vanhagar um.
Eitt besta dæmi um slíka auglýsingu, að mati undirritaðrar, er hér fyrir neðan og er frá árinu 2003. Rúmeninn Leo Burnett leikstýrði auglýsingunni, en í dag hafa fæstir nokkra einustu hugmynd um hvað í veröldinni var verið að auglýsa!
Bílaauglýsing sem auglýsir ekki bíla
Lesendur hafa ef til vill séð þessa auglýsingu, enda nokkuð gömul eða á svipuðum aldri og nýlegasti bíllinn í mínum flota. Þ.e. nýleg en samt eiginlega gömul. Já, 10 ára er auglýsingin sem flestir sem henni deila á YouTube halda að sé auglýsing fyrir bíl eða bíla.
„Láttu þér ekki leiðast“ var slagorð herferðarinnar „Anti-boredom“ sem rúmenska sjónvarpsstöðin Antena 1 ætlaði að fara í af krafti árið 2003 en herferðin bæði hófst og endaði með þessari auglýsingu.
Hvað misheppnuðu markaðsátaki í Rúmeníu 2003 líður þá kemur auglýsingin í veg fyrir að manni leiðist lengi eftir áhorfið. Hún er stutt og æðislega fyndin. Bílarnir í henni eru Dacia Solenza og Lada 1200.
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein