Glæponar og bílarnir þeirra
Öll höfum við séð bíómyndir og sjónvarpsþætti þar sem aðal „atvinnutæki“ glæpona eru bílar.
Glæpamenn og flóttabílar þeirra haldast í hendur, en vissirðu að hugmyndina um flóttabifreið má í raun rekja allt aftur til alræmda útlagans Jesse James?
Nýjungar James í glæpastarfsemi Bandaríkjanna komu frá aðferðum skæruliða sem hann hafði kynnst í borgarastyrjöldinni, með hröðum áhlaupum og skjótum flótta sem skipti sköpum fyrir hann og hann gat nýtt sér síðar í bankaránum.
En hlutirnir eru langt komnir frá þeim dögum þegar skúrkar rændu lestir af hestbaki en ef það er eitthvað sem glæpamenn elska að eyða illa fengnum ávinningi sínum í þá eru það öflugir bílar. Hvort sem þeir nota þá til að komast á milli staða eða bara til að láta sjá sig.
Með þetta í huga þá eru hér nokkur dæmi um glæpamenn og bílana þeirra.
Al Capone
Sé litið aftur til þriðja áratugar síðustu aldar gæti hríðskotabyssan hafa verið besti vinur gangsteranna, en hraðskreiður bíll var örugglega ekki síðri vinur.
Glæpamenn snemma á þriðja áratug síðustu aldar byggðu upp heimsveldi sitt í miðri tæknibyltingu. Þeir voru meðvitaðir um að rétt farartæki gat ráðið úrslitum um hvort þeirra biði vist í fangaklefa eða frelsið sjálft.
Al Capone kaus Cadillac frá 1928 341, og er talið að Capone sé einn af fyrstu gangsterunum til að búa bíla sína brynvörn og skotheldu gleri. Þessi tiltekni bíll átti líka sína sögu: Samkvæmt sögusögnum tók Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseti bílinn eignarnámi eftir að Capone var handtekinn og notaði sem forsetabíl.
Capone átti einnig nokkra aðra bíla, þar á meðal 1940 V-16 Cadillac sem nú er til sýnis (eftir samkomulagi) hjá Collings Foundation í Massachusetts.
Til upprifjunar var Capone mafíósaforinginn sem náði yfirráðum yfir glæpaveldi Chicago 26 ára að aldri. Hann var tengdur við alræmdustu ofbeldisglæpi í sögu borgarinnar.
Ekki tókst að ákæra hann í tengslum við ólögleg viðskipti eða framkvæmd glæpa. En hann var handtekinn og sakfelldur fyrir skattsvik, og þannig var honum komið á bak við lás og slá í Alcatraz.
Joaquín „El Chapo“ Guzmán – eða „sá stutti“
Yfirmaður Sinaloa-samtakanna, öflugustu fíkniefnasamtaka heims, eiturlyfjabaróninn Joaquín Guzmán Loera, annars þekktur sem El Chapo, er einn frægasti glæpamaður heims. Hann er almennt kallaður „El Chapo“ eðs „sá stutti“.
El Chapo fæddist í Mexíkó og byrjaði sinn glæpaferil á unglingsaldri. Sinaloa-samtökin stofnaði hann árið 1989 og eru þau gríðarstór á heimsmælikvarða.
El Chapo er þekktur fyrir ofbeldisverk sín og flótta úr fangelsi. Hann er „metinn“ á yfir 70 milljónir punda og árið 2009 skipaði hann 701 sæti á Forbes listanum yfir ríkustu menn heims.
Öllum þessum krafti og ríkidæmi fylgir náttúrulega langur listi yfir virðuleg ökutæki. Ef við skoðum fáeina bíla sem El Chapo hefur átt þá má til dæmis nefna Jeep Sahara, Dodge Viper, Mercedes G-Class, Dodge Challenger SRT Hellcat og nokkur mótorhjól.
Bonnie og Clyde
Af öllum glæpamönnunum sem tengjast ökutækjum eru fáir eins frægir og Bonnie Parker og Clyde Barrow. Snemma árs 1934 stálu þau bíl og óku honum 2.500 mílur. Ökuferðin sú einkenndist af fjölda rána og morða.
Sá bíll var Ford V8, knúinn tiltölulega nýrri V8-vél með sléttu heddi, sem varð vinsæll hjá alls kyns glæpamönnum um Bandaríkin vegna afls hans og hversu auðvelt var að breyta honum.
Auðvitað var frægð Bonnie og Clyde undirstrikuð með bílnum sem skartar yfir 100 kúlnagötum.
Reyndar, í apríl 1934, skrifaði Barrow meira að segja til Henry Ford sjálfs og hrósaði bílnum og sagði: „Fyrir viðvarandi hraða og frelsi frá vandræðum hefur Fordinn reynst betur en hver annar bíl, og jafnvel þótt viðskipti mín hafi ekki verið stranglega lögleg, þá skaðar það engan að segja þér hvað þessi V8 bíll er fínn.“
Bronco-bíllinn hans O.J. Simpson árið 1993
Við skulum í lokin færa okkur aðeins nær nútímanum. Þó að við getum aldrei vitað fyrir víst hvort fyrrum NFL stjarnan O.J. Simpson framdi morðin sem hann var sakaður um, þá vitum við að hann var á undan lögreglu í löngum eltingaleik um Los Angeles, á hvítum Ford Bronco 1993.
Það vitum við því eltingaleiknum var sjónvarpað beint; í fyrsta skipti sem bandarískt fréttanet varði fjármunum til slíkrar útsendingar. Simpson var í aftursætinu en vinur hans Al Cowlings ók.
Jafnvel þó félagarnir hafi reynt að komast hjá handtöku lögreglu óku þeir á hægt og úr varð prýðilegasta sjónvarpsefni sem tekið var upp í fréttaþyrlum sem sveimuðu yfir þeim.
Eftir um klukkustund gafst Simpson upp í innkeyrslunni heima hjá sér og fjölmiðlasirkus í kringum réttarhöld hans var lengi í gangi.
Bronco-bíllinn sjálfur er tveggja dyra V8 og skipti um eigendur nokkrum sinnum eftir Simpsons eltingaleikinn. Ford hætti með þessa gerð árið 1996, aðeins tveimur árum eftir eltingaleikinn.
Látum þetta duga í dag um glæpamenn og bílana þeirra – en kannski meira seinna.
Umræður um þessa grein